18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (4726)

170. mál, byggingareftirlit ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá hér nokkrar upplýsingar. Í 1. gr. er talað um, að eftirlit skuli vera með byggingarframkvæmdum ríkisins á jarðakaupasjóðsjörðum. Í þessu sambandi langar mig til að spyrja, hvort hér er átt við byggingar, sem ríkið styrkir. — Það hefur verið svo, að húsameistari hefur gert teikningar og ráðið gerð húsanna, sem ríkið hefur látið beint reisa. Hann hefur hlutazt til um, hvaða smiðir líta eftir, og falið þeim eftirlit fyrir sína hönd. Um það þarf því ekki lög. Þegar ríkið aftur styrkir byggingarframkvæmdir hjá leiguliðum sínum, hafa þær byggingar, eins og byggingar á einstaklingsjörðum, notið eftirlits og leiðbeiningar hjá teiknistofu landbúnaðarins. Og hafi bóndi á jarðakaupasjóðsjörð erfðafestuábúð, eins og þeir hafa allir, þá má hann byggja á jörðinni, veðsetja hana og taka lán til bygginganna án þess að spyrja ríkisstj. nokkuð að. Það er því ekki hægt að samþ. þetta frv. nema breyta lögunum um óðalsrétt og erfðafestu. En hins vegar tala ég ekki á móti því, að meira eftirlit þurfi með byggingum hins opinbera. Eftirlitið hefur verið þannig, að teiknistofa ríkisins, sem öll hús hefur teiknað, hefur haft eftirlitsmenn í mörgum landshlutum, og hafa þeir litið eftir öllum byggingum, sem lán er veitt til úr byggingarsjóði eða þá endurbyggingarstyrk frá nýbýlanefnd. Húsameistari ríkisins og þeir, sem vinna hjá honum, eru allir launaðir af ríkinu, og þeir líta eftir því, sem ríkið byggir á eigin reikning. Ég vil mælast til þess, að nefndin athugi málið betur. Það er og athugandi, hvort ekki þurfi að breyta erfðafestulögunum. Ég bendi á þetta að gefnu tilefni, það er svo algengt, að Alþ. breyti lögum án þess að athuga, hvaða áhrif þau hafa á önnur lög.