26.04.1946
Neðri deild: 122. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (4876)

239. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Ingólfur Jónsson:

Mér finnst hér vera nýmæli á ferðinni, að láta frv. ganga áfram án þess að fara til nefndar. Þetta er mjög stórt mál. Hér er um heimild að ræða að taka 20 millj. kr. lán. 20 milljónir er enginn smápeningur, og mér finnst það djarft af hv. flm. að ætlast til þess, að svo stóru máli sé skotið í gegn án þess það fái nokkra athugun. Líklega er málið ágætt og e. t. v. nauðsynlegt, en þm. mega ekki gerast svo djarfir um stórmál sem hér reynist vera. — Vextir eiga að vera af þessu láni 2½%. Hvernig á að fara að því að útvega svo ódýrt lán? — Það lítur ekki heldur út fyrir, að flm. séu mjög ákafir með, að það gangi í gegn á þessu þingi, því að þá hefðu þeir átt að bera það fram fyrr en í þinglok. Ég ætlast ekki til, að málið tefjist í nefndinni, en ég vil ekki breyta út af hinni venjulegu aðferð, að mál fari til nefndar og fái þar athugun. Vil ég því enn leggja til, að málinu verði vísað til fjhn.