07.03.1946
Efri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Haraldur Guðmundsson:

Ég ásamt meirihlutamönnum í landbn. legg til, að frv. verði samþ. með brtt. á þskj. 511. Ég álít, að ekki beri mikið á milli meiri hl. og minni hl. á þskj. 520. Það vakir í rauninni það sama fyrir báðum aðilum. Ég hygg, að það orki ekki tvímælis, að betur fari að samþ. brtt. á þskj. 511. Þar sem tekið er fram, að lögin skuli endurskoðuð fyrir árslok 1946, þá er meint, að strax og næsta Alþingi kemur saman, taki það lögin til yfirvegunar. Hæstv. landbrh. benti á, ef brtt. hv. þm. Dal. næði samþykki, þá væri tvennt til — annað, að ríkisstjórn sú, er nú situr, færi áfram með völd, og því líklegt, að mál þessi hlytu sömu meðferð, og yrðu þá lögin framlengd, — og hitt, að stjórnmálaviðhorfið breyttist svo, að ný stjórn tæki við, og þá mundi þing koma saman fyrir 1. sept., og tæki það málið til meðferðar. Raunverulega bar ekki mikið efnislega á milli. Það er augljóst, að lagasetningu þessa verður að endurskoða, þar sem hún er miðuð við það, að ríkissjóður verji svo og svo miklu til niðurgreiðslu landbúnaðarvara, — og sjá því allir, að það er engin framtíðarlausn á málum þessum.

Í raun og veru gæti ég látið þetta nægja, en þó þykir mér hlýða að drepa á það helzta og gera grein fyrir afstöðu minni. — Því hefur verið haldið fram af andstæðingum þessa máls, að höfuðgallinn sé sá, að nú sé valdið tekið af bændum og fengið ráðh. í hendur. Ég skal játa, að samkv. lögunum er valdið raunverulega í höndum ráðh., og ég tel það kost, að þetta er berlega viðurkennt í frv. Á meðan 1/3 kjötverðsins er greiddur úr ríkissjóði, væri fjarri öllu lagi, að ráðh. hefði enga íhlutun um það. Um leið og ríkissjóður tekur að sér að greiða niður verðlagið, er það orðið pólitískt mál. Þetta liggur í augum uppi. — Hv. 1. þm. N.-M. taldi, að með þessu væri bændum settir forráðamenn. Það má vel orða það þannig, en sé svo, þá hafa bændum ekki síður verið settir forráðamenn áður fyrr. Það var svo, að formaður kjötverðlagsnefndar, réð jafnan úrslitum. Það var reynt að fela það, að formaðurinn var skipaður af ráðh. Það var reynt að dulbúa lögin. Nú er þetta þannig, að lögin sýna glögglega vald ráðh. Ég tel þetta kost, en ekki löst.

Hvað segja þessir menn um húsaleigulögin, sem Reykvíkingar verða að búa við? Þau erti svo ferleg, að tæplega er hægt að taka þau til samanburðar. Sannleikurinn er sá, að allar stéttir þjóðfélagsins verða meira og minna að búa við ströng ákvæði í þessum efnum.

Ég vildi spyrja hv. 1. þm. N.-M.: Heldur hann, að ef verðið héldist svipað og nú og engar endurgreiðslur væru úr ríkissjóði, að bændur gætu selt allt kjötið fyrir 11 krónur? Það er fráleitt að láta sér detta það í hug, þegar meir en 1/3 af verðinu er greitt úr ríkissjóði. Það verður að taka tillit til annarra íbúa þessa lands og sigla bil beggja.

Ég tel, að hvað sem annars má segja um þetta frv., sem ég skoða sem bráðabirgðalagaákvæði, þá er það samt nær sanni en það ákvæði, sem áður gilti. Það gæti í þessu sambandi verið ástæða til að ræða um lög um sölu á kjöti, því að mér hefur virzt, að vafasamt sé, hvort ekki væri ástæða til að breyta þeim lögum eða fella þau alveg niður. Ég minnist þess, að sýnt hefur verið með tölum, að fast að helmingi af vísitöluverði kjöts hefur farið í ýmsan kostnað, svo að bændur munu ekki fá nema rúml. helming af söluverðinu. — Það er víst, að ef útsöluverð kjöts væri sama og nú, þá hefði 1.50 kr. verðjöfnuður hrokkið skammt. Ef málin eru komin svo, þá er vissulega kominn tími til að fella þessi lög niður. — Ég skal svo láta þetta nægja og vil, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.