13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (4709)

140. mál, nýbyggingarráð

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. sjútvn. (JJós) hefur nú gefið svör við þeim spurningum. eða réttara sagt þeim bendingum, sem ég bar fram til sjútvn. í sambandi við lánsútvegun fyrir seðladeild Landsbankans til ráðstöfunar til fiskveiðasjóðs. Hv. framsögumaður segir, að ákvæði 2. gr. í frv. því, sem hér liggur fyrir til umr., þurfi að vera með tilliti til þess, að aðrir atvinnuvegir, — og þá er vitað, við hvað er átt, þ. e. landbúnað og iðnað, — muni einnig þurfa síns með eins og gert er ráð fyrir hér. Og skil ég það þannig, að hv. frsm. geri ráð fyrir því, að fram komi frv. á Alþ., sem miði til breyt. á þeim lánsstofnunum, sem þessir aðilar hafa aðgang að, og að þar verði farið fram á sams konar eða hliðstæð lán frá seðladeild Landsbankans til framdráttar þessum atvinnuvegum. Mér skildist, að svar hv. þm. fælist í þessari röksemdafærslu. Hann gerir ráð fyrir því, að það þyrfti að breyta hinum leiðu l. um nýbyggingarsjóð. En í framhaldi af því, sem ég sagði áðan um, að mér skilst, að eðlilegast væri, að þetta væri tekið upp í frv. um fiskveiðasjóð Íslands, þá skilst mér, að sams konar ákvæði ætti að taka inn í þær breyt., sem gert er ráð fyrir á iðnlánasjóði og þeim lánsdeildum í Búnaðarbankanum, sem sinna sams konar hlutverki gagnvart landbúnaðinum. Að þessu leyti virðist mér, að svar hv. frsm. sé ekki fullnægjandi. Ég vil þess vegna enn skjóta máli mínu til hv. frsm., sem ég veit, að er fús til að ræða um tilhögun þessa máls, og sjútvn., sem hefur málið til meðferðar, að þessi hlið málsins verði enn þá athuguð. — Hvað viðvíkur hinni fyrirspurninni, þá á hún naumast við undir meðferð þessa máls, en frekar undir meðferð næsta máls á dagskránni, og get ég látið niður falla að ræða um það fyrr en þar að kemur, aðeins vil ég benda á, að það virðist skjóta nokkuð skökku við þá miklu og brýnu nauðsyn að auka starfssvið fiskveiðasjóðs, að þá skuli vera verið að skerða þá tekjustofna, sem hann nú hefur og hefur haft um alllangt skeið. Hv. frsm. gat þess hér, að það hafi verið ákaflega þrýst á nýbyggingarráð um framkvæmdir í útvegun skipa og á annan hátt að því er það snertir að bæta aðstöðu okkar til hagnýtingar bæði á sjávarafla og öðrum gæðum, sem við framleiðum hér á landi. Þetta er náttúrlega ekkert undarlegt, að nýbyggingarráð hafi haft mörgu að sinna, því að allir þeir menn í þessu landi, sem báru í brjósti framtaks- og framkvæmdalöngun, þeim var ekki mörkuð önnur leið til að koma þessum hugðarefnum sínum í framkvæmd en að snúa sér til nýbyggingarráðs, því að með þeim l., sem sett voru á síðasta þingi um nýbyggingarráð, þá var því falið að ráðstafa til þessara hluta öllum Þeim gjaldeyri, sem um var að ræða. Í l. stendur svo, með leyfi forseta: Að nýbyggingarráð átti að veita innflutningsleyfi. Það átti að veita gjaldeyrisleyfi til framangreindra ráðstafana samkv. 5. gr. Þetta átti allt að veita skv. till. nýbyggingarráðs, svo að allir, sem hugðu á slíkar framkvæmdir í þessu landi, komu yfirleitt til nýbyggingarráðs til að fá fyrirgreiðslu um útvegun fjármagns. Annaðhvort var fyrir þessa menn að fara þessa leið eða setjast í helgan stein og hafast ekkert að. Þetta er skv. löggjöfinni, sem sett var á síðasta þingi. Það er því ekkert undarlegt, þó að verkefni nýbyggingarráðs hafi orðið ærið mikil, því að framfarahugur manna er mikill í þessu landi, og undireins og úr raknaði um fjárhaginn, þá stóð þeim næst að færa út kvíarnar í þeim atvinnurekstri, sem þeir stóðu að. Þannig er það um langflesta, og þó að undantekningar geti átt sér stað, þá eru þær hverfandi, auk þess hefur ríkisstj. í samráði við nýbyggingarráð tekið að sér það hlutverk að vera forsjón manna í þessu landi um byggingar, einmitt á þessu sviði. Þannig hefur ríkisstj. í samráði við nýbyggingarráð ráðizt í að byggja allmarga báta innanlands, enn fremur ráðizt í að gera samning um byggingu á 30 togurum erlendis og annað slíkt. Þannig horfa þessi mál við, og með tilliti til lánsútvegana, þá vil ég í þessu sambandi segja það, að áður en þessi ákvæði voru sett, var það hlutverk einstakra manna og félaga og í sumum tilfellum sveitarfélaga og bæjarfélaga að hafa forgöngu um þessar framkvæmdir upp á eigin spýtur. Þá urðu þessir aðilar að miða þessar framkvæmdir, — að svo miklu leyti sem gjaldgeta þeirra stóð til þessara framkvæmda, — við þau lánskjör, sem fyrir voru í landinu á þessum tíma, og að því leyti, sem þau hrukku ekki til, þá var í þeim tilfellum beitt sér fyrir því við Alþ. og ríkisstj., að þessi lánskjör yrðu færð í betra og hagkvæmara horf. En afleiðingin af þessari breyt., sem hér hefur orðið með því að setja upp stofnun í þessu landi, sem hefur að verulegu leyti í samráði við ríkisstj. tekið að sér það hlutverk, sem einstaklingarnir höfðu áður, þá leiðir það af sjálfu sér, að það verður líka að vera hlutverk þess aðila að beita sér fyrir því, að þau lánskjör og lánaaðstoð, sem nauðsynleg eru til þessara framkvæmda, séu fyrir hendi í landinu. Þess vegna vil ég segja það, að ég er ekki undrandi yfir þessum till. Mér finnst það ekki nema eðlileg afleiðing af því, sem gert hefur verið, og það er líka eðlilegt, að þessir aðilar, ríkisstj. og nýbyggingarráð, beiti sér fyrir þessu. Það, sem mig furðar á í þessu efni, er það, hvers konar dráttur hefur orðið á að koma á framfæri þessum breytingum um lánskjörin, sem hér er um að ræða, því að einmitt óvissan í þessu efni er farin að vera þrándur í götu eðlilegs gangs þeirra mála, sem búið er að stofna til með útvegun skipastóls og annars í þessu sambandi. Og það, sem mér virðist vera enn meira áhyggjuefni, er það, að þeir aðilar, sem með fullu samkomulagi hafa ráðizt í að láta byggja þessi skip, skuli nú að því er virðist vera ósammála um það, hvernig gera eigi þessa leið framkvæmanlega að því er snertir þau lánskjör, sem eru við hæfi þessara stórframkvæmda. Þetta er það, sem mér virðist vera töluvert áhyggjuefni í þessu máli, því að það er vitað, að ef ekki er stofnað til lánveitinga á nokkuð svipuðum grundvelli og með svipuðum lánskjörum og þeim, sem hér er um að ræða og hér liggur fyrir, þá sé ég ekki, hvernig á að leysa það spursmál, að einstakir menn og félög geti orðið eigendur að skipum, sem ríkisstj. er búin að gera samninga um, að byggð verði, bæði innan og utan lands. Ég sé það ekki.

Áður en l. voru sett um nýbyggingarráð, var Alþ. vissulega búið að rétta út höndina á móti framtaki einstakra manna og félaga í þessu efni með því að samþ. að veita úr ríkissjóði nokkurt fé. Í fyrsta lagi að búa að fiskveiðasjóði þannig, að hann gæti látið 2 millj. kr. sem beina styrki til bátakaupa, til að taka af sárasta broddinn, af því hvað bátarnir voru dýrir. Næsta spor í þá átt var að veita 5 millj. kr. og síðan tvöfalda þessa upphæð, sem veitt er sem áhættulán til þessara framkvæmda, — lán, sem veitt eru á eftir þeim veðrétti, sem verður að telja, að geti orðið raunhæfur í þessu sambandi. Þetta hvort tveggja var búið að gera, ýmist áður eða samtímis því, sem l. um nýbyggingarráð voru sett. Ég er því sammála hv. frsm. um það, að slík löggjöf og sú, sem hér er um að ræða, verður að koma, og eins og ég benti á áðan, — og ég veit, að hv. frsm., sem hefur mikil afskipti af þessu máli, er enn þá kunnugra um það en mér, — þá er þetta farið að valda erfiðleikum; að menn vita ekki, hverju þeir mega búast við í þessu efni. Það var t. d. búið að ákveða það, að þeir, sem vildu skrifa sig fyrir þessum 30 togurum, áttu að gera það fyrir 1. des. s. l. Drátturinn, sem á þessu hefur orðið, stafar beinlínis af því, að lánalöggjöfinni í þessu efni hefur ekki þokað meira áfram. Annað er það, sem líka átti þátt í drættinum. Með útboðsauglýsingu, sem gefin var út, var mönnum gefið í skyn, að þeir fengju meiri og skjótari frádrátt á þeirri upphæð, sem í togara felst, gagnvart skattalögum, en það hefur ekkert komið fram í dagsins ljós um það enn þá, hvernig eigi að framkvæma þetta. Ég býst við, að hvort tveggja þetta hafi valdið því, að nýbyggingarráð hefur enn orðið að gefa frest til 15. þ. m. og verður sjálfsagt enn að gefa frest til þess að menn skrifi sig fyrir þessum skipum. Það þarf á engan hátt að sýna, að menn hafi ekki fullan framkvæmda- og framfarahug í þessum efnum, þó að þeir hefjist ekki handa um kaup á togurum fyrr en þeir sjá fyrir endann á, hvernig þeirri löggjöf reiðir af á Alþ., sem gerir þeim kleift að ráðast í svo ódýrar framkvæmdir sem hér er um að ræða, og menn vilja líka sjá, hvernig hún verður framkvæmd sú afskriftatilhögun, sem þeim hefur verið gefinn kostur á í þessu sambandi. Þess vegna er það eðlileg afleiðing af þessu, sem ég hef sagt, að það er ríkisstj., sem verður að fara í fararbroddi um það, eins og komið er, að heppileg og hagkvæm löggjöf verði sett um þetta efni og að það taki sem allra skemmstan tíma, að frá þeirri löggjöf verði gengið.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi segja í tilefni af því, sem fram hefur komið í þessum umr. um þetta atriði.