06.12.1945
Neðri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (4689)

133. mál, iðnfræðsla

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég vil þakka hv. iðnn. fyrir, hversu greiðlega hún hefur komið málinu á framfæri. Það var, eins og hv. frsm. sagði, þannig til þessa máls stofnað, að í fyrra voru bornar hér fram breyt. á iðnaðarlögunum, sem hv. flm. sættust þá á, að yrðu dregnar til baka á þann hátt, að málinu væri vísað til stj. og hún fengi það til athugunar. Þessi athugun hefur nú farið fram af báðum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, sveinum og meisturum og mönnum, sem um langt skeið hafa starfað að þessum málum, skólastjóra iðnskólans og fulltrúa sakadómara. Ég vænti því, að með frv. sé fengin eftir atvikum lausn, sem una megi við til frambúðar, og þætti þess vegna mjög æskilegt, ef þetta mál gæti fengið afgreiðslu á þinginu nú og yrði gert að l. á þessu þingi.

Ég sé svo ekki, eftir hina ýtarlegu grg. frsm., að nein þörf sé að fara um frv. fleiri orðum.