21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (4665)

100. mál, menntun kennara

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Það gegnir líku máli um þetta frv. eins og að, sem er á þskj. 173 og ég hef nýlokið að mæla fyrir. Þetta frv. er flutt á sama hátt af menntmn. að beiðni hæstv. menntmrh. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um kennaramenntun, og hefur í því verið safnað saman á einn stað öllum ákvæðum um allar þær stofnanir, sem til þessa hafa veitt kennaramenntun hér á landi. — I. kafli frv. fjallar um sjálfan kennaraskólann. Á l. um kennaraskólann er þó ekki lagt til með þessu frv. að gera verulegar breyt., enda starfar hann samkv. l. frá 1943, sem þá voru mjög rækilega og vel undirbúin. Tvennt er þó í þessu frv., sem er nokkru fyllra og nokkuð með öðrum hætti en í núgildandi l. um kennaraskólann. Annars vegar eru það inntökuskilyrðin. Þau eru hér ákveðnari og reyndar nokkru strangari en samkv. núgildandi l. Hér er gert ráð fyrir, að inntökuskilyrði í kennaraskólann verði þau sömu og inntökuskilyrði í menntaskóla, miðskólapróf úr bóknámsdeild. Með þessu verður kennaraskólinn hliðstæður menntaskólum og fær hliðstæð réttindi. Það eru í frv. þau nýmæli, að ýmsar höfuðnámsgreinar kennaraskólans fái sama gildi sem námsgreinar menntaskóla, þ. e. a. s., að próf í þeim jafngildi prófi í sömu greinum frá menntaskóla. Nemandi, sem lokið hefur kennaraprófi samkv. þessum till., þarf, til þess að öðlast stúdentsréttindi, ekki að taka próf nema í nokkrum námsgreinum, í máladeild í latínu og nokkrum öðrum málum, og í stærðfræðideild fyrst og fremst í stærðfræði og eðlisfræði. Þetta eru gagnkvæm réttindi þeim, sem stúdentar öðlast. Þeir þurfa að bæta við sig námi í uppeldisfræði og kennsluæfingum til þess að öðlast kennararéttindi.

II. kafli er um kennaradeild við Háskóla Íslands. Þar er um nýmæli að ræða, þar sem gert er ráð fyrir því, að stofnað verði til sérstakrar deildar við háskólann, sem veiti kennslu í uppeldisfræðum, og að þangað geti þeir farið, sem lokið hafa kennaraprófi, þótt ekki hafi þeir lokið stúdentsprófi. Hlutverk deildarinnar er: Að veita barna- og unglingakennurum framhaldsmenntun, að búa þá, sem lokið hafa almennu kennaraprófi eða stúdentsprófi, undir kennslustörf við miðskóla og gagnfræðaskóla og að annast rannsóknir og leiðbeiningar í þágu uppeldismála landsins, meðal annars með stöðuval. Það er gert ráð fyrir, að þessi deild starfi í mjög nánu sambandi við Kennaraskóla Íslands og þó sérstaklega við æfinga- og tilraunaskólann.

III. kafli frv. fjallar um Íþróttakennaraskóla Íslands. Sú stofnun er til og er starfandi á Laugarvatni, og er ekki gert ráð fyrir í þessu frv., að neinar breyt. verði á hennar l. Þó er hér lagt til, sem ekki hefur áður tíðkazt, að til þess að sá, sem lokið hefur prófi frá íþróttakennaraskólanum, öðlist íþróttakennararéttindi. Þurfi hann einnig að hafa lokið almennu kennaraprófi. Að sjálfsögðu geta menn til þess stundað nám utan kennaraskólans, þó að þeir hafi ekki lokið kennaraprófi, en það nám veitir þeim ekki réttindi til þess að kenna við skóla landsins. Hins vegar gætu þeir orðið leiðbeinendur um íþróttir og kennt á námskeiðum.

IV. kafli frv. er um Handíðakennaraskóla Íslands. Það er gert ráð fyrir því í frv., sem fyrir þ. liggur og samið er af milliþn. í skólamálum, að horfið verði að því ráði að auka mjög verklegt nám við unglingaskóla landsins. En það er ljóst, að mjög mun á það skorta, að við höfum nóga hæfa kennara til þess að annast þessa kennslu. Hér í þessu frv. er lagt til, að úr þessu verði bætt með því að koma upp sérstökum handíðakennaraskóla, sem væri þá á sínu sviði hliðstæður Íþróttakennaraskóla Íslands, og þyrftu nemendur að hafa lokið almennu kennaraprófi til þess að handíðakennaraprófið veiti þeim sérkennararéttindi. Þessi stofnun er starfandi nú þegar, því að í handíðaskólanum hér í Reykjavík njóta nú kennaraefni frá kennaraskólanum sérkennslu í verklegum greinum. Og þessi kennsla er kostuð af ríkinu, eins og kennsla kennaraefna að öðru leyti. N. taldi rétt, að vel mætti fela handíðaskólanum þetta starf fyrst um sinn, eins og verið hefur, en sjálfsagt væri rétt að gera ráð fyrir, að þessi kennsla fari í framtíðinni fram í eins konar framhaldsdeild í sambandi við Kennaraskóla Íslands.

V. kafli frv. er um hússtjórnarkennaraskóla. Sá skóli er nú þegar til. Er ekki lagt til að gera verulegar breyt. á stjórn hans og starfsháttum, nema það, sem hliðstætt er við aðra skóla, sem frv. er um, að stúlkur, sem stunda nám í þessum skóla, þurfi að hafa lokið almennu kennaraprófi og prófi frá þessum skóla til þess að fá sérkennararéttindi.

VI. kafli frv. fjallar um almenn réttindi kennara. Sé ég ekki ástæðu til að rekja efni þess kafla á þessu stigi málsins.

Menntmn. mun taka málið til rækilegrar athugunar á milli 1. og 2. umr. Einstakir nefndarmenn hafa óbundnar hendur um einstök atriði frv.