18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (4725)

170. mál, byggingareftirlit ríkisins

Flm. (Jón Pálmason) :

Mér skildist á hv. 2. þm. S.-M., sem talaði hér síðast, að hann tæki þetta frv. sem vantraust á húsameistara ríkisins. Því er ekki til að dreifa. Tilgangurinn með frv. er ekki að hindra, að hans starf haldi áfram, og vísa ég þar til grg. frv. Meiningin er, að áfram verði það eins og verið hefur, að húsameistari ríkisins og starfsmenn hans geri teikningar af byggingum, en hann hefur ekki komizt yfir að líta eftir byggingunum og framkvæmdum, þess vegna er þetta frv. fram komið. Ef það verður samþ., verður skrifstofa húsameistara aðallega teiknistofa, en byggingarstofnun ríkisins mun hafa eftirlit með byggingunum og byggingarframkvæmdum. Ég held, að hægt sé að færa rök fyrir því, að á undanförnum árum hafa mistök orðið vegna skorts á eftirliti. Það er góð bending, að nefndin geri sér grein fyrir sambandinu á milli þessara tveggja stofnana. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, og það er langt í frá, að hér sé um vantraust að ræða á húsameistara ríkisins. Það borgar sig fyrir ríkið að hafa eftirlit með byggingum sínum. Það er kunnugt, að viðhald á húsum ríkisins er ófullkomið, og mundi það heyra undir hina nýju stofnun.