26.04.1946
Neðri deild: 122. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (4745)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Bjarni Ásgeirsson:

Á öndverðu þessu þingi var borið fram frv. um ræktunarsjóðinn af 2 þm. Framsfl. Það var svo sent landbn., en frá henni hefur það ekki komið. Þetta frv., sem hér er á ferðinni, gengur í svipaða átt og hitt, en er samið af nýbyggingarráði. Ákvæði þessa frv. eru hliðstæð öðrum 1. um lánakjör sjávarútvegsins. Þetta frv. mun vera búið að vera 17 daga í landbn, og sýnist lítill áhugi á stjórnarfrv., þegar þannig er látið til ganga, og virðist ekki fjarri lagi að láta sér detta í hug, að á bak við tjöldin sé ákveðið, að þetta frv. skuli daga uppi.

Við höfum aðeins þetta Alþingi í höndum okkar, það getur enginn sagt um, hvernig næsta Alþingi verður skipað, eða um vilja þess. Það er því nokkuð hart, ef þannig er gert upp á milli sjávarútvegs og landbúnaðar, að þetta frv. verði ekki afgr. á þessu þingi.

Áður en þetta frv. kom til umræðu hér, var það sent Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar. Þar var gerð till. um aukningu fjármagns til ræktunarsjóðs. Ég hef ekki hreyft þessu í n., en áskildi mér rétt til að flytja brtt. og mun gera það við 3. umr. Stjórn Búnaðarfélagsins vildi leggja áherzlu á að fá málið afgr. á þessu þingi. Vil ég því mæla með, að frv. verði samþ. nú til 3. umr.