03.12.1945
Efri deild: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég ætla að minnast á með örfáum orðum, enda lagði hæstv. landbrh. ekki út í það að svara rækilega neinu af því, sem ég sagði. Hann hélt því fram, að vald ráðh. væri ekkert aukið með þessum brbl., sem hér liggja fyrir, hann hefði haft meira vald áður, af því að auðveldara væri að ráða við einn mann heldur en 25. Þetta kann að vísu að vera rétt, svo langt sem það nær, en þessi fulltrúi ráðh. hafði ekki raunverulega úrslitavaldið, því að hann var ekki nema einn af fimm í verðlagsn., og sex manna n. álitið sýnir m. a., að það er alls ekkert óhugsandi, að náðst geti samkomulag milli framleiðenda og neytenda um verðið, og ef svo væri, hefði fulltrúi ráðh. ekkert að segja. Þess vegna munu þessi brbl. sett til þess að auka vald ríkisstj. í þessum málum. Það þarf ekki ævinlega að vera svo, að neytendur og framleiðendur mætist þarna sem andstæðingar, en segjum svo, að þeir gerðu það, þá hefði fulltrúi ráðh. að vísu úrslitavaldið, en ég álít það þó allt aðra aðstöðu fyrir bændastéttina að hafa þarna sína fulltrúa, sem túlkuðu hennar mál, heldur en engan. Ég skal játa það, þótt ég sé andstæðingur hæstv. landbrh. í stjórnmálum, að ég treysti honum í þessum efnum miklu betur en ég gæti hugsað mér landbrh, vera lakastan, en maður veit hins vegar ekkert um, hvað í vændum kann að vera. Ég er viss um það, að ef því hefði verið spáð fyrir 4 árum, að Sjálfstfl. mundi fela kommúnistum að fara með málefni sjávarútvegsins, hefðu allir sjálfstæðismenn margkrossað sig og talið hreinustu fjarstæðu að slíkt mundi koma fyrir. Nú hefur þetta skeð, og ég sé ekkert, sem gerir það ósennilegt, eftir því sem skeð hefur, að kommúnista yrðu næsta ár falin málefni landbúnaðarins, og þá veit maður, hvað mundi ske. Ég efast ekki um það, að hann mundi gera það, sem hann áliti heppilegast fyrir framtíð landbúnaðarins. Allir vita, hvað það er, m. ö. o. að afnema bændastéttina í þeirri mynd, sem hún hefur verið í þúsund ár og er nú. Og helzta ráðið til þess, að þetta geti orðið, væri að gera fyrst alla bændur gjaldþrota, svo að þeir flosnuðu upp af jörðum sínum og síðan væri hægt að fara að byggja upp þorp og annað í sveitunum, allt eftir kokkabókum kommúnista. Þá væri ráðh. m. ö. o. gefið vald til þess að svelta bændur út af jörðum sínum. (KA: Framsfl. hefur séð um það, að bændur flosni upp af jörðunum, og þarf ekki nýja aðila til þess). Þetta er svo mikil heimska hjá hv. þm., þótt það heyrðist í útvarpsumr. frá flokksbróður hans, að það er alveg furðulegt, að jafngreindur maður skuli taka sér slíkt í munn. Það vita allir, af hverju kreppan eftir 1930 stafaði. Hún byrjaði vestur í Ameríku, og gat enginn Íslendingur, hvorki framsóknarmenn né aðrir, við hana ráðið. — Það var ranghermi hjá hæstv. landbrh., að það hefðu verið mín orð, að gerðardómsl. hefðu verið þrælal. Ég sagði, að hv. 3. landsk. (HG) hefði kallað gerðardómsl. þrælal., en ef þau l. hefðu verið þrælal., væru þau l., sem hér um ræðir, það miklu fremur.