12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs í þessu máli fyrir 8 dögum, af því mér blöskraði svo mjög röksemdafærsla hv. þm. A.-Húnv. Nú er ég búinn að gleyma miklu af því, sem ég vildi sagt hafa.

Hv. þm. A.-Húnv. mun vera einn hinna sárafáu manna, sem telur þá leið, sem farin var í þessum málum, heppilega. Ég hef ekki talað við nokkurn mann, sem er ánægður með þessa skipan, einkum þegar þess er gætt, að til var stéttarsamband bænda. Hv. þm. A.-Húnv. vill halda því fram, að þetta samband hafi ekki verið viðurkenndur aðili. Sú von brást nefnilega að gera þetta samband að því tæki, sem upphaflega var áformað. Ef það hefði tekizt, væri allt í lagi með þetta samband að dómi hv. þm. A.-Húnv. En þetta samband er nú stofnað, og það mun krefjast síns réttar, hvað sem þessi hv. þm. segir.

Þá segir hv. þm. A.-Húnv., að 6 manna nefndar ákvæðin séu úr gildi fallin, en þau lög voru sett á meðan styrjaldarástand ríkti, og það ríkir enn þá óumdeilanlega og ég fullyrði, að hv. þm. A.-Húnv. hélt því fram á þinginu 1943, að með þessum ákvæðum væri fundin lausn á togstreitunni um verðlag á milli bænda og verkamanna. Því hefur ekki verið haldið fram fyrr en nú, að 6 manna nefndar verðið hafi ekki verið rétt, þótt nú séu brigður á það bornar, einkum af fulltrúum verkamanna. Og hv. þm. A.-Húnv. fyllir þeirra hóp.

Ég held því fram, að þetta álit hafi á sínum tíma verið vel rökstutt, enda var því ekki mótmælt fyrr en það þótti hagkvæmt að níðast á einum aðila. Það hefur verið á það bent, að bændur slógu af sínum réttmætu kröfum, en stjórnarflokkarnir launuðu með því að slá á útrétta hönd þeirra og hækkuðu laun því nær allra stétta, og nú í haust er því sama haldið áfram.

Reglugerðin um kjötsöluna kom ekki fram fyrr en allt of seint, til þess að reyna að gera hlut bændastéttarinnar sem verstan með slóðaskapnum, og það var það, sem dró úr kjötsölu allan októbermánuð. Hv. þm. A.-Húnv. og hv. 1. landsk. þm. sögðu, að stéttarsamband bænda væri stofnað sem flokksklíka framsóknarmanna, og er það undarlegt, ef við eigum alla bændur, eins og hv. þm. A.-Húnv. sagði, en því miður er nú ekki svo enn þá, þó að vonandi sé, að svo verði sem allra fyrst. Í stjórn stéttarsambandsins eru nú hvorki meira né minna en 3 sjálfstæðismenn af 5. Það kemur engum á óvart, þó að þeir hv. þm. A.-Húnv. og hv. 1. landsk. þm. séu sammála, því að þau merkilegu örlög hafa beðið hv. þm. A.-Húnv., að hann er í hverju málinu á fætur öðru í faðmlögum við kommúnista, þá menn, sem vilja síztan hlut stéttar hans. En raunar er nú ekki hægt lengur að telja hv. þm. A.-Húnv. fulltrúa bændastéttarinnar.

Ég ætla svo ekki að segja meira að sinni, en vonast til þess að fá tækifæri til þess að ræða þetta nánar síðar.