06.03.1946
Neðri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (4994)

53. mál, verkfræðingar, húsameistarar, iðnfræðingar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessu máli, en hv. síðasti ræðumaður gaf mér tilefni. Ég vil þá fyrst út af því frv., sem hér liggur fyrir, segja það, að ég get eftir atvikum verið því samþykkur. Þarna er um nokkra réttindaaukningu að ræða frá því, sem er, og að sumu leyti leiðréttingu.

Út af brtt. á þskj. 495, frá hv. þm. Mýr., sem fer í þá átt, að Háskóli Íslands í stað stéttarfélags verkfræðinga skuli meta það, hverjir komi til greina, þegar þessi starfsheiti eru veitt, vil ég segja það, að frá sjónarmiði almennings, þá má segja, að það séu möguleikar fyrir því, að það mat sé fullkomlega hlutlaust, þó að ég hins vegar hafi aldrei reynt annað en að mat stéttarfélags þessara manna hafi einnig verið það. Þess vegna væri ég ekkert hræddur um það, þó að þetta væri áfram í lögunum. En það var ræða hv. 10. landsk. þm., sem gaf mér tilefni til að standa hér upp og þá sérstaklega það, að það hafi verið nokkrir verkfræðingar, sem hafi haldið því fram í stéttarfélagsblaði sínu, að tekniska háskóla ætti að setja skör lægra en aðra háskóla. Þetta er fjarri öllum sanni og hefur aldrei komið fram hjá þeim. Því hefur verið haldið fram af Verkfræðingafélagi Íslands allt síðan þessi l. voru sett, að þeir menn kæmu til álita að mega kalla sig verkfræðinga, sem hefðu próf frá tekniskum háskóla, hvar sem væri, en ekki aðrir.

Hv. þm. sagði, að orðið „ingeniör“ væri þýðing eða svaraði nokkurn veginn til hins íslenzka heitis verkfræðingur. En það er ekki nema að nokkru leyti rétt. „Ingeniörar“ eru kallaðir ýmsir menn erlendis, sem ekkert háskólapróf hafa, en hafa full réttindi til þess að kalla sig þessu nafni og hafa fengið á því lagalega staðfestingu. Hinir, sem háskólamenntun hafa, hafa fengið viðbót eða skammstöfun, sem sýnir, að þeir eru frá tekniskum háskóla. Hv. þm. ruglar þessu saman, tekniskum skólum og tekniskum háskólum. Það er það, sem Verkfræðingafélag Íslands er á móti, að menn, sem ekki hafa háskólapróf í verkfræði, fái leyfi til að kalla sig þessu starfsheiti.

Annað hef ég ekki að segja um málið, samþykkt frv. og brtt. En ég vildi aðeins láta koma fram þessa aths. út af ræðu hv. 10. landsk. þm. að gefnu tilefni.