26.04.1946
Neðri deild: 122. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (4880)

239. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Flm. (Pétur Ottesen) :

Ég vil út af því, sem hv 2. þm. Rang. sagði, að flm. frv. hefðu ekki haft sérstakan áhuga á að afgreiða þetta mál á þessu þingi, þar sem þeir kæmu ekki fram með það fyrr en í þinglok, benda á, að þetta frv. er upphaflega flutt sem brtt. við annað frv. Af því stafar, hversu seint frv. kemur fram. Ég vil svo benda hv. þm. á, að hann hefur sjálfur verið með í að afgreiða mál, þar sem um milljónir var að ræða, verið með í að veita meginheimild í þáltill., og er sú aðferð veikari en hér er talað um. Þessu fylgdi hann án þess að láta það mál fara til nefndar.