26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Stríðinu er lokið, samningur sá, sem kenndur hefur verið við sex manna nefndina, er úr gildi fallinn, verðlagsmál bænda eru aftur á dagskrá.

Þau bráðabirgðalög, sem hér liggja fyrir til samþykktar, fela a. m. k. í sér þá bót frá því, sem áður var, að í stað margra nefnda, samtals um 20 menn, sem áður fóru með þessi mál, kemur nú ein nefnd, sem að vísu hefur til aðstoðar 25 manna ráð, skipað mönnum úr hópi bænda, en það atriði út af fyrir sig tel ég ekki til bóta. Ég álít, að betur hefði farið á, að í þessari nefnd hefðu einnig átt sæti fulltrúar neytenda, en með þessari skipan tekur ráðh. á sig fulla og ótvíræða ábyrgð.

Hið eldra skipulag í þessum málum var á þá lund, að með þau mál fór nefnd, sem skipuð var tveim fulltrúum bænda, tveim fulltrúum neytenda og einum oddamanni, útnefndum af ráðh., en hlutverki þess manns mætti líkja við hlutverk sáttasemjara í deilum atvinnurekenda og verkamanna.

brtt., sem hér liggur fyrir, er áþekk þeirri brtt., sem felld var við 2. umr. þessa máls. Einungis er sá munur á, að í þessari brtt. er lagt til, að stéttarsamband bænda taki ekki við verðlagningarvaldinu fyrr en að ári liðnu. Það, sem fyrir hv. þm. liggur, er að greiða atkv. um, hvort fela skuli landbrh. eða stéttarsambandi bænda úrslitaábyrgð í þessu máli. Ég skal taka það fram strax, að ég er á móti því að selja stéttarsambandinu sjálfdæmi í þessu máli. Hið eldra skipulag þessara mála var þannig, að afurðasölulög voru sett og verðjöfnun höfð á sölu afurðanna á innlendum og erlendum markaði. Bæði Framsfl. og Alþfl. gerðu sér ljóst, að bændur hlytu að afsala sér rétti til að ákveða afurðaverðið. Þá voru það þrír aðilar, sem þetta gerðu, þ, e. framleiðendur, neytendur og ríkisvaldið, og þá heyrðust ekki raddir um, að þetta væri ranglát skipan. Það er fyrst á 10. eða 11. ári, að slíkar raddir taka að heyrast. Starf oddamannsins, sem ríkisstj. skipaði, gafst vel, en hlutverki hans mætti jafna við hlutverk sáttasemjara í deilum atvinnurekenda og verkamanna.

Haustið 1943 komu dýrtíðarmálin öllu í öngþveiti hér á Alþingi, og skipuð var utanþingsstjórn. Ég var þá í fjhn. og gerði að lokum till., sem var samþ. En hún var á þá lund, að skipuð skyldi 6 manna nefnd, fulltrúar framleiðenda og neytenda, og skyldi hún vera nokkurs konar gerðardómur, og áttu hennar ákvarðanir að gilda. Hlutverk þessarar nefndar var að ákveða afurðaverðið innanlands, svo hátt sem hagsmunir neytenda þyldu, og jafna þannig hag bænda við hag annarra stétta. Í þessu fólst enginn fjandskapur til bænda. Útfluttar afurðir voru þessu ekkert viðkomandi, og var talað um það við fjhn., að ekki kæmi til mála, að ríkið tæki á sig slíka ábyrgð, að kaupa allar afurðir eða ábyrgjast visst verð fyrir þær.

Þýðingarlaust er að rekja hér starf þessarar nefndar, en við því hafði ekki verið búizt svo sem raun varð á. T. d. hefði mátt ætla, að hún legði til grundvallar tölur frá þeim árum, sem öllum stéttum vegnaði vel, t. d. frá 1909–1914. En nefndin hvarf að því að reikna út kostnaðarverð afurðanna. Það er vitanlega mjög erfitt verk, þar sem ýmsir liðir eru alltaf hreyfanlegir og eiga að vera hreyfanlegir. Nefndin varð sammála, og var verðið ákveðið samkvæmt því. Að sjálfsögðu hefði Alþingi átt að leysa úr því, hvert verð skyldi vera á útfluttum afurðum, en þá skeður það, að 28 þingmenn samþ. með undirskriftum, að uppbætur á útfluttar afurðir skuli borgaðar til samræmis við álit n. og síðan . skuli verðið innanlands greitt niður til samræmis við vísitölu.

Sumir töldu hér mikinn sigur unninn fyrir bændastéttina, en ég tel, að það hafi verið Pyrrusarsigur. Með þessu fyrirkomulagi var kippt fótum undan þeim atriðum, sem eðlilegt er, að ákveði afurðaverðið, þ. e. framboð og eftirspurn, en þetta tvennt er að fullu slitið úr samhengi með niðurgreiðsluaðferðinni, enn fremur verður að teljast hæpið, að kostnaðarverðið hafi verið rétt ákveðið hjá 6 manna n. Niðurstaðan varð því sú, að enginn þeirra faktora, sem eiga eðlilega að ráða afurðaverði, kom til greina, en hefðu allir getað komið til greina. Ríkið borgaði allt og gekk jafnvel svo langt í umhyggju sinni, að það greiddi neytendastyrk á útfluttar afurðir.

En hve lengi voru menn svo í þessari Paradís? Samkv. undirskrift þessara 28 þm. átti þetta að vera leitt í lög, en þegar á næsta ári er samið um 26% lækkun frá því verði og þar með horfið frá þeim grundvelli, sem þetta var byggt á. Þetta var gert með þeim forsendum, að ríkissjóði hefði aldrei borið skylda til að greiða uppbætur á útfluttar afurðir. Þetta var rétt, en það hefði átt að vera sýnt frá upphafi.

Nú er þetta komið á það stig, að í baráttunni um sveitaatkvæðin er því haldið fram, að um þessi mál þurfi ekki við neina að tala, einungis krefjast þess, að stéttarsamband bænda verði einrátt. Þetta held ég, að sé það hæsta, sem bændapólitíkin hefur komizt, og mun vera heimsmet. Til viðbótar við þá einokun, sem þessar vörur hafa á innlendum markaði, er þess krafizt, að þing og stjórn láti sig engu skipta, hvernig verðið er greitt niður. Talað er um jafnrétti fyrir bændur. Hvernig var séð fyrir þessu jafnrétti í stjórnartíð Framsfl. og Alþfl.? Þá var það nefnd, skipuð fulltrúum neytenda, framleiðenda og ríkisstjórnar, sem ákvað afurðaverðið og þótti vel takast. En nú eru allir þeir taldir óalandi og óferjandi, sem ekki vilja viðurkenna einvaldsrétt bænda í þessu máli, og er þá tilfært, að verkamenn eða samtök þeirra ráði einir sínu kaupi. En þetta er ekki rétt. Verkamenn þurfa að semja við atvinnurekendur um sitt kaup, og ríkisvaldið gerir sitt til, að samkomulag náist.

Og hvernig er það um sjómenn? Kjör þeirra eru háð verði aflans, og verða þeir þar að hlíta erlendri samkeppni. Það væri hollt fyrir bændafulltrúana, sem krefjast einræðis um afurðaverð, að hugleiða, hversu færi, ef sjómenn gerðu hliðstæðar kröfur án tillits til verðsins á erlenda markaðinum, en sjómönnum kemur slíki ekki til hugar. Á þessum samanburði sést bezt, hve fráleitt það er að halda því fram, að verið sé að krefjast jafnréttis fyrir hönd bænda. Útgerðinni er auk þess gert að greiða háa skatta, en hvergi í heiminum mun útgerðin hafa byggt tiltölulega eins mikið upp og hér á landi. Og svo mega sjómenn hlusta á það, að uppbæturnar til landbúnaðarins séu greiddar til þess að halda útgerðinni gangandi. Íslenzkir sjómenn afla meir hlutfallslega en nokkrir aðrir sjómenn, og svo eiga þeir eftir áliti sumra hv. þm. að þiggja bessa ölmusu til að halda líftórunni.

Þá kem ég að því, þegar sagt er, að málefnum bænda sé komið í gott horf að öðru leyti en þessu. Þetta er ekki rétt 6 manna n. verðið ruglaði hinn rétta grundvöll í þessum málum og orsakaði misskilning, sem erfitt er að leiðrétta. — Ég vil, að bændum sé sýnd full samúð, því að þeir hafa átt við erfiðleika að etja á stríðsárunum. Ég býst við því, að þessi till. verði samþ., og það er vel. Það þarf margt að gera, og það verður ekki gert með einræðisvaldi.

Atvinnuvegur eins og landbúnaðurinn verður að gera sér það ljóst, að það þarf að breyta, það þarf að stækka dagsláttuna frá því fyrir einu ári síðan. Og engin ein stétt á að vera ríki í ríkinu, heldur samstarf allra stétta.