11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (4934)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Magnús Jónsson:

Ég verð að segja það, að mér er alveg óskiljanlegt þetta kapp, sem lagt er á þessa till. minni hl. menntmn. Það liggur nú fyrir bálkur af fræðslumálafrv., sem hafa verið borin fram í Nd., og það er ekki útlit fyrir annað en svo og svo mikið af þeim verði afgr. Hvað mikið af þeim verður afgr., fer auðvitað eftir undirtektum hv. alþm. Nú er það auðvitað sjálfsögð regla að hafa slíka löggjöf sem mest kerfisbundna, og það verður hæstv. Alþ. auðvitað að gera einnig í þessu máli. Þetta mál er þegar undirbúið af mþn., og hvaða meining er þá að taka einn ákveðinn skóla og bera fram brtt. um hann af einum þm? Ég skal játa, að það er ekki skaði skeður og mundi sennilega það sama hafast upp úr því, þegar það mál kæmi til Nd., en það mundi tefja fyrir því, þannig að það næði ekki afgreiðslu fyrr en séð væri fyrir um örlög hins frv.

Mér hefur virzt, að ummæli hv. þm. S.-Þ. gefi tilefni til þess að halda, að honum sé, af óskiljanlegum ástæðum, í nöp við frv. mþn. í skólamálum, og ég vil alls ekki, að hann fái tækifæri til að krafla það úr fræðslumálunum, sem hann hefur áhuga fyrir til þess að geta verið á móti frv. mþn., þegar þau koma. Ég segi eins og hv. 7. landsk., að ég skal athuga, hvort þetta hlutfall er eðlilegt eða ekki.

Hv. þm. S.-Þ. talaði um erfiðleika vegna launalaganna. En það er alveg út í bláinn, ef fræðslufrv. mþn. verða samþ., því að Þar eru launin borguð úr ríkissjóði, og eins og hv. 1. þm. N.-M. sagði, þá er framtíð þessara skóla tryggð með frv. mþn. Mætti nú kannske segja, að þessi rök mín hnígi að því að vera á móti þessu frv., og það er náttúrlega alveg rétt, að þetta frv., sem ég hef annars verið fylgjandi, hefur misst mikið af gildi sínu við, að hitt frv. er fram komið, því að þar er séð fyrir því, að slíkir húsmæðraskólar verði settir upp þar, sem ástæða er til, og í 2. gr. þess frv. er mælt mjög skynsamlega fyrir um það. Það á að spyrja alla hlutaðeigendur um, hvort þeir telji nauðsynlegt að setja slíka skóla upp, og eftir þeirra till. á svo að fara. Ég fylgi þessu frv. bæði af gamalli tryggð við málið og einnig af því, að mér finnst þeir staðir, sem fram að þessu hafa verið nefndir, vera alveg eðlilegir, þannig að Alþ. geti byrjað á því að kveða svo á, að þar skuli skólarnir vera, enda þótt almennar reglur verði síðar látnar gilda. En að fara svo að taka út úr eitt atriði og gefa öðrum þar með tilefni til þess að stökkva frá hinu málinu, til þess sé ég enga ástæðu. Mér finnst svo þrálátlega haldið á þessu máli, að mér sýnist það ekki geta verið af öðru en einhverjum aukaástæðum, því að fyrir skólunum er vel séð, ef þm. sameinast um að afgr. það frv., sem mþn. í skólamálum hefur samið og nú liggur fyrir Alþ. Ég hygg, að það frv. sé komið af stað í hv. Nd., og ætti þá ekkert að þurfa að verða því til fyrirstöðu, ef ekki er settur fleygur í málið.