13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (4707)

140. mál, nýbyggingarráð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það voru örlitlar upplýsingar, sem mig langaði til að fá. Hinn 9. okt. s. l. var lagt fram á Alþ. bréf frá samvinnufélagsútgerðarmönnum í Neskaupstað, þar sem skorað er á Alþ. samþ. breyt. á l. um nýbyggingarráð. Tveim dögum seinna hitti ég mann, sem er form. útgerðarfélags í Neskaupstað, og skoraði hann á mig að fylgja þessu frv. Fjórum til fimm dögum síðar fékk ég símskeyti frá bæjarstjórn Seyðisfjarðar, þar sem skorað er á mig að samþ. frv. — Nú langar mig til að spyrja form. nýbyggingarráðs og hv. frsm., hvort þetta séu sömu frv., sem hér eru til umr. nú, og þarna er átt við, — eða hvort þetta eru einhver önnur. Getur það verið, að þessi frv., sem þarna er átt við, séu nú fyrst að koma fram? Á ég yfirleitt að leggja nokkuð upp úr því, þó að verið sé að skora á mig að fylgja frv., sem ekki eru komin fram á Alþ.? Eða eru þessi frv., sem hér liggja fyrir, ekki mjög breytt eða kannske allt önnur?