06.12.1945
Neðri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (4688)

133. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Á síðasta Alþ. kom fram frv. til breyt. á iðnlöggjöfinni, sem miðaði að því að rýmka aðgang að iðnnámi. Málið var til meðferðar í þinginu, en var síðan vísað til ríkisstj., eftir að hæstv. samgmrh. hafði gefið yfirlýsingu um, að í undirbúningi væri athugun á breyt. á iðnfræðslulöggjöfinni. Þann 16. des.1944 var skipuð nefnd til þess að athuga þetta mál. Í henni áttu sæti: Helgi H. Eiríksson, Einar Gíslason, Guðgeir Jónsson, Snorri Jónsson og Ragnar Jónsson. Árangurinn af starfi þessarar nefndar er frv. það, er hér liggur fyrir. Hæstv. ráðh. sendi iðnn. þetta frv. með þeim tilmælum, að hún flytti það. Nefndin hefur orðið við þeim tilmælum, en þó er rétt að geta þess, að einstakir nm. hafa óbundnar hendur um tillögur, sem fram kunna að koma.

Ég vil nú minnast á helztu atriðin, sem frv. þetta fjallar um.

Frv. er byggt á þeirri gömlu reglu, sem gilt hefur, að aðeins meistarar skuli hafa með iðnfræðslu að gera. Auk þess eiga nemendur að stunda nám í iðnskóla. Til að hafa eftirlit með iðnfræðslu skal skipa iðnfræðsluráð. Eftir 3. gr. frv. á ráðh. að skipa 4 menn í þetta ráð, eftir tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna 2 og Alþýðusambandsins 2, en síðan hefur nefndin óbundnar hendur um formannsval úr sínum hópi. — Ég skal geta þess, að mér finnst ráðið gæti verið öðruvísi skipað. Þm. vita, að iðnnemar hafa myndað félagsskap, og fyndist mér ekki óviðeigandi, að slíkt iðnnemasamband hefði einhverja íhlutun um skipun iðnráðs. En þetta er nú til athugunar í nefndinni.

Í 7. gr. segir nánar frá, hver séu verkefni iðnráðs. Þar stendur meðal annars, að iðnráð skuli ákveða, hvað marga nema megi hafa við hvert iðnfyrirtæki, með tilliti til þess, að þeir fái fullkomna kennslu. Það hefur löngum verið deilt um það, hvernig takmörkunum skuli hagað varðandi iðnnám. Eftir þessu frv. er það iðnráð, sem á að skera úr um slíkt, þannig að miðað verði við, að nemendur fái sem fullkomnasta kennslu.

Ég tel mjög nauðsynlegt, eins og nú er háttað, að fá allfjölmenna vel menntaða iðnaðarmannastétt, en til þess þarf að kosta kapps um að veita iðnnemum góða fræðslu. Við vitum allir, að nú eru sveinar látnir kenna nemendum, og ef of mörgum nemendum er hleypt í einhverja iðngrein, væru meistararnir ekki þess umkomnir að veita þeim nauðsynlega þekkingu. Það er því eðlilegt að setja það ákvæði, að nemendurnir fái að njóta fullkominnar kennslu í iðninni, og það er frá mínu sjónarmiði aðalatriði málsins. Hitt verður að fara á hverjum tíma eftir iðnaðarmönnunum annars vegar og unga fólkinu hins vegar, sem fer til náms, hvað margir ganga inn á þessa braut, en það opinbera, sem á rétt á að láta sig verulega skipta fræðslu í þessum efnum eins og öðrum greinum, á fyrst og fremst að hugsa um, að öruggt sé, að allir þeir, sem iðnaðarnáms leita, fái þar sem fullkomnasta fræðslu.

— Ég hef farið svo mörgum orðum um þetta atriði af því, að það hefur verið mikið umræðuefni hér á þingum áður og viðkvæmt deilumál.

Þá vil ég benda á, að í 8. gr., um skyldur iðnfræðsluráðs, er gert ráð fyrir að koma á hæfnisprófum. Hæstv. samgmrh. flutti fyrir tveimur árum till. hér á þingi um, að reyna skyldi að koma á hæfnisprófum og leiðbeiningum um stöðuval. Ég er fyrir mitt leyti þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að koma þessu á, en þrátt fyrir samþykkt Alþ. fyrir tveimur árum hefur lítið eða ekkert verið í þessu gert, en með þessu frv. er gert ráð fyrir með þessari till., að iðnfræðsluráð hafi þetta með höndum, og ætti það eftir eðli málsins að vera bezt komið í höndum þess ráðs, og mætti, ef svo yrði, gera sér nokkra von um, að þetta yrði að veruleika, sem vissulega er mjög þýðingarmikið atriði, að það sé komið á fót hæfnisprófum í stofnun, sem hefur með höndum leiðbeiningarstarfsemi um stöðuval.

Þá vil ég benda á, að í 17. gr. þessa frv. er ákvæði um, að meistara eða iðnfyrirtæki sé skylt að greiða iðgjöld til sjúkrasamlags fyrir nemendur sína. Hér er um atriði að ræða, sem nauðsynlegt er, að bundið sé, og ætlunin er, að þetta geti líka orðið í fullu samræmi við þá löggjöf, sem væntanleg er á yfirstandandi Alþ. um almannatryggingar.

Þá vil ég að lokum vekja athygli á, að í 22. gr. frv. er atriði, sem hefur verið nokkurt þrætumál, en þar var mþn., sem skipuð var meisturum og sveinum og óháðum mönnum frá ríkisstj., öll á einu máli um, að ef yfir stendur verkfall eða verkbann á vinnustað, þá skuli nemendur, sem stunda nám sitt, ekki taka þátt í framleiðslustörfum á meðan. Um þetta hafa stundum staðið nokkrar deilur, ef vinnustöðvun hefur átt sér stað í sambandi við iðnrekstur, en ég álít, að fyrir báða aðila, atvinnurekendur og verkamenn, sé eðlilegt, að löggjöfin skeri úr þessu, þar sem ekki er um að ræða venjulegt vinnuafl, heldur menn, sem stunda nám, þó að þeir stundi vinnu þar. Á þetta er minnzt í grg., og vil ég lesa það upp með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnnemar eru hvort tveggja í senn námsmenn og þátttakendur í atvinnulífinu. Í vinnudeilum undanfarið hefur afstaða þeirra oftlega borið á góma og valdið ágreiningi og óvissu. Þykir heppilegt að leysa það mál með því að taka þá út úr atvinnulífinu, þegar svo stendur á, með opinberri ráðstöfun“.

Ég skal geta þess í sambandi við 22. gr. 2. málsgr., að þar er komizt svo að orði, að ef vinnudeila stendur yfir svo lengi, að nemanda sé verulega meinað nám hennar vegna, þá geti iðnfræðsluráð framlengt námssamninginn um hæfilegan tíma. Þetta er gert til þess, að vinnudeilur, sem upp kunna að rísa, þar sem nemar fella niður vinnu samkvæmt gildandi landslögum, verði ekki til þess, að möguleikar til fullkomins náms verði skertir að nokkru verulegu leyti.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að rekja ákvæði frv. meir, en ég fyrir mitt leyti tel heppilegt, að þingið setji sem fyrst l. um þetta efni. Þetta hefur verið nokkurt deilumál, sérstaklega varðandi fjölda nemenda, sem stunda nám í vissum iðngreinum, auk þess sem með þessu frv. er leitazt við að koma á nýmæli, sem er áreiðanlega heppilegt á sviði iðnaðarmála, en það eru hæfileikapróf og leiðbeiningar um stöðuval.

Ég vil svo aðeins að lokum taka fram, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, að grg. ber með sér, að einstakir nm. hafa óbundnar hendur um frv., og ég fyrir mitt leyti mun athuga hvað snertir breyt. á 3. gr. um það, hverjir eigi að skipa iðnráðið og hvaða aðilar eigi að tilnefna iðnfræðsluráðið.

Þar sem mál þetta er flutt af n., er ekki ætlazt til, að því verði vísað til n., en ef breyt. koma fram undir meðferð málsins, þá mun n. væntanlega taka afstöðu til þeirra, þegar þar að kemur.