19.02.1946
Efri deild: 67. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (5045)

88. mál, útsvör

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Það er nokkuð langt síðan nál. var gefið út um þetta mál, en það var samkvæmt ósk flm., að málið var ekki afgr. fyrir þingfrestun, þar sem hann vildi bíða eftir till. þeirrar nefndar, sem stjórn sambands ísl. sveitarfélaga hefur skipað til að fjalla um framkvæmd útsvarslaganna.

Eins og greinargerð frv. ber með sér, flutti þm. Barð. frv. svipaðs efnis á síðasta Alþingi, og var því vísað frá með rökst. dagskrá og falið ríkisstj. til athugunar. Allshn. leit svo á þá, að æskilegt væri, að heildarendurskoðun viðkomandi laga færi fram, en þetta eina atriði yrði ekki tekið út úr. Nú hefur n. tekið sömu afstöðu. Hún aflaði sér upplýsinga um það hjá félmrh., hvenær endurskoðun þessara laga yrði látin fara fram, og í bréfi frá hæstv. ráðh. er tilkynnt, að samband ísl. sveitarfélaga hafi þetta í undirbúningi. Að fengnum þessum upplýsingum áleit n., að ekki yrði svo langt að bíða allsherjar endurskoðunar, að rétt væri að láta þetta atriði bíða þangað til, og hneigðist að því að afgreiða málið með svohljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta: [sjá þskj. 284.]

Nú hefur sú breyting á orðið síðan nál. var gefið út, að samkomudegi Alþingis hefur verið frestað frá 15. febr. til hausts. Mér er ekki kunnugt um, hvaða áhrif þetta kann að hafa, en ef til vill orsakar það, að málið nær ekki afgreiðslu á þessum vetri. En þar sem hæstv. félmrh. er nú staddur hér í deildinni, má vera, að hann geti gefið upplýsingar um, hvað líður um tillögur frá áðurumgetinni nefnd. Ég vænti, að hv. flm. geti sætt sig við þessa afgreiðslu málsins, jafnvel þótt það drægist til hausts, að fullnaðarafgreiðsla fengist.