11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (4930)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég var búinn við 2. umr. að minnast yfirleitt á þá ókosti, sem ég taldi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og taldi, að það mundi með öðrum fleirum álögum reisa ríkinu hurðarás um öxl. En ég vil aftur á móti, úr því að hv. form. menntmn. var að skora á flm. þessara brtt., sem hér liggja fyrir, að taka þær aftur, þá vil ég nú skora fast á þá að halda fast við sínar brtt. Ég sé ekki annað, eins og sakir standa nú, en að annaðhvort verði að samþ. þessar brtt. eða fresta umr. þessa máls og brtt. við það, þangað til búið er að afgr. þetta mál í sambandi við fjárl. Því að eins og sakir standa nú, er áætlaður styrkur til húsmæðraskóla eitthvað 400–450 kr. á hvern nemanda. Og svo býst ég við, að einnig sé áætlað í þeirri áætlun, sem frá ríkisstj. hefur komið, verðlagsuppbót á þau laun, sem kennurum hafa verið greidd við þessa skóla áður, svo og vísitala á allan styrkinn til stúlknanna. En ég verð að segja, að eins og nú hefur verið gert með launal., a. m. k. við þann skóla, sem ég er riðinn við, þá er ekkert að gera annað en að leggja hann niður, ef ekki er hækkað stórkostlega tillag til hans frá ríkinu. Og það er ekki nema rétt og sanngjarnt að krefjast þess, að það þing, sem veitir þessi miklu laun, sjái einnig skólanefndum farborða um að geta greitt þessi laun við húsmæðraskólana. Nú horfir þetta þannig við, að það vantar alveg í frv. til fjárl. nokkra áætlun um þá hækkun. En ég hygg, að hækkunin vegna launanna verði að vera 60 þús. kr. á hvern skóla að meðaltali af fjórum sýsluskólum, því að ég geri ráð fyrir, að það þurfi að vera 50–70 þús. kr. hækkun á hvern skóla vegna lagabreyt. einnar, þar sem er samþykkt launalaganna. En eins og sakir standa sé ég mér ekki annað fært en fylgja þessari brtt., þó að hún mætti kannske vera betri. En á meðan ekki er á fjárl. séð fyrir nauðsynlegum greiðslum til skóla þessara, er ekki annað fært en fylgja þessari brtt. eða sams konar brtt.