19.02.1946
Efri deild: 67. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (5047)

88. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Ég verð að segja það, að mér þykir alleinkennileg meðferð allshn. á þessu máli. Hún virðist ekki gera sér ljóst, hverja erfiðleika þetta skapar eins og það er nú, og vildi ég mælast til, að hv. n. athugaði þetta mál nánar, einkum eftir að fengnar eru þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan. Málið þolir engan veginn þá bið, sem hæstv. ráðh. gat um. Ég vil upplýsa, að nýlega hefur fallið dómur yfirskattanefndar um eitt mál svipað því, sem um ræðir í grg. þessa frv. Í því tilfelli hefur Reykjavíkurbær lagt fullt útsvar á rekstur togara, sem hefur komið þar við í annarri hverri ferð í ýmsum erindum, en einnig hefur verið lagt fullt útsvar á rekstur þessa togara í þeirri sveit, sem togarinn á heima í. Úrskurður yfirskattanefndar féll þannig, að samkvæmt eldri dómi hæstaréttar beri að greiða fullt útsvar af rekstri togarans til Reykjavíkurbæjar, þar sem stjórn fyrirtækisins eigi þar aðsetur. Í sveit þeirri, er togarinn á heima í, er einungis heimilt að leggja á eignir félagsins og varasjóði. Í þessum dómi er skýlaust tekið fram, að ekki er heimilt að taka frá afskriftir, sem heimilt er við eignaútsvar. Undir slíkum fyrirmælum geta þegnar þjóðfélagsins ekki búið, og Alþingi ber skylda til að greiða úr þeim.

Ég krefst ekki af allshn., að hún haldi í einu og öllu á hagsmuni eins eða annars sveitarfélags, en hins verð ég að krefjast, að hún segi álit sitt um frv. og mæli með því, að lagaákvæði séu gerð svo skýr, að sveitarfélögin þurfi ekki að fara í mál út af þessu atriði. Ég get fullvissað hv. d. um það, að ef þetta ástand ríkir lengur, þá er gengið freklega á rétt sveitarfélaga, ekkert frekar á rétt Suðurfjarðahrepps en Reykjavíkur. Það er sjálfsagt, að ef félag á að greiða útsvar þar, sem það á heima, þá á að greiða þar allt útsvarið, nema það, sem beinist að rekstrinum, sem það hefur á hverjum stað. Nú er það viðurkennt, að ekki má leggja á togara, sem flýtur á hafinu, þótt hann komi á ákveðna höfn. Ég leyfi mér því að óska þess, að hv. n. taki þetta mál á ný til athugunar, hún m. a. ræði málið við stjórnir sveitarfélaga til þess að fá hjá þeim upplýsingar um, hvernig þær líta á málið í einstökum atriðum. Og mælist ég til, að hv. n. leggi til, að fengnum þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, annaðhvort að breyting verði látin fara fram eða frv. fellt. En ég mótmæli því, að frv. verði afgr. eins og nú er lagt til, með rökst. dagskrá. Þess er ekki að vænta, að viðkomandi aðilar þoli slíka meðferð af Alþ. ár eftir ár. Hér var síðast lofað, að mál þessi skyldu athuguð. En ríkisstj. hefur ekkert gert, þótt ætlazt væri til, að þetta yrði gert fyrir 15. febr. Nú upplýsir hæstv. ráðh., að þetta verði ekki gert, nema málið yrði sett í mþn. En niðurstöðu frá henni um málið er varla að vænta fyrr en eftir 1–2 ár. En slíkt er ógerleg bið.

Ég vænti, að hv. n. taki málið út af dagskrá og athugi það frekar og mæli með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.