13.11.1945
Neðri deild: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég lét mér það nú nægja í fyrri ræðu minni um þetta mál að undirstrika nokkur aðalatriði, sem fólust í nál. 2. minni hl. n. Ég hafði nú hugsað mér að láta það nægja, en síðan hafa verið haldnar hér allmiklar ræður. Og hv. frsm. 1. minni hl. landbn. (JPálm) hefur síðan farið vítt og dreift í umr. um málið, svo að ég kemst ekki hjá að minnast á nokkur fleiri atriði en í fyrri ræðu minni.

Ég sný mér þá fyrst að hv. 1. landsk. þm. (SG), sem skýrði afstöðu sína til þessa frv. Mér skildist á þeim hv. þm., að hann væri ekki alls kostar ánægður með þetta fyrirkomulag eins og það lægi fyrir, og get ég ekki láð honum það — sérstaklega ef slík „réttarbót“, sem hv. þm. A.-Húnv. talaði um, að ætti að fást með þessu frv., eða svipuð réttarbót yrði yfirfærð yfir á þann félagsskap, sem hv. l. landsk. þm. stendur fyrir, ef einhver ríkisstjórn notaði sér það fordæmi, sem hér er, til þess að útnefna nokkra menn eftir eigin geðþótta til þess að ákveða verkamönnum kaup og kjör. En samt sættir hv. 1. landsk. þm. sig við að fylgja þessu frv. Og svona til þess að friða samvizkuna var hann með ýmis útbrot og ónot út í sex manna nefndar verðið á kjötinu, út í verð á kjöti almennt og út í fyrirkomulagið á hinu nýstofnaða stéttarfélagi bænda. Og langar mig til þess að minnast á öll þessi atriði, hvert fyrir sig.

Mér kom það dálítið á óvart, að hann skyldi vera með ónot út af sex manna nefndar verðinu, vegna þess að það voru fulltrúar frá hans stétt, sem stóðu að því upphaflega að leggja þann grundvöll, og var hann lagður með fullkomnu samkomulagi milli fulltrúa verkamanna og fulltrúa bænda og þeirra fræðimanna, sem kvaddir voru til athugunar á því máli, sem álitu, að sex manna nefndar grundvöllurinn væri eins nærri réttlæti eins og tök væru á að hafa hann, til þess að ákveða, hvaða tekjur bændur ættu að hafa, til þess að vera nokkurn veginn svipað settir og aðrar, ég vil segja verkamannastéttir þessa lands. Að vísu var í l. um sex manna nefndar verðið bændum ekki tryggð nein ákveðin tekjuupphæð, heldur lagður grundvöllur fyrir því, að meðalbóndi hefði möguleika til þess að fá meðaltekjur eftir útreikningi sex manna n. Hins vegar var ekki reynt að sjá neitt fyrir skakkaföllum, sem bændur verða fyrir vegna þess, að þeir eru líka atvinnurekendur og verða að þola öll óhöpp, sem atvinnurekendur í landinu verða fyrir, m. a. af óþurrkum og öðru slíku, — það er hlutur, sem þeir verða að taka á sig sjálfa. En það verðlag, sem ákveðið var með sex manna nefndar álitinu, átti að tryggja meðalbónda, að hann gæti fengið viss laun fyrir vinnu sína, sem voru um 15 eða 16 þús. kr. yfir árið í skaplegu árferði. Og ég held, að það verði ekki hv. 1. landsk. þm. neitt til upphefðar að fara að hvika frá þeim málstað, sem hann og hans flokksmenn hafa haft í þessu máli til þessa. Því að ég veit ekki betur en að þeir hafi viðurkennt sex manna nefndar verðið sem þann réttlátasta grundvöll, sem hægt væri að finna. Og ég vona, að þessi hv. þm. haldi uppteknum hætti, þó að hann hafi ýmislegt annað að finna að fyrirkomulagi þessara mála.

Þá var hv. 1. landsk. þm. að tala um kjötverðið, og var á honum að heyra, að hann áliti það úr öllu hófi. Hann sagði, að hvergi í víðri veröld mundi vera hægt að finna hærra kjötverð en 6 kr. fyrir kg., og sagði, að hann hefði helzt kosið, að 6 kr. verð á kjötinu væri haft til að miða við útreikning vísitölunnar, og bændur svo látnir um það, hvort þeir gætu selt það. En í því er engin sanngirni. — Ég geri nú ráð fyrir, að við séum báðir jafnfróðir, hv. 1. landsk. þm. og ég, um verð á kjöti og öðrum matvælum kringum allan hnöttinn. En trúað gæti ég því; að ýmsir menn álitu sig sæla víðs vegar um heim, ef þeir ættu kost á að kaupa kjöt fyrir 6 kr. kg. — En það þýðir ekkert að taka verð á einni vöru út af fyrir sig, kjötinu, og minnast ekki á aðrar hliðar, sem að þessum málum snúa. Ég veit, að 6 kr. verð á kjötinu er hátt, borið saman við verð á kjöti fyrir 1914. En ef við berum saman, hvað daglaun verkamanna hafa hækkað frá þeim tíma og til þessa dags, þá kemur það í ljós, að ef kjötið hefði átt að hækka í sömu hlutföllum, þá ætti heildsöluverðið á því nú að vera milli 11 og 12 kr. kg. Það er sem sé komið svo, að það er fleira en kjötið, sem hefur hækkað í verði síðan. Það er t. d. komið svo, að einn þriðji hluti af sláturafurðum bænda fer í kostnað við slátrun, frystingu og sölu kjötsins og að koma því til neytenda. Bóndinn, sem kemur með 300 dilka, fær sem svarar verðinu fyrir 200 af þeim, en verð hinna 100 fer fyrir að koma þessum 300 dilkum í vöru og selja hana. Og þeir, sem leggja inn 30 dilka, verða á sama hátt að láta 10 dilka til þess að koma þessum 30 dilkum í það „óskaplega“ verð, sem talað er um hér, að bændur fái fyrir kjötið. Ef þeirri reglu væri fylgt, sem mér skilst helzt, að hv. 1. landsk. þm. hallist að, að kjötið væri ekki selt nema á 6 kr. í útsölu, þá fengju bændur í sinn hlut kr. 2,50 fyrir kg., hitt færi í kostnað. Og yrði það þá meira en helmingur af sláturfénu, sem bóndinn þyrfti að láta til þess að koma hinu í verð. Ég er dálítið hissa á þessu hjá hv. þm., ef þetta er hans skoðun, vegna þess að ég hélt, að hann væri það kunnugur störfum bænda og afkomu, með því að hann er alinn upp í þeirri stétt og hefur fylgzt með henni til þessa, — ég er dálítið hissa á því og reyndar undrandi yfir því, að hann skuli kasta því fram, að 6 kr. verð sé hæfilegt fyrir kjötið hér á landi á þeim tíma, sem við nú lifum á. Því að það er vitanlegt, að með slíkt væru bændur ekki ánægðir, að ákveða verðið þannig á sama tíma sem viss stétt leyfir sér að fara fram á verkfall með þá kaupkröfu á oddinum, sem tryggir einstaklingum þeirrar stéttar um 40 þús. kr. á ári, — minna má ekki gagn gera, — og vitanlega leggst slíkur kostnaður á almennar neyzluvörur í landinu og kemur á sama hátt og kjötverðið til þess að hafa áhrif á dýrtíðina í landinu, — og þegar það er vitanlegt, að menn í ýmsum atvinnugreinum vaða svo í peningum, að mörgum þykir þar ekkert hóf á. Til dæmis má nefna menn, sem eru að hyggja hús yfir húsnæðislaust fólk hér í bæ. Með töxtum sínum, sem þeir virðast að mestu ráða yfir, hafa þeir menn þær tekjur, að þeir þurfa ekki að vinna nema tvo til þrjá mánuði til þess að ná þeim tekjum, sem meðalbónda eru ætlaðar yfir árið með sex manna nefndar verðinu. Ég veit, að tveir menn, sem unnu við múrhúðun á sláturhúsi — og það er bezt að nefna það í sambandi við þetta mál, því að þar er slátrað fé, — þeir unnu frá miðjum laugardegi og til sunnudagskvölds, þurftu engu til að kosta, og tóku alls 4900 — fjögur þúsund og níu hundruð — kr. fyrir vinnuna, eða sem sagt 70 kr. á klst. frá því er þeir fóru að heiman og þar til þeir komu heim, seint um kvöldið. Og maður þekkir fleiri dæmi slík sem þetta. Ég veit til þess, að félagsskapur, sem er að koma upp íbúðum fyrir húsnæðislaust fólk og stendur fyrir því að koma upp 40 íbúðum, hann hefur mann til þess að standa fyrir þessu verki. Sá maður þarf ekki að leggja til neitt nema sjálfan sig, hrærivél og ritvél, en honum eru borgaðar 6 þús. kr. á íbúð, eða 240 þús. kr. fyrir að standa fyrir byggingu allra íbúðanna. Og ég held, að þeir, sem þurftu að láta byggja, hafi talið sig hafa komizt að góðum kjörum, og meira að segja held ég, að stéttarfélag hér á landi hafi ákveðið að lögsækja hann sem skrúfubrjót, fyrir að hafa farið niður fyrir taxta í stéttarfélagi sínu. — Og allir, sem við verzlun fást í landinu, raka svo saman of fjár, að ævintýralegt þykir, er upp kemst um einn og einn, hvað hann hefur grætt. — Og þegar þannig er vaðið í peningum í landinu, þegar borgaðir eru tugir millj. kr. fyrir tóbak og brennivín og alls konar skran, þá ætlar hv. 1. landsk. bændum að sætta sig við að fá borgað verð fyrir sína vinnu svipað og var fyrir stríð, þrátt fyrir allan þann óheyrilega kostnað, sem á framleiðsluna hefur fallið, sem gilti það, að þeir væru ekki matvinnungar. Ég er undrandi yfir að heyra þessar skoðanir hjá þessum hv. þm., af því að ég hélt, að hann hefði meiri skilning á þörfum stéttarbræðra sinna en ýmsir aðrir. Finnst mér þetta sönnun þess, hvernig misjafn félagsskapur og umgengni við misjafna menn getur farið með allra beztu menn, menn, sem ekki gera hundi mein, og verð ég í því falli að segja, að þegar svo fer um hið græna tré, hvers er þá að vænta af hinu visna?

Þá var þessi hv. þm. að minnast á, að honum þætti óeðlilegt af okkur að ætlast til þess, að ríkið greiddi allan kostnað við stéttarfélagsskap bænda, og sagði um leið, að meðan þess væri krafizt, væri ekki nema eðlilegt, að ríkisvaldið hefði íhlutun um, hvernig þessum málum væri stjórnað. Ég er honum sammála um það, að ef ríkið greiddi allan þennan kostnað, þá væri eðlilegt, að ríkisvaldið hefði þessa íhlutun. En ég hélt, að hv. 1. landsk. þm. vissi, að það er alls ekki til þess ætlazt, að ríkið standi undir greiðslum vegna stéttarfélags bænda, og ég hélt sérstaklega, að hann vissi það vegna þess, að hann sýndi frá upphafi hvað mestan skilning á nauðsyn bændastéttarinnar á því að fá lögleiddan búnaðarmálasjóð, m. a. til þess að bændastéttin gæti með honum staðið undir kostnaði við stéttarmál sín. Hv. 1. landsk. þm. stóð með okkur að því máli frá upphafi og sýndi fyllsta skilning á því máli. Og nú er búnaðarmálasjóður orðinn að l., og þar með er ekki krafizt annars en þess, að ríkið hjálpi til þess að innheimta gjald eftir þessum l., og þá einnig þann hlutann, sem fer til þess að standa undir stéttarfélagsskap bænda, eins og hinn hlutann, sem fer til greiðslu á almennum uppbótum fyrir stéttina, á sama hátt og fiskimálasjóður er fyrir fiskimannastéttina, og er þessi aðstoð við þessar tvær stéttir hliðstæð. En það er til þess ætlazt, að lítill hluti tekna sjóðsins fari til þess að standa undir stéttarfélagsskap bænda. Og hv. þm. veit, að með því frv., sem hér liggur fyrir þinginu frá nokkrum alþm. er gert ráð fyrir, að kostnaður við framleiðsluráð greiðist úr búnaðarmálasjóði. En að við í brtt. okkar 2. minni hl. landbn, leggjum til, að kostnaður við þær framkvæmdir, sem þar er lagt til, að stjórn stéttarsambands bænda sé falið fyrst um sinn, greiðist úr ríkissjóði, stafar af því, að við ætlumst til, að það fyrirkomulag, sem í brtt. þeirri getur, verði bráðabirgðafyrirkomulag, sem standi ekki nema eitt ár. Og þar sem nú er framkvæmt að nokkru leyti það starf í þessu efni, sem á að framkvæma þetta ár, með þátttöku ríkissjóðs í kostnaði, þá töldum við ekki ástæðu til að breyta því fyrir þann stutta tíma, sem við ætlumst til, að þetta gildi eftirleiðis.

Ég held, að ég láti að sinni þetta nægja sem svör til hv. 1. landsk. þm.

Mun ég nú snúa mér að hv. 1. minni hl. landbn. Ræða hv. frsm. 1. minni hl. n. hefur staðið yfir tvær s.l. vikur. Hef ég ef til vill gleymt einhverju, sem ég hefði viljað minnast á. Það má segja um þennan hv. þm., að hverjum þykir sinn fugl fagur. Ég þykist hafa nokkurn veginn góðar heimildir fyrir því, að þessi félegi ungi, frv. það, sem hér liggur fyrir, sé kynjaður úr heilabúi þessa hv. þm., þó að honum sé klakið út hjá hæstv. ríkisstj., og þurfti maður þá kannske ekki að búast við, að þetta yrði nein dúfa.

Hv. þm. A.-Húnv., frsm. 1. minni hl. n., vildi halda fram, að þetta fyrirkomulag, sem stefnt er að með frv. því, sem fyrir liggur, væri stórkostleg réttarbót frá því, sem verið hefur, réttarbót gagnvart bændastéttinni. — Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. heldur þessu fram til þess að reyna að rugla hér aðalatriðum og aukaatriðum, eða hvort það er af því, að hann botnar ekkert í því sjálfur, hvað er réttarbót og ekki réttarbót í félagslegum og lýðræðislegum efnum. Skyldi það vera svo, að hv. þm. og öðrum þeim borgurum þessa þjóðfélags, sem standa fyrir ýmsum félögum, stéttarfélögum og öðrum félögum á þessu landi, þyki það vera stór réttarbót, ef einhvern tíma væri breytt þannig til af ríkisstj., að hún tæki það sjálfsákvörðunarvald, sem hver stétt hefur yfir sínum málum, af þeim stéttum og skipaði yfir þeirra mál sérstaka nefnd, sem hún, ríkisstjórnin, réði yfir sjálf? Ég geri ekki ráð fyrir því. Ég býst við, að hv. þm. A.-Húnv. sé einn um þá skoðun. Ætli Íslendingum á sínum tíma hefði þótt það réttarbót, meðan konungkjörnir þm. voru aðeins 6, ef breyt. hefði verið gerð í þá átt að gera segjum alla efri deild, kannske allt þingið, að samkomu konungkjörinna þm., enda þótt þeir þm. væru allir íslenzkir ríkisborgarar? Ég geri ráð fyrir, að það hefði ekki þótt nein réttarbót. Skyldi Austur-Húnvetningum þykja það réttarbót, ef þeir væru losaðir við það að velja fyrir sig fulltrúa á þing, ef ríkisstjórn, forseti eða einhver góður maður skaffaði þeim einhvern mann til þess að sitja á þingi sem fulltrúi Austur-Húnvetninga ? Ég veit ekki, hvað hv. þm. A.-Húnv. fyndist um þá réttarbót, en ég efast um, að Austur-Húnvetningum almennt fyndist það vera réttarbót.

Ég skal ekki deila um þá menn, sem skipaðir hafa verið í þetta ráð. Það geta verið ágætir menn. En jafnvel þó að allir væru sammála um, að það væru betri menn en bændum væri treystandi til að velja í þetta ráð, breytir það ekki eðli málsins, að þeir eru ekki frekar fulltrúar stéttarinnar fyrir það. Og jafnvel þótt ríkisstj. tækist að velja betri fulltrúa fyrir Austur-Húnvetninga til þess að skipa þingsæti, þá væri það ekki réttarbót, heldur réttarrán gagnvart Austur-Húnvetningum. Og nákvæmlega það sama á sér stað hér.

Þá var hv. þm. A.-Húnv. mikið að ræða um það, hve það væri einkennileg afstaða stjórnarandstæðinga, því að þegar ríkisstj. hefði verið að skipa hinar og aðrar nefndir hinum og öðrum mönnum, þá hefðu þeir ekkert við það haft að athuga, en þegar ríkisstj. skipaði stóra n., sem eingöngu væri skipuð bændum, þá ætluðu þeir af göflum að ganga af óánægju yfir því. — Hér ruglar hv. þm. A.-Húnv. líka saman aðalatriðum og aukaatriðum. Það er enginn ávítaður, hvorki ríkisstj. né aðrir, fyrir það, að hún skipar bændur í n., þessa eða aðrar n. Mér er yfirleitt nákvæmlega sama, hvaða menn hún skipar í þessa n., ef ríkisstj. skipar menn í hana á annað borð. Og ef hún skipar þessa menn í n., þá hefði mér þótt eðlilegra, að hún hefði skipað 4 menn, sem hún hefði treyst til þess að ákveða verðlag á landbúnaðarafurðum, en að vera að vefja málið þannig, sem hefur verið gert, til þess að koma auðtrúa sálum til að trúa því, að hér hefðu verið valdir fulltrúar frá sjálfum þeim. Ég læt mig engu skipta, hvaða fulltrúa hún skipar í þetta ráð, af því að ég álit og við, sem andmælum þessu frv., að ríkisstj. hefði alls ekki átt að skipa menn í þetta ráð, heldur fela bændum og félögum þeirra að velja sína fulltrúa til þess að fara með þessi mál, og það er aðalatriðið.

Þá var hv. þm. A.-Húnv. að fetta fingur út í það, sem stendur í nál. okkar í 2. minni hl. landbn., þar sem segir, að svo virðist sem aðrar stéttir ráði kjörum sínum, og er þannig orðað, með leyfi hæstv. forseta: „En þegar svo er ástatt sem nú, að allar starfsgreinar þjóðfélagsins virðast nær einráðar um það, hvaða verð þær setja á vinnu sína og varning . . .“ Á þetta réðst hv. þm. A.-Húnv. og breiddi sig út yfir það, að við skyldum vera svo ósvífnir að segja, að ýmsar stéttir landsins ráði kaupum og kjörum fyrir stéttina. En við segjum, að „svo virðist“ sem þær séu nær einráðar um þetta. Og ég ætla að standa við það. Ég veit ekki betur en það hafi tíðkazt á undanförnum árum, að Hlíf og önnur verklýðsfélög hafi auglýst, að kauptaxti þeirra væri þetta og þetta. Og ég veit ekki annað en að þeir, sem helzt hefðu átt að malda í móinn, hafi sætt sig við það. Og þegar af þessu hefur leitt vinnustöðvun, þá hefur innan lítillar stundar komið að því, að undan hefur verið látið þessum kröfum um auglýstan taxta, oftast 100%, en stundum með ofurlitlum afslætti, en það haggar ekki því, að á undanförnum árum hefur svo virzt sem allar starfsstéttir í þjóðfélaginu hafi verið næstum einráðar um að setja verð á vinnu sína. Og allar hafa þær ráðið því með samþykki kjörinna fulltrúa, hvort gengið hefur verið að einu eða öðru, sem þeim hefur verið boðið í þessum efnum. Og það er ekki beint hægt að hafa á móti því, að úr því að lýðræði ríkir í þessu landi, þá eigi stéttirnar að hafa vald til að segja já eða nei um það, fyrir hvað þær vilja vinna. En þá álít ég, að bændur eigi og að hafa rétt til að segja já eða nei um það, fyrir hvaða kaup þeir, vilja vinna, — þ. e. a. s. fyrir hvaða verð þeir vilji selja afurðir sínar, — eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins. — Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að hér væri ólíku saman að jafna, vegna þess að bændur ættu undir erlendan markað að sækja, og þeir yrðu að sveigja til eftir markaðsástæðum. Þetta er að vísu rétt á venjulegum tímum. En eins og nú standa sakir, er ekki hægt að gera kröfu til þess, að bændur beygi sig eingöngu undir erlent verð á vörum og hagi verðákvörðunum sínum eftir því. Þegar svo er ástatt, að bændur geta á engan hátt — og þannig hefur það verið undanfarið — notað sér þau þægindi um að fá ýmsa hluti, vörur og vinnu, til síns búrekstrar með verðlagi, sem gildir á erlendum markaði, þá sé ég ekki, að það sé sanngirni í því að þvinga þá til þess að sveigja verð sinnar vöru eftir verði á landbúnaðarvörum á erlendum markaði. Og meðan verið var að framleiða þær landbúnaðarvörur, sem nú eru á markaðinum, ríkti það ástand, sem stríðið skapaði og hélt við. En þegar svo er komið, að bændur fá að flytja inn hús, sem má fá tilbúin fyrir einn tíunda hluta þess verðs, sem hér kostar að byggja hús, — og þó að það kosti nokkuð að setja niður þau hús, sem nú má fá frá útlöndum smíðuð, þá mundu hús þaðan ekki kosta upp komin nema helming eða þriðjung verðs á við það, sem hér hefur tíðkazt verð á húsum, — og þegar bændur fá að flytja inn húsgögn og annað frá útlöndum, sem kostar einn tíunda hluta þess verðs, sem hér er á þeim hlutum, — þegar þeir fá að flytja inn fólk til vinnu, sem tekur aðeins einn þriðja eða einn fjórða part af kaupi, sem hér er greitt fyrir sams konar vinnu, — þegar þeir fá að búa þannig í haginn fyrir framleiðslu sína, að þeir fái að njóta hins lága verðs, sem er á erlendum markaði á því, sem þeir þurfa að kaupa, þá er eðlilegt, að þeir miði verð sitt á vörum á innlendum markaði nokkuð við það, sem er á erlendum markaði. En það er ekki hægt fyrr og ekki sanngjarnt, að bændur taki á sig meiri þunga af dýrtíðinni en aðrar stéttir landsins. M. ö. o., meðan bændur eru svo að segja innilokaðir í þessu fávitahæli, sem landið er í verðlagsmálum, þá er ekki hægt að ætlast til, að þeir hagi sér öðruvísi en aðrir vistmenn á þessu heimili, þ. e. a. s. aðrir þegnar þjóðfélagsins, heldur fái að setja nokkurn veginn það verð á vöru sína, sem gerist og gengur manna á milli, sérstaklega þegar fjármálaástandið er þannig, að menn kasta hundruðum og þúsundum kr. út í bláinn án þess að hugsa um verðmætin, sem þeir fá á milli handa fyrir, — og þar sem það enn fremur er matvara, sem bændur framleiða, sem er nauðsynjavara þjóðarinnar, — þá er ekki eðlilegt, að bændur sætti sig við að fá annars konar verðlag fyrir vöru sína en sambærilegt er verði á öðrum vörum hér á landi. — Og það er verið að segja, að það þurfi að fara varlega í þessum hlutum, til þess að markaðurinn bresti ekki, það megi ekki fara of hátt með kjötið og mjólkina, svo að menn gefist ekki upp á að kaupa þessar vörur. En það hefur verið reiknað út af fróðum mönnum, sem fást við þá hluti, að það mundi ekki þurfa að setja nema 12 aurum hærra verð á mjólkina og 90 aurum hærra verð á kjötið frá því, sem ákveðið hefur verið, til þess að bændur fengju upp í topp sex manna nefndar verðið á þessum markaði. Og með þeim peningaaustri og þeirri kaupgetu, sem nú er í landinu, skal enginn segja mér, að sú litla hækkun hefði getað orðið til þess að eyðileggja innlenda markaðinn fyrir þessar vörur. Mér dettur ekki í hug að halda fram, að það eigi að láta ríkja í framtíðinni það fyrirkomulag, sem menn telja nú, að ríkinu beri siðferðisleg skylda til að hafa nú á þessu ári, að bændur fái greitt verð fyrir afurðir sínar á þann hátt. Ég get gert ráð fyrir tvennu um verðlagningu í landinu á landbúnaðarafurðum. Annaðhvort að það verði ákveðið af innlendum dómstólum eftir samkomulagi framleiðenda og neytenda á sama grundvelli og í sex manna n. álitinu var lagður — og í því tilfelli dettur mér ekki í hug annað en að sá grundvöllur yrði endurskoðaður öðru hverju og reynt að fá á honum samkomulag um landbúnaðarafurðaverð á hverjum tíma — eða þá, að hitt yrði látið gilda, að bændur beygðu sig undir lögmálið um framboð og eftirspurn, bæði á innlendum og erlendum markaði. Önnur hvor þessi regla hlýtur að verða viðtekin á næstunni. En hvor reglan, sem gildir, er ekkert vit í öðru en að bændastéttin sjálf fái að taka lokaákvörðun um það verð, sem hún setur á landbúnaðarafurðirnar. Hún verður að fá að vera sá aðili, ef um sex manna nefndar grundvöllinn er að ræða, sem samþ. þann grundvöll. Hún og hennar fulltrúar verða að vera sá aðili, sem ákveður verðið í einstökum greinum, ef samkomulagsleiðin verður farin og sett á vörurnar það verð, sem þeim, sem með þau mál færu, þykir á hverjum tíma hyggilegt að setja. M. ö. o., að hverju sem stefnt verður í þessu efni, verður það ekki þolað, að bændur fái ekki ráðstöfunarvald í þessum málum hliðstætt við ráðstöfunarvald annarra stétta í hliðstæðum hagsmunamálum þeirra.

Þá vil ég minnast ofurlítið á það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um stéttarfélag bænda. Hann sagði í öðru orðinu, að stéttarsamband bænda væri ekki til. Stundum sagði hann, að stéttarfélag bænda væri aðeins pólitísk klíkustofnun. Síðan sagði hann, að ekkert viðurkennt stéttarfélag bænda væri til. Og hann sagði, hv. þm., að það hefði tekizt svo til um stofnun stéttarsambands bænda, að upphaflega hefði verið boðað til fundar á eðlilegan hátt af Búnaðarsambandi Suðurlands, en svo hefði ég og ýmsir vondir menn komið og rænt fundinum. — Það er rétt, að eftir að horfur voru á því, að Búnaðarfélag Íslands yrði ekki viðurkennt sem fulltrúi bænda um stéttarmál þeirra, svo sem verðlagsmál, sem því hafði þó verið þröngvað til af Alþ. og ríkisstjórn að taka að sér, þá fóru ýmsir meðal bænda að ráða ráðum sínum um það, hvort þeir skyldu stofna stéttarsamband bænda. Ýmsar till. komu, en allir töldu, að réttast væri, að bændur sem víðast af landinu skyldu standa að myndun þessa sambands og stjórn þess, og að það væri rétt að taka það úr tengslum við búnaðarþing, til þess að það skyldi ekki falla neinn skuggi á það, þannig að það stæði undir stjórn Búnaðarfél. Íslands eða búnaðarþings, en undir starfsemi búnaðarþings stendur ríkissjóður og það er að öllu leyti kostað af honum. Þá komu fram till. frá Búnaðarsambandi Suðurlands um það að stofna þetta stéttarsamband, þannig að öll búnaðarfélög á landinu sendu fulltrúa á sameiginlegan fund og að þessi fundur stofnaði stéttarsamband bænda einn út af fyrir sig. Um sama leyti, sem Sunnlendingar voru með þennan fund, þá var Búnaðarsamband Borgarfjarðar einnig með fund og umr. um málið, og þeir, sem á þeim fundi voru, lögðu til, að stéttarsamband bænda yrði stofnað á þeim grundvelli, að það lyti í aðaldráttum lögum og reglum frá búnaðarþingi. Þegar þetta mál kom til umr. á búnaðarþingi í sumar, þá lágu báðar þessar till. fyrir, og meiri hluti búnaðarþings féllst á það, að stéttarsambandið yrði stofnað í aðaldráttum eftir þeim línum, sem lagðar hefðu verið af Búnaðarsambandi Borgarfjarðar: — Nú vilja menn gera þann reginmun á því, hvor leiðin væri farin, þessi leið Sunnlendinga, sem nú er talin eðlileg og sjálfsögð af ýmsum, eða sú leið hins vegar, sem farin var. En hafa menn athugað, að á þessu tvennu er enginn grundvallar mismunur? Hvor tveggja stefnan leggur til, að stéttarsamband bænda sé stofnað á grundvelli hreppabúnaðarfélaganna í landinu. En hreppabúnaðarfélögin í landinu eru undirdeildir í Búnaðarfélagi Íslands. Og þegar till. voru komnar um það að mynda nýtt samband bænda á grundvelli undirdeilda heildarfélagsins, Búnaðarfélags Íslands, var það þá undarlegt, þótt Búnaðarfélag Íslands vildi ekki láta sér vera þetta óviðkomandi? Mundi Samband íslenzkra samvinnufélaga — en undirdeildir þess eru kaupfélögin í landinu — láta það afskiptalaust, ef stofna ætti nýtt samband innan undirdeildanna í S.Í.S., sem ætti að taka að sér eitthvert nýtt verkefni eða verkefni, sem S.Í.S. hefði haft með höndum fyrir? Ég geri ráð fyrir, að S.Í.S. mundi í slíku tilfelli vilja hafa hönd í bagga um það, hvernig sú starfsemi yrði. Mundi Alþýðusamband Íslands láta það afskiptalaust, ef till. kæmu fram innan verkalýðsfélaganna í landinu um að stofna eins konar nýtt alþýðusamband á grundvelli verkalýðsfélaganna, sem hefði með höndum einhvern þátt þess, sem Alþýðusamband Íslands hefði haft með höndum? Mundi þá Alþýðusambandið ekki vilja hafa hönd í bagga um það, hvaða stefnu slík starfsemi tæki innan vébanda félagsskaparins? — Og var þá óeðlilegt, þegar till. voru komnar um að stofna nýtt samband bænda á grundvelli undirdeilda Búnaðarfélags Íslands, þó að Búnaðarfélagið vildi hafa einhverja hönd í bagga um stofnun þess nýja stéttarfélags bænda? Og þau einustu afskipti, sem Búnaðarfélag Íslands hafði af þessu, eru þau að hafa áhrif á verkaskiptingu á milli þessa nýja félagsskapar og Búnaðarfélags Íslands, til þess að koma í veg fyrir, að ágreiningur gæti orðið innan búnaðarfélagsskaparins um það, með hvaða mál þetta nýja stéttarsamband færi. Á búnaðarþingi voru sett stjórnarskrárákvæði, sem ákveða, með hvaða mál þessi búnaðarfélagsskapur skuli fara. Og það var ákveðið, að stéttarsamband bænda skyldi fara með hrein stéttarfélagsmál, en Búnaðarfélagið haldi áfram að fara með fagleg mál landbúnaðarins. En nú vill Búnaðarfélag Íslands losna við verðlagsmál landbúnaðarins, sem það var þvingað til að fara með um skeið, og því vildi Búnaðarfélag Íslands gera glögga grein fyrir, hvert sé verksvið stéttarsambands bænda. Að öðru leyti greinir ekkert á milli.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það væri ekki annað en pólitískur klíkuskapur, sem hefði staðið að þessari nýju hreyfingu, stéttarfélagsskap bænda, — þvert á móti því, sem hefði verið stefnan, meðan hinir ágætu Sunnlendingar réðu sínum ráðum á fundi um þetta mál, hreinir og flekklausir. En nú er svo gott að vita, að örli nokkurs staðar á pólitískri stefnu í þessum málum, þá er það hjá þeim góðu Sunnlendingum, sem ætluðu að koma á stéttarsambandinu óháðu Búnaðarfélagi Íslands, því að í boðsbréfi, sem þeir sendu bændum, tóku þeir nokkur stefnuskráratriði fram, sem það nýja stéttarsamband skyldi vinna að. M. a. var talað þar um, að það skyldi vinna á móti allri þjóðnýtingu, taka afstöðu til tolla- og skattamála o. fl. slíkra mála, sem eru hreinpólitísk mál, þannig að fyrir þessum ágætu Sunnlendingum virðist hafa vakað pólitísk stofnun meðfram, þegar þeir sendu út boðsbréf sitt. En þetta samþ. við ekki, að ætti að vera á stefnuskrá stéttarfélags. Þess vegna drógum við þetta út úr og bundum þennan stéttarfélagsskap eingöngu við stéttarmál. Þess vegna eru það hrein og klár öfugmæli, þegar hv. þm. A.-Húnv. heldur því fram, að fyrir búnaðarþingi og þeim, sem þar tóku ákvarðanir um þetta stéttarsamband, hafi vakað pólitísk togstreita, en hinir., Sunnlendingarnir, hafi verið hreinir og saklausir af öllu slíku. Þetta er alveg öfugt.

Þegar svo var rætt um, hvora leiðina skyldi fara, varð það að samkomulagi, að rétt væri að láta fundinn á Laugarvatni ráða, hvor stefnan væri tekin í þessu efni. Og pólitísku átökin um það voru ekki meiri en svo, að tveir menn á búnaðarþingi hölluðust að leið Sunnlendinganna, og var annar þeirra framsóknarmaður, en hinn sjálfstæðismaður. Hinir allir hölluðust að að fara þá leið, sem valin var, bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Á fundinn á Laugarvatni komu fulltrúar frá öllum sýslufélögum landsins, og þeir voru kosnir heima fyrir af fulltrúum búnaðarfélaganna í hverri sýslu. Hv. þm. segir, að lítið hafi verið að marka kosningu þessara fulltrúa, af því að hann hafi vitað til, að engir fulltrúar hafi verið kosnir, en þó hafi einn maður mætt þar í heimildarleysi. Það kann að vera, að þar, sem félagsþroskinn er allra minnstur eða félagsforustan lélegust, að þetta hafi getað átt sér stað, en yfirleitt voru fundirnir mjög vel sóttir og þátttaka mjög almenn. En hv. þm. skal athuga það, að þetta fundarboð fór fram eftir hinni hreinu og skæru línu Sunnlendinganna. Það var ekki Búnaðarfélag Íslands, sem boðaði til þessara funda, heldur Sunnlendingarnir, svo að hann getur ekki kennt búnaðarþingi um, þó að einhverjar glompur kunni að hafa verið á þessu fulltrúavali. Svo þegar kemur á þennan fund, er samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta að taka þá stefnu í þessu máli, sem búnaðarþingið hafði lagt. Það er því frá þessu gengið á svo lýðræðislegan og félagslegan hátt sem mögulegt er og ákvarðanirnar teknar af fulltrúum, sem kosnir eru samkv. fundarboði Sunnlendinganna, og svo kemur hv. þm. og segir, að við höfum rænt fundinum. Ég held, að alveg eins megi segja, að þessi hv. þm. hafi rænt þingmannsumboði sínu í Austur-Húnavatnssýslu, þegar hann lofaði að berjast fyrir velferðar- og hugðarmálum kjósenda sinna.

Nú er það að vísu rétt, að ákveðið var á þessum fundi, að fara skyldi fram úrslitaatkvgr. um það; hvor leiðin yrði farin, sem samþ. var á búnaðarþingi eða Sunnlendingarnir lögðu til. Ég skal ekki segja um, hvernig hún fer, en það skiptir engu um aðalatriðið, að stéttarsambandið er stofnað og tekið til starfa og mun lifa áfram og starfa, hvaða formsbreyt. sem kunna að verða gerðar á l. þess eða reglum. Það er því engin ástæða til að draga að fela þeim það vald, sem menn hugsa sér, að til mála geti komið, að þeim verði falið.

Hv. þm. A.-Húnv. var með samanburð á því, sem gerzt hefði í þessu máli í fyrra og nú. Mér skildist á því, að það ætti að vera ólíkt betra fyrir bændur, sem nú hefði verið gert. Þetta er eins og fleira hjá honum hrein og klár öfugmæli. Bændur gáfu eftir í fyrra sjálfviljuglega nokkurn hluta af því verði, sem var lögákveðið og þeir áttu heimtingu á. Gerðu þeir það af því, að þeir álitu það rétta stefnu í fjárhagsmálunum. Þeir trúðu því, að það yrði til þess, að aðrar stéttir og ríkið kæmu á eftir. Einn varnagli var settur, en hann var sá, að bændum væri tryggt það verð, sem ákveðið var innan lands, einnig fyrir útflutningsvörurnar. Nú er þetta ekki gert. Nú eru bændur sviptir þessum hluta verðsins, sem þeim var tryggður síðasta haust, en fá ekkert í staðinn. Nú fá þeir ekki útflutningsuppbætur eins og þá, og þeir fá ekki þá almennu lækkun á framleiðslukostnaði, sem þeir væntu, heldur verða þeir að taka á sig verðlagið á útlenda markaðinum ofan á þetta og þá dýrtíð, sem myndazt hefur síðan og heldur áfram að myndast fram yfir það, sem var í fyrra. Það er því hreint öfugmæli, þegar því er haldið fram, að það sé hagstæðara fyrir bændur, sem þeim er nú skammtað, en það, sem þeir sömdu sjálfir um á síðasta ári; það er þvert á móti.

Það var ýmislegt fleira, sem ég hafði skrifað niður hjá mér og ástæða væri til að ræða um af því, sem hv. þm. sagði, en ég held samt, að ég láti máli mínu lokið nú og mun geyma það til síðari tíma, sem ég tel ástæðu til að svara.