27.11.1945
Efri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (5072)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég get verið mjög stuttorður um þetta mál, þó að það sé mjög yfirgripsmikið, vegna þess að það fylgir því mjög ýtarleg grg., og þess vegna yrði sú ræða, sem ég flytti um þetta mál, að allmiklu leyti endurtekning á því, sem fram er tekið í grg., og það tel ég aðeins að eyða tíma að óþörfu. Ég hygg, að þetta mál, sem hér er flutt, sé eitt af mestu nauðsynjamálum, sem flutt hafa verið á þessu þingi a. m. k. Það er vitað mál, og hefur komið greinilega fram hér í umr., að mjög skortir á húsbyggingar í sveitum og kauptúnum ekki síður en í kaupstöðum. Hitt er jafnkunnugt, að þeir menn, sem eru sérfróðir í byggingum, eru á þessum svæðum sárafáir. Það hefur atvikazt þannig nú í styrjöldinni, að þeir, sem kunnað hafa til húsagerðar og smíða, hafa flutzt til kaupstaðanna. Mikill hluti af þessum mönnum hafa gerzt gervismiðir hjá setuliðinu og dregizt að kaupstöðum og kauptúnum, kaupstöðum sérstaklega, þar sem atvinna og eftirspurn hefur verið mikil eftir mönnum í alls konar vinnu, ekki sízt við húsbyggingar bæði fyrir herinn og Íslendinga. Þetta, ef á að byggja upp í sveitunum og ráða bót á því vandræðaástandi, sem nú er víða í sveitum og kauptúnum, þá verður það undir engum kringumstæðum gert með þeim fagmönnum, sem þessi svæði á landinu a. m. k. hafa yfir að ráða, og það er vitað, að kaupstaðirnir eru alls ekki aflögufærir og þess vegna ekki hægt að fá þetta vinnuafl, sérfróða menn til húsbygginga, þaðan. Það má jafnframt geta þess í því sambandi, að þó að jafnvel húsasmiðir fáist til þess að taka að sér byggingar utan kaupstaðanna, hvort sem er í sveit eða kauptúnum, er það orðin almenn venja, að þeir taka ekki aðeins það kaup, sem er hið venjulega taxtakaup eða þar yfir, heldur jafnframt ferðakostnað til þess staðar, þar sem þeir eiga að vinna, og frá þeim stað aftur heim til sín, enn fremur fæði og húsnæði í ofanálag á venjulegan vinnutaxta. Með svo dýru vinnuafli er ekki hægt að byggja upp í sveitum landsins eða kauptúnum, enda veigra menn sér við því að kaupa slíkt vinnuafl, þó að það væri fáanlegt. Það, sem ætlazt er til, að verði náð með því frv., sem hér liggur fyrir, ef að l. verður, er að ala upp í þessum skólum, sem ég fullyrði, að eru eins nauðsynlegir og nokkrir aðrir skólar í landinu, — með tveggja ára námi, faglærða menn, sem hafa rétt til þess að annast húsbyggingar í sveitum og kauptúnum, sem hafa allt að 300 íbúa. En hins vegar er við það miðað, að iðnaðarmenn, sem við húsbyggingar fást, hafi réttindi til að stunda húsbyggingar í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa fleiri en 300 íbúa. Þess vegna er ekki með þessu frv. gengið inn á réttarsvið þeirra fagmanna, sem fyrir eru í húsagerð. Það er eðlilegt að haga þessu ákvæði þannig af ýmsum ástæðum, og skal ég ekki rekja það hér í þessari frumræðu minni, þar sem ég býst við, að hv. þd. geri sér ljóst, af hvaða ástæðum það er. Þetta nám á að vera tveggja ára nám, eins og ég sagði áðan. Það er ætlazt til þess, að yfir veturinn sé unnið á verkstæðum undir tilsögn góðra smiða og nemendum sé kennt þar að fara með allra nauðsynlegustu vélar, sem nú eru notaðar við smíðar. En á sumrin er ætlazt til, að nemendur vinni við húsbyggingar, undir leiðsögn sérfróðra manna, og eiga þess vegna þessi 2 ár að fá hvort tveggja, kennslu í verkstæðisvinnu, þar sem unnið er með vélum, og að sumrinu kennslu við byggingar, eins og að þeim er unnið.

Jafnframt er ætlazt til þess, að nemendum sé kennt bóklegt nám, einkum það, sem snertir þessa fagmennsku.

Það er nokkuð takmarkaður réttur þessara manna til húsbygginga, framyfir það, sem tiltekið er um þessi svæði, þar sem þeir mega vinna. Í sveitum og kaupstöðum, þar sem íbúarnir eru 300 eða fleiri, mega þeir ekki reisa hús yfir vissa stærð. Það er ekki neinn vafi um það, að þessir menn mundu fá ágæta tilsögn og yrðu góðir fagmenn eftir 2 ár. Að vísu er það svo, að iðnaðarnáminu er þannig hagað nú, að nemendur vinna í 4 ár við iðnaðarnám, þeir, sem ætla að fá réttindi sem sveinar við húsagerð, hvort sem það er við steinsmíði eða trésmíði eða einhverja aðra iðngrein. En ég fullyrði það, án þess að ræða það nánar, að því námi er þannig háttað, að miklar líkur eru til þess, að á tveim árum megi nemendum í þessum skólum takast af afla sér svipaðrar menntunar og aflað er á 4 árum við venjulegt nám, svo sem því er háttað.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um frv., en legg mesta áherzlu á, að því verði vísað til menntmn. og fái þar sem skjótasta afgreiðslu. Málið er vel undirbúið, og þó að einstök atriði geti e. t. v. orkað tvímælis, þá ætti það að geta gengið fljótt. — Ég vildi að lokum taka það fram, að málið var fyrir 2 árum síðan rætt við mig af dr. Leifi Ásgeirssyni, sem þá var að láta af skólastjórastörfum á Laugum, og taldi hann, að svona skóli væri mjög aðkallandi mál, og færði rök fyrir því og sýndi fram á, hvernig smíðanámið á Laugum hefði haft mjög mikla þýðingu fyrir húsabyggingar og mublusmíði í Þingeyjarsýslum, og var það nám þó hverfandi lítið. Það varð svo úr, að ég tók að mér forgöngu þessa máls, ásamt dr. Leifi og Arnóri Sigurjónssyni, fyrrv. skólastjóra á Laugum. Mér þykir rétt að taka þetta fram, um leið og frv. kemur fram, vegna þess að á Laugum er fengin nokkur reynsla, en aðeins í miklu smærri stíl. Ég geri ráð fyrir, að svona skóli, sem tæki 50 nemendur á ári, muni ekki hrökkva langt, og innan skamms muni svona skólar koma víðar.

Þegar garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi var stofnaður, álitu margir, að fljótlega mundu verða allt of margir garðyrkjumenn, sem kæmu útskrifaðir á ári hverju, en reynslan hefur nú leitt annað í ljós, svo að nú er svo komið, að skólinn er orðinn of lítill og skortur á garðyrkjumönnum mikill. Sama mun verða reyndin með iðnnema, og er skólinn hefur starfað í nokkur ár, mun verða þörf fyrir annan slíkan annars staðar.