22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (4820)

204. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil mæla hið bezta með þessu frv., en af því að hv. flm. lét orð falla á þann veg, að þessi undanþága, sem hér er um að ræða, ætti að miðast við þá jeppabíla, sem nú er verið að hefja innflutning á, þá vil ég benda á, að bændur víðsvegar um land hafa keypt slíka bíla af sölunefnd setuliðsviðskipta og nota þá mjög mikið við störf sín, t. d. heyskap. Það leiðir af sjálfu sér, að slíkir bílar, þótt þeir hafi verið keyptir áður, ættu að koma undir þessi ákvæði. — Ég taldi rétt að láta þetta koma fram, af því að hv. flm. virtist eingöngu hafa í huga þá bíla, sem nú er verið að hefja innflutning á.