21.12.1945
Sameinað þing: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Eins og ég held, að hv. 7. þm. Reykv. sé kunnugt, var tekin sú ákvörðun að skammta þetta smjör, sem fluttist til landsins. Var byrjað að skammta nákvæmlega sama smjörmagn og tekið er inn í vísitöluna, sem talið var óhætt að segja meðalnotkun fyrir ófriðinn. Þetta smjör hefur verið selt sem næst kostnaðarverði, þó hefur ríkissjóður haft ofurlítinn tekjuafgang af því. Nú, það var nú sjálfsagt skortur um tíma, í september og október, af því að það seinkaði sendingu, sem von var á frá Bandaríkjunum, en hún kom ekki fyrr en í nóvember. Um sama leyti fékk ríkisstj. innflutningsleyfi fyrir 150 tonnum af smjöri frá Danmörku, og mun það vera komið hingað til landsins núna. Af því að það var nokkurn veginn augljóst, að það smjörmagn, sem innflutt var í haust, mundi hrökkva heldur meira en fyrir þessu skammtaða magni næstu mánuði, var sú ákvörðun tekin með tilliti til jólanna og með tilliti til þess, að notkun er yfirleitt meiri á slíkri vöru um jólaleytið en á öðrum tímum, að bæta lítils háttar við skammtinn, gefa uppbót fyrir árið, og ég held, að ég fari rétt með, að sú uppbót hafi verið ½ kg á hvern mann, og er víst, að sú uppbót var látin út á einhvern stofnauka, þó að ég muni nú ekki lengur, hvaða stofnauki það var. Mér er sagt, án þess að rannsókn liggi fyrir um það enn þá, en hún getur ekki farið fram fyrr en eftir áramótin, að talsvert sé eftir enn þá af ameríska smjörinu, sem skammtað var síðast, og verða gefnir út skömmtunarseðlar eftir áramótin fyrir a. m. k. eins miklu magni og skammtað hefur verið hingað til, og e. t. v. verður látinn eitthvað meiri skammtur með tilliti til þess, að í Ed. hefur verið samþ., að skilyrði fyrir því, að lægra verð vöru, sem seld er eftir tvenns konar verði, verði tekið inn í vísitöluna, sé það, að látið sé 25% fram yfir það magn, sem látið er inn í vísitöluna, og er því sú ákvörðun tekin að láta eitthvað ríflegri skammt, því að gera má ráð fyrir, að þetta verði samþ. í þessari hv. deild. Danska smjörið er ekki komið á markaðinn enn þá, og þótti ekki ástæða til að setja það á markaðinn meðan nóg var af amerísku smjöri, en það verður skammtað strax upp úr áramótunum. Ég get ekki skilið, að ríkisstj. geti meira í þessu gert en hún hefur þegar gert, og hún hefur, sem sagt, skammtað það magn, sem tekið er inn í vísitöluna, og þó ofurlitla viðbót. Ef farið væri að flytja inn smjör í stórum stíl, þá geri ég ráð fyrir, að hætta yrði á, að innlenda framleiðslan seldist ekki, og það mundi vitanlega skapa stórkostleg vandkvæði, sem ríkisstj. yrði að ráða fram úr á einhvern hátt. Ég held, að menn séu sammála um, að eðlilegast sé að skammta áfram þetta sama magn, og þá sé a. m. k. enn sem komið er ekki hætta á, að innlenda framleiðslan seljist ekki, og ég sé ekki neinn möguleika til þess að fara nú fyrir jólin að bæta við þennan skammt. Menn hafa þegar fengið viðbótarskammt, og þó að mér sé ljóst, að það er svo lítið magn, að fara verður varlega með það, til þess að það geti enzt, er það þó óneitanlega mikil viðbrigði frá því, sem var um áramótin síðustu, þegar menn gátu naumast fengið neitt smjör til heimila sinna.