12.11.1945
Neðri deild: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég sagði mína skoðun á þessu máli við 1.umr. og geri ráð fyrir, að ég þurfi ekki að endurtaka mikið af því hér, en mun þó ræða einstaka atriði dálítið. Ég vil mótmæla því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði hér áðan, að framsóknarmenn á Akureyri hefðu hvatt menn til þess að kaupa ekki kjöt, en auðvitað þarf í rauninni ekki að mótmæla því, sem þessi hv. þm. segir, þar sem hann er vanur að fara með staðlausa stafi. Hann leyfir sér að halda því fram, að fjórar n. hafi verið lagðar niður, þó að í nál. standi, að þær hafi verið 5, og sést bezt af því, hve vandur hann er að því, sem hann segir.

Ég vildi sérstaklega minnast á, að ég er með brtt., sem ég vildi fá hér samþ. í sambandi við 8. þingmál, sem n. gerir að till. sinni, að verði hnýtt inn í þetta frv. Ég hélt því fram, að það sé nauðsynlegt, að verðlag á mjólk sé ekki alls staðar það sama, eins og t. d. í Vestmannaeyjum og á Siglufirði, en ég sagði, að 8. þingmál fyrirbyggði, að n. gæti látið það vera misjafnt. Ég tel illa farið, ef svo verður, því að nú liggur t. d. fyrir beiðni frá Vestmannaeyjum, — ég veit ekki um Siglufjörð, — um að fá að hafa hærra verð á mjólk, sökum sérstakrar aðstöðu. Enn fremur fór bæjarstjórinn á Siglufirði fram á það í fyrravetur að fá að hafa þar hærra verð. Samt vildi verðlagsnefnd ekki hafa nema eitt verð.

Ég tel slæmt, ef l. verða samþ. í heild. En sennilega munu stjórnarflokkarnir hafa kraft til að koma þeim fram.

Ef þessi brtt. kemst ekki fram, munu mjólkurframleiðendur neyðast til þess að draga saman framleiðslu sína. Síðan ákveðið var, að verðið mætti ekki vera hærra á Siglufirði en annars staðar, hefur kúm fækkað þar. Fyrir 1942 var verðið í Vestmannaeyjum hærra en annars staðar, og nauðsynlegt er, að svo sé. Ég vil svo biðja n. að athuga þetta og skil þá ekki annað en hún geti samþ. brtt. þessa.

Ég ætla ekki að svara hv. 1. landsk. þm., því að hann fór með svo miklar staðleysur, að þær væru alls ekki svara verðar. Samt get ég ekki látið óleiðréttan þann misskilning hjá honum, að stéttarsamband bænda væri kostað af ríkinu, og vildi hann þá, að önnur stéttarsamtök fengju sömu aðstöðu. Stéttarsambandið fær þetta fé aðeins úr búnaðarmálasjóði og í hann greiða þeir einir.