06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (5010)

59. mál, byggingarlánasjóður

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ríkisstj. hefur haft með höndum gagngerða endurskoðun á byggingarmálunum og leitað samvinnu við ýmsa aðila, eins og stjórn verkamannabústaðanna og bæjarstjórnir víða á landinu, og fengið tillögur um þessi mál. Undanfarið hefur verið unnið úr þessum tillögum, og má heita lokið að semja lagabálk. Ég geri ráð fyrir, að lagafrv. þetta verði lagt fyrir Alþingi. Ég hygg, að þetta frv. geti verið kafli í þessu nýja frv., en það mun verða allmiklu víðtækara.

Ég er sammála hv. þm. Str. um það, að lögin um verkamannabústaði, sem í gildi hafa verið, hafa reynzt vel, og læt í ljós ánægju mína yfir áhuga þeim, sem hér kemur fram um bætur í húsnæðismálunum, og vona, að það sé ekki eingöngu vegna væntanlegra kosninga, heldur til þess að bæta úr því ástandi, sem í þessum málum ríkir. Má vera, að þetta frv. bæti nokkuð úr, en frv. það, sem fram mun koma, er allmiklu víðtækara, og kæmist það gegnum þingið, ætti allgóð lausn að fást varðandi þessi mál.

Lögin um verkamannabústaði voru upphaflega sett af Alþfl. og Framsfl., og var það góð úrbót fyrir 2 til 3 árum, en þá voru vextir ákveðnir 4%. Vegna hins sívaxandi byggingarkostnaðar er þetta nú allmikill baggi, þegar upphæðin skal borgast á einum mannsaldri. Heppilegra væri að lengja þennan lánstíma, eins og nú tíðkast út um heim, t. d. í Ameríku. Þetta ásamt aukningu sjóðsins ætti að leysa þetta vandamál á heppilegan hátt. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, en vænti, að það verði tekið nánar til athugunar, áður en Alþingi lýkur.