26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (4672)

101. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki vera margorður um þetta mál, enda er ég sammála hv. þm. Árn. um friðun laxins í aðalatriðum, en mér þótti hann mikla um of fyrir sér þá hættu, sem fylgdi samþykkt þessa frv. Vitanlega er hættan miklu meiri þar, sem veitt er í árósunum, en þar er víða leyfð veiði frá báðum löndum. Hitt er rétt, að þar sem laxveiði er leyfð með stórvirkum drápstækjum, þar getur þetta verið hættulegt. Það, sem vakir fyrir mér, er, að sem flestir búendur hafi not laxveiðinnar með venjulegum tekjum. Ég vil ekki meina þeim bændum að veiða, sem búa á ströndinni, og tel þá ekki hættulegri en aðra. Ég hafði ekki hugsað mér að leggja til, að notuð yrðu önnur net en þau, sem nú eru leyfileg. Ef önnur net eru talin, þá er það yfirsjón mín.