12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 1. minni hl. (Jón Pálmason) [Frh.]:

Herra forseti. Það er liðin vika síðan ég flutti fyrri hluta þessarar ræðu og því ekki að undra, þó að ég sé farinn að gleyma nokkru af því, sem ástæða hefði verið til að taka fram í sambandi við nál. 2. minni hl. og ræðu hv. þm. Mýr., enda er það svo. En þetta kemur ekki að mikilli sök, vegna þess að það er eftir ein umr. Auk þess er það nokkurn veginn víst, að frv. gengur í gegn, hvort sem það er rætt lengur eða skemur.

Þó eru það nokkur atriði, sem ég vil víkja að, þó að langt sé um liðið, og skal ég því byrja á að ítreka það, sem ég benti á í fyrri hluta þessarar ræðu, að í nál. á þskj. 88, frá 2. minni hl. landbn., er meðal annars sagt, að styrjaldarástandið sé óbreytt að þeirra áliti, eins og það var þegar sex manna nefndar l. voru sett, og aðrar stéttir en við bændur ákveði sjálfar sín laun og sín kjör, og að stéttarsamband bænda, sem kallað er, hafi verið stofnað að fullu og öllu, eins og hv. þm. Mýr. segir, á lýðræðislegan hátt. Búnaðarráð er skipað eintómum bændum, og mér þætti gaman að vita, hvort þeir, sem halda því fram, að troðið sé á rétti bænda, mundu fallast á, að 25 verkamenn, skipaðir af ráðh., ákvæðu allt kaupgjald í landinu. Ég hygg, að þessir menn mundu hika við að samþykkja slíka ráðstöfun.

Þá er farið fram á, að verðlagningarvaldið sé fengið í hendur stéttarsambandi bænda, en það er ekki enn þá viðurkennd stofnun, og þess vegna er slíkt ekki mögulegt. Við skulum segja, að þessi till. væri tekin til greina og þá haft í huga, að ríkisstj. hefur tekið að sér að greiða hluta af verði þessara vara. Sambærilegast við slíka ráðstöfun væri það, að Alþýðusambandið ákvæði kaup verkamanna eða B.S.R.B. réði launum embættismanna, og væri eðlilegt, að þeir, sem þessari till. fylgja, samþ. einnig slíkar ráðstafanir.

Hinu er ekki að leyna frá minni hálfu, að fari svo í framtíðinni, að ríkissjóður greiði ekkert vegna þessara vara og verðið getur farið eftir því, hve hátt verð markaðurinn þolir, og stéttarsambandið er orðinn réttur aðili þessara mála, þá tel ég rétt, að stjórn slíks bandalags hafi verðlagninguna með höndum, enda þá orðnar breyttar aðstæður frá því, sem nú er.

Því hefur verið blandað saman við þetta mál af hv. minni hl. landbn. og hv. þm. Mýr., hvernig verðlag landbúnaðarvara er ákveðið. En úr því að þessu hefur verið blandað saman, þykir mér rétt að drepa á það. Við 1. umr. þessa máls kom það fram hjá hv. þm. Mýr. og blöðum stjórnarandstöðunnar, að sú skylda hvíldi á ríkisvaldinu að skaffa okkur bændum ákveðið verð fyrir framleiðslu okkar. Þessir menn virðast ekki hafa áttað sig á þeirri breytingu, sem varð þegar 6 manna n. verðið var fellt úr gildi. Þess vegna ræða þeir málið á öðrum grundvelli en fyrir lá, þegar verðlagsnefnd landbúnaðarvara tók til starfa. En þá var um það að ræða, hvað hátt verð markaðurinn þyldi. En í fyrra var ákveðið að fella niður verðlagsuppbætur, sem miða átti við samkomulag 6 manna n., og á þessa leið féllust flestir þm. og þar á meðal ég, þar eð ég taldi, að það mundi borga sig að fá fullar uppbætur á útfluttar afurðir.

Nú var eina leiðin fyrir verðlagsnefnd að athuga, hve hátt verð innlendi markaðurinn þolir, og má segja, að starf þessarar n. sé ekki auðvelt. Annars vegar eru neytendur, sem segja, að verðið sé of hátt, og hins vegar segir hv. þm. Mýr. og hans fylgismenn, að verðið sé of lágt fyrir bændur. En þegar hann fullyrðir, að verðið í ár verði lægra en í fyrra, þá er það vitanlega ekkert annað en fullyrðing út í bláinn. Þetta fer allt eftir sölu kjötsins á innlenda markaðinum, en það þyrfti að seljast nálaga allt og hefði gert það, ef stjórnarandstæðingar hefðu ekki á allan hátt reynt að spilla fyrir sölu þess. En e. t. v. geta þeir ekki komið í veg fyrir, að allt kjötið seljist.

Hv. 1. landsk. talaði hér við umr. fyrir hönd þeirra, sem álíta, að verðið sé og hátt. Hann vildi, að kjötverðið væri ákveðið 6 kr. í vísitölu og síðan væri látið afskiptalaust um sölu þess. Ég er ekki viss um, að þetta hefði verið heppileg leið. Við skulum gera ráð fyrir, að farið hefði verið að ráðum hv. þm. Mýr. og kjötverðið verið ákveðið 12–15 kr. á markaðinum. Ég hygg, að þetta hefði leitt til þess, að mynduð hefðu verið samtök meðal neytenda um að kaupa ekki kjöt. — Nei, ég hygg, að sú leið, sem valin hefur verið, sé hin bezta sem völ var á. Og þótt aðstaða okkar bænda sé e. t. v. ekki ákjósanleg, þá er hún þó eftir atvikum góð.

Fyrir efri deild liggur nú frv., sem gefur meiri ástæðu til að ræða þessar gerðir verðlagsnefndar, og skal ég því ekki eyða meiri tíma til þess nú.

Ég vil svo vænta þess, að þetta frv. fái fljóta afgreiðslu og að till. okkar hv. 1. landsk. verði samþ.