22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (4819)

204. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Ég hef leyft mér að bera fram frv. til l. á þskj. 589 um að fella niður bifreiðaskatt á svonefndum jeppabifreiðum, sem bændur ætla sér að nota við landbúnaðarstörf.

Það mun nú vera fengin reynsla fyrir því, að bifreiðar þessar eru mjög hentugar við ýmis búnaðarstörf. Það er talið ákaflega heppilegt að nota þær við jarðrækt í stað hesta. Bændur hafa sent margar umsóknir til Búnaðarfélags Íslands um þessa jeppabíla, og eru þær miklu fleiri en hægt er að afgreiða að þessu sinni. Sýnir þetta áhuga bænda fyrir því að fá þessi tæki og skilning þeirra á því, að það megi nota þau við ýmiss konar störf í þágu landbúnaðarins. Ég geri ráð fyrir, ef þessir bílar reynast vel, eins og kunnugir telja, þá verði á næsta ári haldið áfram að flytja þá til landsins og gefa sem flestum bændum kost á að eignast þá. Mikið er rætt um skort á vinnukrafti í sveitunum, og væri því af þeirri ástæðu mjög æskilegt, að sem flestir bændur ættu kost á þessum tækjum, ef það mætti verða til þess að létta undir með þeim við heimilisstörfin, svo og til þess að skreppa milli bæja í nauðsynlegum erindum. Það er vitað, að vélar, sem reknar eru með benzíni, eru dýrar í rekstri og benzínskattur hér á landi hár. Í þessu frv. er ekki farið fram á að undanþiggja jeppabílana benzínskatti, vegna þess að ég tel, að flest mæli á móti því, en það er hinn svokallaði þungaskattur, sem hér er um að ræða, og hygg ég, að hv. þdm. geti verið mér sammála um það, að engin sanngirni sé í því að leggja sams konar skatt á þessar bifreiðar, sem á að nota við heimilisstörf. eins og t. d. „luxus“ bíla, sem menn leyfa sér að eiga, þótt það sé að flestu leyti óþarft. — Ég held, að ástæðulaust sé að halda langa ræðu um frv. þetta á þessu stigi málsins. Frv. fer auðvitað til n., verður athugað þar nánar, og vildi ég mælast til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjhn.