22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (4821)

204. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það er aðeins til athugunar fyrir þá menn, sem fá þetta mál til meðferðar, að ég vil segja örfá orð út af þessu frv. Það hefur verið stungið upp á, að mál þetta fari til hv. fjhn., og vildi ég sízt mæla því í gegn, þótt hitt sé að vísu venjulegra, að slík mál fari til samgmn. — Mér virtist koma fram hjá hv. flm. nokkur ókunnugleiki á því, hvernig farið hefur verið að með skattlagningu á þessum jeppabílum. Það er sem sé þannig og hefur verið undanfarið, að samkomulag hefur verið milli þeirra aðila, sem hér fjalla um, þ. e. bifreiðaeftirlitsins og embættismanna í héruðum annars vegar og eigenda þessara farartækja hins vegar, að þau hafa verið skrásett með örlitlum tilbreytingum sem vörubifreiðar, ef þess er óskað, en um leið er sá skattur, sem frv. ræðir um, úr sögunni, því að hann er aðeins á þeim bifreiðum, sem skrásettar eru sem fólksbifreiðar. Það eru vissulega fáar jeppabifreiðar, sem skrásettar eru sem fólksbifreiðar, sem sé aðeins þær, sem einstaklingar hafa viljað tryggja, að gætu verið í fólksflutningum, og eru þær þá sumpart notaðar sem leigubifreiðar, og eru þær þá skattlagðar með hinum minni skatti eða sem einkabifreiðar, og er þá skatturinn tvöfaldur. Þessi skattur er 60 krónur á leigubifreiðar til mannflutninga, en 120 kr. á einkabifreiðar. Málið leysist algerlega, því að hægt er að skrá þessar jeppabifreiðar sem vörubifreiðar í framtíðinni, eins og gert hefur verið, ef þess er óskað, en þetta mun verða athugað nánar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar. — Ég geri ráð fyrir, að bændum hafi ekki dottið í hug að fara fram á, að þær bifreiðar, sem þeir hafa keypt og síðan notað svo að segja einvörðungu í þjónustu landbúnaðarins, væru skrásettar sem vörubifreiðar. Það raskar ekki gildi þess, að þessar bifreiðar eigi að nota við landbúnaðarstörf, þótt aftursætið sé tekið úr þeim við skrásetningu þeirra sem vörubifreiða, og er ekki hægt að telja það brot á skrásetningu, eftir því sem viðgengst með vörubifreiðar, þó að þetta aftursæti sé undir vissum kringumstæðum sett aftur í bílana. M. ö. o. eru því litlar líkur til annars en að þessar bifreiðar verði skrásettar sem vörubifreiðar, nema þar sem beinlínis til stendur að nota þær til mannflutninga, en þá er það hins vegar álitamál, hvort hægt sé að segja, að þær séu í þjónustu landbúnaðarins.