18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (4727)

170. mál, byggingareftirlit ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Það er nú upplýst, að gert er ráð fyrir, að það sé ekki meiningin að leggja niður störf húsameistara ríkisins. Það á að hafa tvær stofnanir. Önnur, þar sem teikningar eiga að vera gerðar, en hin, þar sem eftirlitið á að fara fram. Ég tel þetta afar óeðlilegt. Ég álít, að þetta hvorttveggja ætti að heyra undir sömu stofnun. Ég hygg mjög misráðið að samþ. frv. eins og það er nú. Ég gæti vel ímyndað mér og hef líka heyrt fleiri þeirrar skoðunar, að húsameistari ríkisins væri ekki sérstaklega heppilegur til þess að sjá um framkvæmdir, en undirbúningurinn væri hins vegar hans sterka hlið. Ég álít, að til mála gæti komið að skipta þessu þannig, að annar maður sæi um framkvæmdir. Hins vegar tel ég það misskilning að breyta þessu á þann veg að setja upp nýja stofnun. Það er áreiðanlega betra að hafa þetta allt saman heyrandi undir eina stofnun. Forstöðumaður hennar gæti að sjálfsögðu ekki haft þar með allt að gera. Hann þyrfti auðvitað að hafa sína aðstoðarmenn, sem hefðu ýmiss konar sérmenntun í hinum einstöku greinum þessu viðkomandi. Ég held, að þetta frv. þurfi gagngerðra breyt. við og mjög óheppilegt að láta þessi mál heyra undir tvær stofnanir. Það yrði mjög erfitt að hafa það þannig klofið, án þess til einlægra árekstra kæmi.

Ég held, að hv. allshn. og flm. ættu að endurskoða þetta mál í heild, og það ætti að setja löggjöf, þar sem tryggðar væru styrkari framkvæmdir en nú er.