14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (4711)

140. mál, nýbyggingarráð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það voru fáein atriði, sem ég vildi láta falla út af ræðu frsm., hv. þm. Vestm. Ekki verður það þó langt mál, þó að ég treysti mér ekki til að sleppa því, þegar síðast var slitið fundi.

Ég benti á, að það væri mikil eftirsjón að því, að ekki hefði verið að því unnið fyrir nokkru að gera áætlanir um hinar óvenjulegu framkvæmdir, sem fyrir stæðu, og reynt væri að koma sér niður á það, hvernig ætti að beina vinnuaflinu að þessum framkvæmdum og hvernig ætti að afla fjármuna til þeirra í framkvæmd.

Hv. þm. Vestm. virðist nú hafa skilið þessa gagnrýni mína svo, að ég hafi ætlazt til þess, að nýbyggingarráð sinnti engu öðru en þessu á s. 1. ári. Þetta er mesti misskilningur. Eins og hann undirstrikar, þá var nýbyggingarráði ætlað tvenns konar hlutverk: að koma skipulagi á vinnubrögðin og greiða fyrir einstökum málum. Þetta verður að geta farið saman. Það verður að koma þannig fyrir starfsháttum í þessum efnum, að gangi jöfnum höndum fram fyrirgreiðsla einstakra mála og vinna til undirbúnings framtíðinni. Þetta vildi ég aðeins taka fram til að fyrirbyggja misskilning. Auk þess virðist mér nú, eftir því sem ég bezt þekki til, mest af störfum nýbyggingarráðs hafa farið í að meta gjaldeyris- og innflutningsleyfi, hvort þau skyldu veitt og í hvað ríkum mæli, og ég fæ ekki skilið, að það starf út af fyrir sig hafi verið svo óskaplegt, að ráðið hefði ekki getað jöfnum höndum sinnt hinu verkefninu. Ég benti á, að ég teldi, að farið hefði verið í öfuga endann að vissu leyti, og átti þar við skipa- og bátakaup. En það finnst mér hv. þm. misskilja. Það þýðir ekki, að ég meinti, að ekkert hefði átt að gera t. d. í dag, heldur átti ég við hitt, að nýbyggingarráð og ríkisstj. hefðu átt að byrja á því eftir síðasta þing strax að gera sér grein fyrir t. d. stefnu um lánsfjáröflun og lánsfjárveitingu. Það hefði átt að vera fyrsta skrefið. Og það, sem vantaði í þetta, var, eins og við bentum á strax, einmitt þetta, að menn hefðu þá gert sér ljóst, hvað ríkisvaldið ætti að gera til þess að mönnum væri kleift að ráðast í nýjar framkvæmdir. Það vantaði grundvöllinn, og um þetta var talsvert karp á síðasta þingi. Við héldum því fram, að í sambandi við stjórnarmyndunina sjálfa hefði átt að ganga frá botninum og koma upp nýjum fyrirtækjum. Þetta hefði náttúrlega stjórnin og nýbyggingarráð átt að láta verða sitt fyrsta verk, enda heyrði ég ekki betur en hæstv. atvmrh. kæmi inn á þetta sama í hinum almennu umr. fyrir nokkrum dögum, — heyrði ekki betur en hann benti á, að gallinn á þessu öllu væri sá, hvað þetta hefði dregizt lengi. Mér finnst, að framkvæmdirnar beri með sér, að menn hafi um of sökkt sér niður í það daglega, en ekki gefið sér tíma til að leggja línur um stefnur í þessum málum, sem við hefur verið að glíma, og þess vegna er það allt komið í talsvert óvænt efni. Eins og kunnugt er, er búið að kaupa talsvert mikið af tækjum og nokkuð af bátum líka, sem er viðurkennt af stj. að alls ekki hafi verið gengið frá, hvernig verði ráðstafað. Stj. situr nú uppi með þessi tæki, og fyrst nú er verið að reyna að gera ráðstafanir til þess, að þessi tæki komist í hendur þeirra, sem ætla að reka þau, hvort sem það eru einstaklingar eða bæjarfélög. Og í nál., sem gefið var út í Ed., var þetta réttilega undirstrikað, gallinn væri sá, hvað allar þessar ráðagerðir eru seint á ferðinni. Þær hefðu þurft að koma snemma á þessu ári, og á þessu var verið að klifa á síðasta þingi.

Svo vil ég taka undir eitt, sem hv. þm. Vestm. sagði, að það væri um að gera að leysa þetta mál vel, og þá ekki aðalatriðið, hvernig lánsfjár væri aflað til þeirra stofnana, sem ættu að lána útveginum, heldur hitt, að lánum til útvegsins væri heppilega fyrir komið og stofnunum væri útvegað það fé, sem þær þyrftu, með góðum kjörum. Ég undirstrika þetta, — þetta er aðalatriðið. En hvaða leið ber þá að fara? Ég hef bent hér á galla þeirrar leiðar, sem frv. gerir ráð fyrir, og skal ekki endurtaka neitt af því, því að í raun og veru mótmælti hv. þm. Vestm. því ekki, sem ég sagði um það, og skilst mér, að hann vilji hafa þetta opið til athugunar, og það þykir mér skynsamlegt. Það er þá fyrst ástæða til að fara lengra út í þetta síðar, ef þurfa þykir, en ekki nú, þar sem þm. eru daufir við að hlusta á slíkar rökræður. En við hv. þm. Vestm. erum báðir í n. og getum því talazt við þar. Mér finnst allar líkur benda til, að það hafi í raun og veru komið fram hjá hv. þm. Vestm., að nýbyggingarráð hafi hugsað þetta nokkuð einhliða út frá erlendu innstæðunum, eins og hann gat um, ákveðið að leggja til hliðar erlendan gjaldeyri, og þá hafa menn komizt inn á þann hugsanagang, hvort ekki væri eðlilegast, að Landsbankinn lánaði mönnum þennan erlenda gjaldeyri. En gallinn á þessu er sá, að það er ekki hægt að slíta þetta úr sambandi hvort við annað, erlendan gjaldeyri við fjárhagskerfi landsins. Sem sagt, ég skal ekki fara lengra út í það. Ég benti á tvær leiðir, sem mætti sameina. Ég hef meira álit á, útboðsleiðinni en margir aðrir, en mér er ljóst, að útboðsleiðin er ekki fær nema gerðar verði ráðstafanir til þess að skipuleggja sölu ríkistryggðra verðbréfa.

Ég get nú ekki látið hjá líða að lokum að benda á það, að mér þykir það heldur undarlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki sýna þann sóma að vera viðstödd jafnmerkar umr. og þessar. Þetta er ósiður, sem fyrir nokkrum árum hefði þótt fyrir neðan allar hellur, þegar lögð eru fram á þinginu önnur eins stórmál og þetta. Þetta er að verða einhver pest. Ég veit ekki, hvað hefði verið sagt við okkur, þegar við vorum ráðherrar, ef við hefðum hagað okkur svona. Ég hef minnzt á það í sambandi við önnur mál, að þó að þetta eigi kannske að vera einhver lítilsvirðing í garð stjórnarandstöðunnar, þá er það mesti misskilningur, að það hitti þannig. Það er til þess að draga niður störf þingsins, til þess að minnka virðingu þess. Þetta er ósiður, sem þyrfti að leggjast niður, og í raun og veru væri full ástæða til þess fyrir hæstv. forseta að gera ráðstafanir í þessum efnum, svo að þessi ljóti siður geti orðið lagður niður.