26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (4811)

203. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Það þarf ekki að halda langa framsöguræðu fyrir þessu frv., það er þegar greint frá þeim rökum, sem í því eru hér í grg. Það eru aðeins smáatriði, sem ég vildi minnast á. Svo standa sakir, að áhugi fyrir byggingu verkamannabústaða hefur farið mjög vaxandi síðustu ár, bæði í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þetta hefur leitt til þess, að stofnaður hefur verið allfjölmennur slíkur félagsskapur á síðari árum, og þau félög munu flestöll hafa á prjónunum ráðagerðir um byggingarframkvæmdir. Og er vissa fyrir því, að þær ráðagerðir verða til þess að bæta úr aðkallandi og brýnni þörf á eðlilegan hátt. Þetta hefur svo leitt til þess, að lánbeiðnir til byggingarsjóðs verkamannabústaða hafa orðið fleiri og fleiri, og eins og gerð er grein fyrir í grg. þessa frv., er skoðun okkar sú, að sjóðurinn hafi þegar lofað ýmsum byggingarfélögum lánum á þessu ári, sem nema samtals nær 6 millj. króna. Þó liggja fyrir óafgreiddar lánbeiðnir hjá sjóðnum að upphæð rúmlega 5 millj. kr., og loks er eftir að geta þess, að fyrir dyrum stendur, að allmörg byggingarfélög sendi slíkar lánbeiðnir, og virðist þá ekki óvarlega áætlað, eins og gert er ráð fyrir í grg., að innan skamms murri liggja fyrir hjá sjóðnum loforð fyrir lánum og lánbeiðnir að upphæð allt að 16 millj. króna. Nú hefur sýnt sig, að þrátt fyrir það, að skuldabréf sjóðsins eru ríkistryggð, hefur sala þeirra gengið erfiðlega. Sjóðurinn hefur nýlega boðið út skuldabréfalán að upphæð 3,5 millj. kr., en af þeim bréfum hefur til þessa ekki selzt nema sem svarar einni milljón. Það er því augljóst, að verði ekki úr því bætt, fer því fjarri, að sjóðurinn geti svarað eftirspurninni, en það þýðir, að tefjast munu byggingarframkvæmdir verkamannabústaða í verulegum mæli, en ég vil leggja áherzlu á, að engar byggingar hafa verið framkvæmdar hér á landi á eðlilegum grundvelli aðrar en þessar byggingar, og ég tel vissu fyrir því, að með slíkum byggingum sé aðeins verið að bæta úr brýnustu þörfinni á mjög eðlilegan hátt. Ég get ekki séð neina leið úr þessum vanda aðra en þá að gera lánsstofnunum ríkisins að skyldu að innleysa skuldabréf sjóðsins, og fram á það er farið í þessu frv., en takmörkin sett við það, að skyldan nær ekki til innlausnar á hærri upphæð en 20 millj. kr. Í þessu sambandi vil ég minna á, að fyrir Alþ. liggur frv. um fyrirgreiðslu fyrir íbúðarhúsbyggingum í kaupstöðum og kauptúnum, og er þar gert ráð fyrri endurskoðun á l. um verkamannabústaði. Ég vil vona, að þetta frv. nái fram að ganga og á því verði nokkur endurbót í meðferð þingsins. En þó að sú von mín rætist, er þetta frv. jafnþarft eftir sem áður, því að það miðar að því að koma í veg fyrir, að hindrist þær byggingarframkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á þessu sumri. En til þess að svo megi verða, þarf að fá á þessu góða lausn. Vildi ég því mega vænta þess, að Alþ. sæi sér fært að afgreiða þetta mál bæði fljótt og vel og ljá því samþykki, um leið og ég legg áherzlu á, að það einnig afgreiði það allsherjarfrv., sem fyrir liggur, og inn í það geti komið einhver svipuð ákvæði og hér er gert ráð fyrir, til þess að bæta úr fyrir framtíðina. Þetta er fyrir augnablikið, en ekki heildarniðurstaða á þessu máli.

Get ég svo lokið máli mínu, og finnst mér eðlilegt, að frv. fari að lokinni þessari umr. til fjhn., þar sem mér skilst, að þetta sé fyrst og fremst fjárhagsatriði, þó að félmn. geti einnig komið til greina, og mun ég ekki gera það að kappsmáli, til hvorrar n, málið fer. Ég legg því sem sagt til, að málinu verði vísað til annarrar hvorrar þeirrar n. og til 2. umr.