12.04.1946
Neðri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (4789)

200. mál, tollskrá o.fl.

Hallgrímur Benediktsson:

Ég skal ekki ræða þetta mál á þessu stigi. Ég vil taka það fram, að störf fjhn. trufluðust töluvert, er form. hennar, hv. þm. V.-Ísf., fór burtu og við tók hv. 4. þm. Reykv. Ég vil líka segja, að þótt þessi aðferð sé lagaleg, þá er þetta leiðinleg afgreiðsla og þyrfti málið að athugast betur í nefnd. Hins vegar verð ég að segja, að hv. þm. V.-Húnv. hafði orð á því við mig, að hann vildi fá aðstöðu til að koma málinu fram, ég tók undir það, að ekki væri hægt að meina honum að koma með till. í eigin nafni. — Frv. þetta er undirbúið af fjármálaráðuneytinu. Í greinargerð þess segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Frv. er flutt skv. tilmælum fjármálaráðuneytisins, og hafa nefndarmenn óbundið atkvæði um málið.“

Ég tel, að þessar breytingar, sem komið hafa fram frá fjármálaráðuneytinu, verði að taka til greina, en það er ekki ætlazt til, að tollskránni sé gerbreytt, heldur er hér aðeins verið að taka af agnúa. Ef gerbreyta ætti tollskránni, væri það geysimikið verk. Ég tel margar till. hv. þm. V.-Húnv. allþýðingarmiklar, en þær þurfa meiri athugunar við. Ég lít því svo á, að það beri að halda sig við og styðja frv. eins og það er samið af skrifstofustjóra fjármálaráðuneytisins og binda sig við óskir fjármálaráðherra.

Ég skal minnast á brtt. á þskj. 617, frá hv. 2. þm. Eyf., um að 11. liður 1. gr. falli niður. Þá brtt. vildi ég samþ., en mun að öðru leyti halda mér við frv. Nú er komin fram till. frá hv. 2. þm. Rang. um að fresta málinu, en ég vildi þó láta það koma fram hér, að hv. þm. V.-Húnv. hafði átt tal við mig um þetta.