06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (5011)

59. mál, byggingarlánasjóður

Flm. (Hermann Jónasson):

Þessi ræða gefur mér tilefni til þess að lýsa yfir ánægju minni yfir þeim undirbúningi, sem ráðh. skýrði frá. Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um kosningar í þessu sambandi, þá hefur það komið til umr. í bæjarstjórnarbaráttunni, en mun vonandi ekki hafa nein spillandi áhrif á það hér. Flokkur sá, er ég tilheyri, hefur beitt sér fyrir l. um verkamannabústaði og samvinnufélagabústaði, og mun hann styðja þetta mál, sem verður byggt á bæði erlendri og innlendri reynslu. Ég ætla aðeins að minnast á í þessu sambandi, að við þá samvinnubústaði — 40 íbúðir —, sem nú eru í undirbúningi, kostaði teikningin 40 þús. kr.

En eftirlitið með framkvæmdum kostar 240 þús. kr., og þó er sagt, að það sé svo lágt, að maðurinn, sem tók þetta að sér fyrir þetta verð, átti eins von á því að verða kærður fyrir, hvað hann tók þetta að sér fyrir lítið. Þegar því járnateikningar eru teknar með, er þessi undirbúningskostnaður kominn upp í 300 þús. krónur. Ég minnist á þetta til þess að sýna, að frv. er knúið fram af beinni þörf. Lögin eiga að gera einstaklingum kleift að byggja og um leið að bæta úr hinu hræðilega ástandi, sem nú ríkir og hefur skapazt af húsaleigulögunum, eins og alltaf, þegar slík lög standa lengi.

Ég þakka fyrir hinar góðu undirtektir, sem frv. hefur fengið, og ég er að sjálfsögðu fús til samvinnu um þessi mál. — Ég óska svo, að málinu verði vísað til 2. umr.