26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (4670)

101. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef nú reynt í grg. þessa litla frv. að taka fram aðalefni málsins og rök. Og af þeim ástæðum tel ég, að ég geti farið fljótt yfir sögu með framsögu í þeirri von, að hv. alþm. sé þetta ljóst. En þannig er um þetta í fáum orðum sagt, að það hefur komið fram við framkvæmd laxveiðilaganna eða þessi ákvæði í l., að ekki er heimilt að veiða fisk úr sjó. Það hefur komið fram og er talið mjög vafasamt, að menn, sem búa við sjávarströndina, frammi við árósana, hafi heimild til að leggja net í fjöruborðinu hjá sér og megi láta þau liggja á meðan flæðir yfir netin og af þeim aftur, enda þótt það sé alveg uppi í landsteinum, þó fyrir ofan netlög, en þau ná frá stórstraumsfjöruborði 115 metra þar fram og út í sjó. En jafnvel fyrir ofan netlög er talið hæpið, að menn megi leggja net í land sitt samkv. l. Nú hljóta allir að sjá, að þótt á stöku stað hagi þannig til, að laxinn fer það nærri landi, að hann fari í slík net sem þessi, er það mjög óvíða og í mjög litlum mæli. En hins vegar ætti það að vera augljóst mál, að úti í breiðum fjörðum er ólíkt minni hætta, sem laxveiðunum stafar af því, að þarna séu lögð net, en við landið eða inni í árósunum, þar sem gönguvegurinn fyrir laxinn þrengist, en þar er það leyft út frá báðum löndum. En í breiðum fjörðum, þar sem einn og einn lax slagar upp að ströndinni, er þeim bændum, sem þar eiga land að, fyrirmunað að nota þessi hlunnindi, sem geta einstöku sinnum orðið mikil hlunnindi fyrir þá, þótt það sjái ekki högg á vatni miðað við veiðina í heild. Hér virðist mér og fleirum, sem gengið sé óþarflega á rétt einstöku manna, sem hér eiga hlut að máli, að banna þeim að nota sér þessi hlunnindi, sem þeim af náttúrunnar hendi tilheyra. En stéttarbræður þeirra, sem búa ofar í fjörðum og upp með ám, þar sem miklu hægara er að taka laxinn í stórum torfum, þeim er leyft að veiða lax í net. Það er eingöngu til þess að fá bætt úr þessari réttarskerðingu, sem kemur illa niður á einstaka bændum, að ég fer fram á þessa breytingu. Ég er ekki að halda því fram, að hér eigi að raska að neinu leyti þeim höfuðtilgangi l. að takmarka þá hættu, sem laxinum getur verið að því að vera dreginn upp áður en hann kemur í árnar til að hrygna. Hættan er ekki meiri en við ýmsar veiðar, sem leyfðar eru með l., og ég vænti þess, að þeir bændur, sem búa á þeim jörðum, sem þannig er ástatt um að hafa þetta frá náttúrunnar hendi, fái sama rétt til að nota þessi hlunnindi með þeim takmörkunum, sem l. setja, eins og aðrir bændur, sem nota þessi veiðileyfi samkv. lögunum.