27.11.1945
Efri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (5078)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka aftur til máls. En af því að hv. þm. Str. spurði, hvernig bóndi í Vatnsdal ætti að byggja, ef hann ætti að sækja til þess sex fagmenn, þá getur það vel verið, að það standi illa á fyrir bóndanum í Vatnsdalnum. En hvort sem er þar eða í annarri sveit á landinu, þá er allt annað að sækja fagmenn til þess að vinna í sveit í tvo daga eða hins vegar til að byggja heil hús. Þetta tvennt er ósambærilegt, sem hv. flm. má ekki rugla saman, að byggja stór hús og sækja fagmenn til þess eða sækja fagmenn til smáviðgerða. Þegar byggt er heilt hús, þá tekur það svo langan tíma, að hver bóndi, sem á annað borð ætlar að byggja, á að standa sig vel við það. Í Vatnsdalnum getur bóndinn t. d. sótt fagmenn til Blönduóss eða Hvammstanga, og það er í flestum stöðum hægt að fá fullgilda fagmenn, ef menn vilja nota þá. En það hefur verið bæði í þessum málum og öðrum hjá þessum hv. þm. og hans flokki svo megn fyrirlitning á fagmennsku, að brjóstvitið hefur átt að koma í staðinn, hér eins og annars staðar (HermJ: Það hefur enginn ráðh. stutt meira að sérnámi en ég). Eina leiðin til þess, að byggt verði í sveit, segir hv. þm. Str., er að koma upp skóla í því augnamiði. En ég segi: Eina leiðin til þess er að fjölga faglærðum iðnaðarmönnum til þess að koma upp byggingum í sveitum og kauptúnum, svo að þeir séu til, ef menn vilja nota þá, en það á ekki að þröngva mönnum á þessum stöðum til að nota þá. Ég held, að mönnum lærist það fyrr eða síðar, að það borgar sig bezt að fá fullkomna fagmenn til þess að vinna að byggingum. Og ef hér, með stofnun þessa skóla eftir frv., ætti að vera um allsherjar úrræði að ræða, þá er sýnilegt, að þó að sá skóli útskrifaði 36 menn annað hvert ár, 18 menn á ári, eins og gert er ráð fyrir í frv., þá mundi það segja lítið til úrbóta í þessu efni, þar sem nú eru við iðnnám á annað þús. manns í landinu. Og ég álít miklu auðveldara og aðgengilega á allan hátt að fá þá tölu eitthvað hækkaða á þeim stöðum, þar sem nú þegar er kennt, sem ég álít vel hægt, ef þörf er á því, heldur en að stofna þennan skóla. Og sérstaklega held ég þessu fram vegna þess, að þessi skóli, sem gert er ráð fyrir í frv., getur aldrei — það fullyrði ég — veitt neitt nálægt því fullkomna kennslu í sex iðngreinum á 1–1½ ári.