13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (4706)

140. mál, nýbyggingarráð

Pétur Ottesen:

Mig langar að segja aðeins örfá orð í sambandi við þær fyrirhuguðu lántökur hjá seðladeild Landsbanka Íslands. — Mér skilst, að í þessu frv. og í frv. um fiskveiðasjóð Íslands sé átt við sömu upphæð, sem um getur í 3. gr. og 4. gr. þess frv. Í tilefni af þessu vildi ég skjóta því fram, hvort ekki væri alveg fullnægjandi að taka þetta ákvæði, sem felst í l. um nýbyggingarráð, upp í frv. um fiskveiðasjóð Íslands. Það, sem mér skilst, að skilji á milli, er að tryggja sjóðnum erlendan gjaldeyri til þessara lánveitinga. Mér finnst það ná sama takmarki, að tekið sé fram í frv. um fiskveiðasjóð, að það, sem hann lánar, sé veitt í erlendum gjaldeyri. Að vísu er þessi upphæð bundin hámarki, 100 millj. kr., og ætti þetta einnig að vera tekið fram um lánveitingar, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég held það sé eðlilegast, að þetta komi fram í hinum einu og sömu lögum, en ekki tveim. Ég vil því mælast til við þá n., sem fær mál þetta til meðferðar hér í deildinni, að taka þetta til athugunar. Þá yrði að sjálfsögðu að taka ákvæðin um fiskveiðasjóðinn og þá tilfærslu í samræmi við hina breytinguna upp í það frv., sem það yrði sett í.

Annars vil ég einnig nota tækifærið og skjóta því fram, að mér skilst, að svipta eigi sjóðinn tekjum af útfluttum sjávarafurðum, sem hann hefur nú. Í sambandi við þá stórkostlegu aukningu á sjóðnum, sem þörf er á, — og á m. a. að veita honum lán, — þá á um leið að svipta hann tekjum sínum. Ég skil ekki, hvernig þetta er hugsað. Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram.