12.04.1946
Neðri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (4788)

200. mál, tollskrá o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Ég skal ekki tefja umræður lengi, en ég verð að láta undrun mína í ljós yfir öllum þessum brtt. við tollskrána frá hv. þm. V.-Húnv. Hv. þm. var falin framsaga í fjhn., og að gera till., sem nefndin svo athugaði, en málið hefur aldrei komið fyrir í fjhn., og varð ég því ekki lítið hissa, þegar ég sá þetta umrædda þskj. Það er gott dæmi um, hvernig þessi vinnubrögð eru, að þm. flytur till. á þskj. 758 um að fella niður toll af kynbótadýrum. Um þetta atriði lá bréf hjá fjhn., ekki sent n. til þess að einn maður athugaði það, heldur öll nefndin, og tæki síðan afstöðu til málsins. Í samræmi við þetta frumhlaup eru margar till. Ef hv. þm. hefur mikinn áhuga á þessu máli, hefði verið heppilegra og eðlilegra að hafa um það samráð við nefndina heldur en flytja það einn, auk þess, hvað það hefði verið miklu sigurvænlegra. Ég er sammála þessum hv. þm. um sumar till. á þessu þskj., en ég óska, að fjhn. athugi málið áður en atkvgr. fer fram. Ég sá í Tímanum, að lýst hefur verið þessum till. þm. V.-Húnv. og gefið í skyn, að ef þær næðu fram, þá yrði um verulega lækkun á dýrtíðinni að ræða. Þetta á svo sem að sýna vilja Framsfl. En ef hv. þm. ætlast til, að þessar till. nái samþykki, hefði hann farið aðra leið. Það munu nú flestir sammála um, að æskilegt væri að losna við sem flesta tolla, þeir eru lagðir á af illri nauðsyn. Ég hef ekki gert mér nákvæma grein fyrir, hvaða áhrif á tekjur ríkissjóðs þessar till. hafa, ef þær næðu fram að ganga, en hitt minnir mig, að þessi hv. þm. hafi talið óvarlega áætlaðar tekjurnar af tollum á síðustu fjárlögum. — Það þarf að fá uppgefið hvað mikið hefur verið flutt inn af hverri vörutegund. — Það væri æskilegt, að hægt væri að létta tolli af timbri og gera dráttarvélar tollfrjálsar. Tollur á dráttarvélum er lágur, og því ætti þetta ekki að vera svo veigamikið, en sú till. er sanngjörn, því að dráttarvélar eru verkfæri, sem flutt eru inn af brýnni nauðsyn. Ég held ég hafi átt tal um það við hv. þm. V.-Húnv., að mér þætti sanngjarnt að lækka toll á húsum, hurðum og gluggum. En mér finnst nú, að fyrr megi lækka toll, þótt ekki verði farið svo langt sem hv. þm. leggur til. Það hefði verið hægara að fá samþ. till. um helmingslækkun, og hefði það munað miklu fyrir þá, sem flytja inn timbur í hús. Um glugga og hurðir leggur hv. þm. til, að verðtollur veriði 8%. Verðtoll á bólstruð húsgögn vill hann lækka úr 30% í 10%, ýmis búsáhöld úr 30% í 10%. Ég held, að ef gera á breytingar á tollskrá til stórkostlegrar lækkunar, verður að gera það áður en fjárlög eru samin eða um leið. Hv. þm. hefði því átt að koma með sínar till. í haust. Það eru einstöku till., sem ég vil ljá atkv. mitt, og aðrar, sem ég vil semja um. Það er því nauðsynlegt, að fjhn. haldi fund um málið, en sá háttur verði ekki hafður, að einn nefndarmanna komi fram með brtt. án þess að hafa sýnt þær meðnm. sínum. Ég vil svo vona, að hæstv. forseti verði við þeirri ósk minni að fresta málinu. Eftir að þskj. kom fram hef ég athugað málið og get því betur rætt við hv. þm. um málið í nefnd. Hér eru ýmis atriði, sem lækka mætti toll á, en mér finnst rétt að hafa samráð við hæstv. fjmrh. um það. Ég býst við, að hv. þm. V.-Húnv. svari því til, að nú sé komið að þinglokum og því naumur tími til að athuga málið í nefnd, og að form. fjhn. hafi verið meðmæltur þessari aðferð. Því er þá til að svara, að hann og form. n. skapa ekki meiri hluta í nefndinni. Ég geri ekki ráð fyrir því, að form. skorist undan því að halda fund um þetta mál. Það er annað mál, sem þarf að halda fund um, áhrif kjötverðs á vísitölu. Fundinn væri hægt að halda í dag eða á morgun. Jafnvel þótt þinginu yrði lokið fyrir páska, væri samt hægt að athuga málið í nefnd. Svo vona ég, að málinu verði frestað.