18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (4722)

170. mál, byggingareftirlit ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Í þessu frv. er ráðgert að setja á fót nýja stofnun, byggingareftirlit ríkisins. Ráðgert er að hafa þar forstöðumann. Hér er um talsvert nýmæli að ræða, og var það þetta, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs. Hvað vakir fyrir flm.? Mér skilst, að starf húsameistara ríkisins sé að gera teikningar yfir ríkisbyggingar og að honum hafi verið fengnir menn til eftirlits með byggingunum. Mér sýnist, eins og þetta frv. er nú úr garði gert, að í það vanti ákvæði um, hvernig starf húsameistara skuli vera. — Mér sýnist þetta vera orðin óttaleg grautargerð, sem sízt verður til bóta. Ef þetta frv. er fram komið vegna þess, að húsameistari er ekki starfi sínu vaxinn, þá á að skipta um mann, en ekki setja á fót annað embætti. Svo vantar inn í frv., hvernig samstarfið milli þessara tveggja húsameistara eigi að vera. Ég skal ekki ræða um störf húsameistara ríkisins. Hann hefur gert sumt vel.

Mér sýnist, að hér ætti að vera ein stofnun, og mér finnst þetta frv. á engan hátt bæta úr þeim vandræðum, sem hér um ræðir. Mér finnst það óvenjuleg og dýr grautargerð.