09.04.1946
Neðri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (4834)

212. mál, ljósmæðralög

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég held, að þetta frv. beri með sér, að það sé borið fram í því skyni að gefa ljósmæðrum kost á því að bæta kjör sín, en alls ekki í því skyni að rýra þau. Og ég hygg, að þetta komi nokkuð greinilega fram í bréfi landlæknis, sem mælir mjög eindregið með frv. Hvað verður um núverandi uppbætur á taxta til ljósmæðranna, virðist í raun og veru ekki koma þessu máli við, vegna þess að það er ákveðið hér í 1. gr. frv., 3. mgr., að á launin skuli greiðast dýrtíðaruppbót eftir þeim reglum, sem gilda um starfsmenn ríkisins. Sú dýrtíðaruppbót er fastsett í launal. og fer eftir vísitölu á hverjum tíma. Ég tel því ekki, að það sé eiginlega nein ástæða til að fresta nú þessu máli, ef því er ætlað að ná framgangi á þessu þingi.