04.04.1946
Neðri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (4847)

214. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Pétur Ottesen) :

Í grg. þeirri, sem fylgir þessu frv., eru færðar fram nokkrar ástæður fyrir því, að hér er lagt til, að hækkuð verði sektarákvæði þau, sem í l. þessum felast. Það ákvæði er frá 1922, og hafa að þessu leyti ekki verið gerðar neinar breyt. á l. Í ákvæðum þessa frv. eða breyt. á sektarákvæðunum er miðað við það yfirleitt að færa bæði lágmarksupphæð sektar og einnig hámarksupphæð sektar til samræmis við það, sem er í l. um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi. Það virðist eins og nú er komið, að þá sé rík ástæða til þess að gera nokkuð svipuð sektarákvæði í þessum l. og gagnvart þeim brotum, sem þar er miðað við, eins og í l. um botnvörpuveiðar. Þetta tekur nú orðið að langsamlega mestu leyti til síldveiða hér við land. Nú er það vitað, að síldveiðar eru, eins og sá atvinnuvegur er nú rekinn, ákaflega þýðingarmiklar fyrir þjóðina, og þarf þess vegna að gera svipaðar eða sams konar ráðstafanir gagnvart yfirtroðslum og lögbrotum af hálfu útlendinga, sem sækja hingað, og nú er gert við botnvörpuveiðar hér við land. Við þetta er breyt. miðuð. Þó að við klífum þrítugan hamarinn til að haga okkar landhelgisgæzlu þannig, að hægt sé að koma í veg fyrir slík brot, þá er það vitað, að við ráðum engan veginn yfir þeim tækjum, sem nægja til þess að verja þetta stóra tún þjóðarinnar, landhelgina, sem nær meðfram öllum ströndum landsins, með þeim hætti. Þess vegna verður einnig eða er rétt og sjálfsagt í raun og veru gagnvart lögbrjótum, að einnig sé nokkurt aðhald í því, að sektarákvæðin fyrir brotin séu þannig, að þeir, sem til lögbrotanna stofna, ef hægt er að hafa hendur í hári þeirra, að þær séu nokkur áminning fyrir þá og þá aðra, sem líklegir væru til þess að feta í þessi fótspor. Það er nú þegar vitað, að mikill fjöldi erlendra síldveiðiskipa mun á næsta ári sækja hingað á mið. Við höfum reynslu af því bæði fyrir stríð og þá ekki síður frá s. l. sumri, að það er mikil áleitni af hálfu þessara erlendu fiskimanna til þess að nota aðstöðu í landhelgi við síldveiðar bæði að því leyti að veiða innan landhelginnar og þá ekki síður hvað það snertir að verka aflann innan landhelginnar. Það er töluvert miklum örðugleikum háð að salta síld og verka á annan hátt úti á rúmsjó, og nú er mikil ásókn um það hjá þessum veiðiskipum að nota hlé af landi til þess að athafna sig við þessi störf. Í þáltill., sem ég flutti hér um eftirlit með framkvæmd þessara l., er nokkuð að því vikið, hvernig það gekk til með þetta eftirlit á s. l. sumri, og bendir sú reynsla til, að hér þurfi að taka rækilega í taumana. Það er að því vikið í grg. fyrir þessu frv., að ástæða mundi vera til einnig að breyta l. um bann gegn botnvörpuveiðum, að því er snertir sektarákvæði þessara laga. Hæstv. dómsmrh. hafði látið falla orð við mig um það, að hann hefði í hyggju að bera fram eða láta bera fram breyt. á þessum l. að þessu leyti, og kemur það þá sennilega fram hér nú á næstu dögum.

Ég vil svo mælast til þess, að þetta frv. verði látið ganga til sjútvn. að lokinni þessari umr., og ber fram þau tilmæli við n., að hún taki þetta frv. fljótt til athugunar hjá sér og skili áliti um það við fyrstu hentugleika, svo að breyt. gæti náð lögfestingu á þessu þingi.