30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (5093)

114. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Á Alþ. 1943 voru gerðar stórkostlegar breyt. á l. um stríðsslysatryggingar íslenzkra skipshafna. Þáverandi ríkisstj. lagði fram till. um að tryggja aðilum hinn mikla ágóða, sem orðið hafði af tryggingunum síðan stríðið hófst. Ef frv. hefði verið samþ., hefði þessir aðilar fengið um 6 millj. kr. í hreinan ágóða. Flestir þessara aðila, eða um 90%, voru aðeins ábyrgir, en höfðu ekki lagt neitt fram. Okkur ofbauð að sjá þessar aðfarir með miklar fjárhæðir og gerðum ítrekaða tilraunir til þess að breyta l. í annað horf, og var það gert og var síðan að samkomulagi, að félagið tæki annað verkefni að stríðinu loknu. Breyt. frá 1943 miðaði að því að ákveða, hvernig skyldi haga þessu, þegar ekki væri lengur þörf fyrir tryggingarnar. Og nú hefur þessu verið breytt þannig, að þetta fé hefur verið greitt út í bréfum og er stofninn 6 millj. kr.

Þessi félagsskapur hefur haft mikil áhrif á vátryggingagjöld, sem greidd hafa verið til erlendra aðila, vegna þess að þessi félög hafa getað boðið á móti. Enn fremur hafa þau fengið aðstöðu til að bjóða í erlenda endurtryggingu, án verulegrar áhættu. Nú er svo komið, að nauðsynlegt hefur orðið að breyta l., eins og hér er farið fram á.

Sjútvn. hefur tekið frv. til athugunar og bar fram sem sérstök l., en aðeins kaflann um endurtryggingu. — Í þessu frv. eru 3. og 4. kafli óbreyttir frá því sem var, og 2. kafli, nema síðasta gr., sem er eingöngu um nafnabreyt. Þótti sjálfsagt að breyta um nafn, þar eð verksviðið er breytt. — 2. gr. er 2, og 3. gr. l. frá 1943, til þess að samrýma framtíðarhlutverk félagsins. — 3. gr. er um það, hvernig skuli ganga frá inneignum, sem fyrir eru. Þessi skilyrði hafa nú verið uppfyllt. — Um 4. gr. er það að segja, að hún samsvarar I., II., og IV. lið 4. gr. l. frá 1943. Það þótti eðlilegt, að stofnaður yrði sérstakur arðgreiðslusjóður, þannig að hægt væri að greiða 6% í arð á ári, en það er vitaskuld aðeins fyrirkomulagsatriði. — 5. gr. var bráðabirgðaákvæði frá 1943. Hún er þýðingarlaus nú, og féll því niður. Það sama gildir um 6. gr. frá 1943, en í stað hennar kemur niðurlag 4. gr. — Um 7. gr. er það að segja, að hún hefur nú verið orðuð um til samræmis við núverandi ástand. — Úr 8. gr. var fellt niður það, sem nú var orðið þýðingarlaust. — 9. gr. hefur verið breytt til samræmis við nauðsyn, sem leiddi af breyttum starfsháttum félagsins. Aðalbreyt. er stofnun sérstaks arðjöfnunarsjóðs, en bónussjóður hverfi. Meðan félagið hafði mikla áhættu vegna stríðsslysatrygginga, varð að hafa iðgjöldin svo há, að þau gætu nokkurn veginn tryggt félagið fyrir tjóni, sem að höndum gæti borið, þess vegna er eðlilegt, að þeir, sem greiddu hin háu iðgjöld, fengju bónus, því að þetta var álitleg fúlga árlega. En nú, þegar hættan er horfin og iðgjöld lækka þar af leiðandi niður í svo mikið sem fært þykir, er ekki ástæða til þess að hafa bónus lengur og því ráðgert, að bónussjóður verði látinn hverfa og fé það, sem í honum er, verði greitt til þeirra aðila, sem hann eiga. — 10. gr. er eins og 10. gr. frá 1943. Í 11. gr. er rýmkuð heimild félagsstjórnar til ávöxtunar á fé, sem er umfram áhættuféð. Reglurnar, sem settar eru í þessari gr., eru í samræmi við það, sem er hjá tryggingafélögum á Norðurlöndum.

Ég get upplýst hér, að sjútvn. hefur lítið farið út í kaflann um stríðstryggingar og stríðsslysabætur og ekki athugað, hvort gera þyrfti á honum breyt., og er hann því shlj. og í núgildandi l. En við yfirlestur í dag og umsögn hæstv. ráðh. sést, að breyta þarf 20. gr. og lækka gjöldin, sérstaklega ef bónussjóður verður afnuminn. Mun sjútvn. taka þetta til athugunar milli umr. Ég vil ekki, að greiðsla til þessara bóta falli niður meðan áhættuþóknun er greidd. L. ákveða, að ef að höndum ber slys, sem enginn veit, hvernig er, þá greiðist fyrir það úr þessum sjóði. — Í II. í 22. gr. er talað um lífeyriskaup. Ákveðið er, að aðeins helmingur sé greiddur út strax. Framkvæmd á þessu er mjög athyglisverð. Rætt var 1943 við stjórn félaganna og við félmrh. um, að ríkissjóður tæki undir sig þessi viðskipti. En hér verður að hafa annan hátt á, vegna þess að nú er von um, að slys verði fá í framtíðinni, því að samfara því, að þessum störfum lýkur, mun verða minni nauðsyn að breyta þessu ákvæði. 1943 fengum við því um þokað, að ekki var einungis boðið út hér á landi, heldur einnig erlendis. Þetta bar þann árangur, að hvergi eru betri lífeyriskaup en hjá þessu félagi, sem greiðir 4% af stofni.

Það er mjög æskilegt, að frv. fái skjóta afgreiðslu á þessu Alþ., og óska ég, að því verði vísað til 2. umr.