21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (5061)

89. mál, orlof

Gísli Jónsson:

Ég skal aðeins benda hv. 4. landsk. á, að b-liður 1. gr. er ekki kominn inn fyrir það, sem hann gat um, heldur auðsjáanlega fyrir það, að verið er að tryggja þessum mönnum möguleika til að geta fengið að hálfu leyti orlofsfé frá útgerðarmanni, því að ef ekkert væri um þetta sagt, þá mundu þeir, ekkert orlofsfé fá. B-liðurinn er því beinlínis til að tryggja hlutarsjómönnum, að ef þeir óska, megi taka orlofsfé að hálfu leyti af kaupi þeirra, og þá sé útgerðarmanni skylt að greiða hitt.

Hvað við kemur hinu atriðinu, þá vil ég benda honum á, að það er miklu nær að tryggja það, sem hann vill þar ná, með allt öðru móti en hann leggur til, þ. e. með því einfalda ákvæði, að ef um ágreining er að ræða og viðkomandi hefur sett inn mótmælabréf, þá glatist rétturinn ekki. Þá þarf ekki að höfða mál, og þá er haldið grundvallarreglunni, að maðurinn fái þetta fé ekki sem laun, heldur til að fá hvíldartíma eftir að hafa innt af hendi ákveðið starf. Þá getur hann haldið sínum fulla rétti, þar til úrskurður er fallinn, hvernig sem hann fer, en það er engin ástæða til að fara undir sama fyrningarrétt og laun. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á þetta.