21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (5059)

89. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um, hvort hv. flm. hafa gert sér grein fyrir því annars vegar, hvort þessi breyt., ef að l. verður, muni ná þeim tilgangi, sem þeir ætlast til yfirleitt, m. a. vegna þess, að ef b-liðurinn er numinn burt úr l., þá sé mjög mikill efi á um rétt þessara manna til orlofsfjár, nema eitthvað annað komi í staðinn. L. eru yfirleitt byggð upp á því frá fyrstu, að aðeins skuli veita orlof til handa þeim mönnum, sem eru í þjónustu annarra manna, en það hefur verið litið svo á, að maður, sem tekur hlut, sé ekki í þjónustu annars manns, heldur sé hann sjálfur framleiðandi. Fyrir það hefur þessi gr. verið sett inn í l. á sínum tíma, að hann skyldi ekki eiga rétt á orlofi, vegna þess að hann er skoðaður hér sem framleiðandi, og ef sá skilningur verður hér áfram óbreyttur, að slíkir menn séu framleiðendur og ekki í þjónustu útgerðarinnar í raun og veru, af því að þeir taka sín laun í hlut af afla, þá hygg ég, að þetta frv. nái ekki þeim tilgangi sínum að tryggja þessum mönnum orlofsfé, og um það atriði út af fyrir sig muni ganga dómur. Ég leyfi mér aðeins að benda á þetta á þessu stigi málsins. Sé hins vegar sett inn í l., þegar þessi gr. er tekin burt, að rétt til orlofs skuli einnig þeir eiga, sem fá hlut, þá verður ekki um deilt. Hitt er svo annað mál, að ef það verður sett skýlaust inn í l., að hver maður hafi rétt til orlofs, sem tekur hlut af eigin framleiðslu, þá verða þau að ná yfir miklu fleira en þau ná í dag. Kemur það þá upp, sem rætt var, þegar l. voru sett, hvort bændur ættu ekki einnig að fá í einhverri mynd orlofsgreiðslu eins og rætt var mjög mikið um á sínum tíma, því að ef á að stíga það spor að greiða mönnum orlofsfé, sem eru framleiðendur til sjávar, þá verður erfitt að standa á móti því að greiða einnig þeim mönnum orlofsfé, sem eru framleiðendur til lands. Væri þá rétt fyrir n. að athuga um leið, hvort ekki væri hægt að láta þetta ganga yfir allar stéttir þjóðfélagsins. Ég vil ekki með þessum orðum neitt undirstrika það, að þeir, sem taka afla í hlut, fái ekki orlofsfé. En það er ekki hægt að byggja l. á því, að þeir hafi einhvern tíma haft minna í hlut en þeir, sem eru í landi, heldur verður að byggja á eðli málsins, hvort þeir skuli hafa rétt til orlofs, sem eru framleiðendur til lands eða sjávar, og þá kæmu þar aðrir til greina, sem einnig ættu þá kröfurétt til orlofsfjár.

Viðvíkjandi 2. gr. þá skilst mér, að sú breyt. sé einnig byggð á miklum misskilningi. Í upphafi voru l. hugsuð þannig, og ég hygg, að þannig sé enn, að sá einn skyldi fá orlofsfé, sem tæki orlof, og hann mátti ekki láta það bíða lengur en eitt ár nema fyrir alveg sérstakar ástæður, t. d. veikindi, og í l. eru sérstök ákvæði um, hvernig skuli fara með slíkan frest, svo að réttur glatist ekki. En eftir því sem kom fram í ræðu hv. 4. landsk., þá er hann kominn inn á þá skoðun, að þetta séu laun, sem eigi að hafa sama fyrningarrétt og önnur laun, og þá erum við komnir inn á allt annað en um var rætt í upphafi, því að l. voru í upphafi byggð á því, að menn ættu að fá réttmæta hvíld frá sínum störfum, og þeim er bannað að starfa í líkri starfsgrein á orlofstímanum. Með þeirri gr. er undirstrikað, að þetta séu ekki launatekjur, heldur sé um hvíld að ræða, sem komi eins til góðs vinnuveitandanum og starfsmanninum, að atvinnuveitandinn fái betri og meiri afköst, þegar verkamaðurinn hefur fengið tækifæri til að njóta hvíldar. Þessu tvennu má ekki blanda saman. Ég hygg því, að það sé alveg rangt að fara að umorða 15. gr. eins og hér er gert ráð fyrir, vegna þess að l. eiga einmitt að tryggja, að menn fái hvíld innan þessara takmarka.

Mér hefur þótt rétt að láta þetta koma fram við þessar umr., til þess að n. geti athugað þessi tvö atriði, áður en hún gerir till. sínar um málið.