25.03.1946
Efri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (5083)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Ég heyri, að hv. þm. Str. ef að fara, en hv. þm. N.-M. mun flytja honum það, sem ég segi.

Hv. 1. þm. N.-M. sagðist ekki vita, hvernig till. mín mætti takast, þótt margt gott mætti um hana segja. Ég held nú, að það sé ekki svo margt, sem ber á milli mín og minni hl. n., að því fráskildu, að hv. minni hl. vill setja á stofn skóla, meiri hl. vill gera tilraun með þá skóla, sem þegar eru til. Ég er sammála minni hl. í því, að af þessu megi rísa margt gott. En ég vil reyna að ná þessum árangri í þeim skólum, sem fyrir eru, og mér er það ljóst, að ef hægt er að leysa vandræðin með iðnaðarmenn og húsakost í sveitum, þá lagast mikið. Hann minntist á, að það væri tvískinnungur í þessu hjá meiri hl. n., en svo er ekki. Meiri hl. lítur svo á, að það eigi ekki að skaffa sveitunum lakari iðnaðarmenn en kaupstöðunum, en á meðan annað er ekki hægt, þá vill hann veita eins konar fræðslu í þessum greinum, eins og ég hef tekið fram. Meiri hl. viðurkennir ekki, að það eigi að skipta landinu í flokka, með fulllærðum og hálflærðum iðnaðarmönnum, en miða að því að hafa alls staðar fullmenntaða menn. — En hv. þm. er sammála mér um það, að breyta þurfi 7. gr. frv., eins og hann réttilega benti á. Hann hélt því fram, að þessir menn yrðu meira en hálflærðir, en þar er ég honum ekki sammála.

Þá spurði hv. 1. þm. N: M., hvernig ætti að bæta úr þessari þörf í sveitunum, ef dagskráin yrði samþ. Ég álít, að stefna beri að því með húsagerðarsamþykktum í sveitum. Ef búnaðarfélögin réðu til sín 2 faglærða menn og létu skipuleggja byggingar, þá mætti fá ódýrari og betri hús en nú eru. Og þó að sú leið, sem um getur í frv., væri farin, þá erum við sammála um, að þetta getur ekki komizt í framkvæmd fyrr en eftir nokkur ár. Og ef hv. þm. er sammála um, að til mála komi að minnka þennan skóla, því getur hann þá ekki verið því samþykkur að auka deild við landbúnaðarskólana, og kæmi þá fyrr að árangri af þeim kröftum, sem hv. þm. Str. sagði, að væru grafnir.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. sagði, þá vil ég geta þess, að það er ekki rétt, að þetta mál hafi komizt í gegnum þá eldraun, sem hann sagði, því að svo er að sjá sem Þórir Baldvinsson hafi ekkert athugað þetta mál, honum finnst bara sjálfsagt að gleypa þetta eins og nýjan smokk, og liggur á bak við þetta furðulegt samvizkuleysi og hirðuleysi, eða þá að hann ber ekkert skyn á þetta, og finnst mér ekki hægt að taka slíkt alvarlega. Í umsögn Landssambands iðnaðarmanna, fskj. II, með nál. meiri hl., segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Hvað sem því líður, þá vildum vér benda á, að rafmagnslagnir eru svo veigamiklar og varasamar lagnir, að hæpið sé fyrir ríkisvaldið að kenna „fúsk“ í því, jafnvel þótt á sveitabýlum sé.“ Þessi stofnun, Landssamband iðnaðarmanna, slær því þá hér föstu, að í þessum skóla mundi verða kennt aðeins „fúsk“. Þetta eru meðmælin, sem þessir menn hafa gefið (!) Þeir vara við því, að ríkisstjórnin stuðli að því að kenna sveitamönnum „fúsk“ í rafmagnsfræði, m. a. vegna þess, að það gæti kostað það, að einn morguninn væri kannske eitthvert hús í sveit brunnið ofan af fólkinu, af því að þannig hefði verið gengið frá raflögnum í því, að kviknað hefði út frá þeim. — Ég held, að þegar þetta skjal er allt lesið, sem ég las nú upp úr nokkur orð, þá fáist ekki út úr því annað en takmarkalaust háð til þeirra manna, sem hafa sett fram frv. eins og það er. Enda stríðir umsögn þessarar stofnunar algerlega á móti öllu því, sem þeir hafa annars sent til þingsins og nú liggur fyrir þinginu, sem er frv. að iðnfræðslulöggjöf, þar sem farið er inn á allt aðrar leiðir.

Hv. þm. Str. sagði, að ég hefði haft það sem eina mótbáru gegn því, að frv. væri samþ., að ekki væri nægilegt að kenna í tvö ár á þennan hátt. Hann tók rangt eftir þar. Ég sagði, að engin rannsókn hefði legið frammi um það, hvort tvö ár væri réttur tími í þessu sambandi eða hæfilegur, hann gæti t. d. verið miklu minni. Það gæti þurft miklu skemmri tíma heldur en tvö ár til þess að kenna iðnfræðslu á þennan hátt sem hér er ætlazt til. Ég skal ekkert um það segja. En ég benti á, að ekki þarf nema sex mánuði í Englandi til þess að kenna eina iðngrein. En hér er ætlazt til, að kenndar verði margar iðngreinar. Það getur verið, að tvö ár séu of mikill tími eða of lítill, allt eftir því, hve margar iðngreinar kenndar eru. En um þessa hluti hefur, sem sagt, engin rannsókn farið fram.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. var að tala um, hvort ég vildi ekki, að dagskrártill. væri dregin til baka til 3. umr., vil ég svara því, að ég sé ekki ástæðu til þess. Ég vil hins vegar lýsa yfir við hæstv. forseta, að ég er sammála því, að umr. verði frestað nú um málið og það tekið af dagskrá. Ef svo verður gert, skal ég gera ýtarlegar tilraunir til þess sem form. n. að fá n. saman á fund, áður en þessari umr. er slitið og svo fljótt sem verða má, og svo að reyna að fá á fundinn þá menn, sem gefið hafa umsögn um þetta mál, og þar að auki þá menn, sem mestu ráða um búnaðarskólana í landinu, ef hægt er að ná þeim einnig á fundinn, til þess að sjá, hvort ekki er hægt að finna þá leið út úr þessu máli, sem allir aðilar geti sætt sig við. Mér finnst það vera langeðlilegast. — Frá minni hálfu eða meiri hl. n. hefur ekki verið blandað neinni pólitík inn í þetta mál á nokkurn hátt. — Hygg ég, að það mundu vera bezt vinnubrögð að fara að um afgr. málsins eins og ég hef nú lagt til.