25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (5095)

114. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eins og getið er um í grg., snerta breyt. þær, sem sjútvn. gerði á frv. þessu eins og það kom frá stjórn Stríðstryggingarfélags ísl. skipshafna, aðallega I. kafla l. En við 1. umr. málsins komu fram ábendingar um það, að æskilegt væri, að gerðar yrðu jafnframt nokkrar breyt. á II. og III. kafla l., bæði að því er snerti tímatakmark stríðslysatryggingarinnar o. fl. Sjútvn. athugaði þetta í samráði við dómsmrh. og varð sammála um að leggja til, að gerðar yrðu víðtækari breyt. á frv. og þá einkum á II. kafla.

Í 14. gr. frv. er ákvæði um, að tryggja beri skipshafnir fyrir stríðsslysum. Nú er það vitanlegt, að þótt styrjöldinni sé lokið, er ennþá hætta af tundurduflum. Þess vegna er ekki rétt að fella þetta ákvæði niður, en hæfilegt þótti að ákveða tímann, sem þetta gildir, svo sem gert er í brtt. n. Ef kringumstæður breytast, má lengja eða stytta þennan tíma.

Þá ræddi n. mikið um 2. málsgr. 15. gr., um skipshafnir, sem farast með skipum, sem týnzt hafa. Þetta ákvæði veldur því, að iðgjöld verða miklu hærri en ella. T. d. mun mikill hluti þeirra manna, sem fórust nú fyrir skemmstu, verða bættur samkv. þessari gr., en betra er, að of margir séu bættir en of fáir. Þótti því eðlilegt að láta þetta ákvæði standa óbreytt. N. fékk upplýsingar um, hve mikill lífeyrir hefði verið keyptur samkv. 22 gr., en niðurstaðan af þeim upplýsingum virtist n. þannig, að ekki væri viðunandi að halda sama fyrirkomulagi áfram, t. d. þar, sem reiknað hefur verið með svo lágum vöxtum, að vextir og afborganir samanlagt verður ekki nema rúmlega 3% af bótaupphæðinni. Á þetta sérstaklega við um ungar ekkjur. N. varð sammála um að leggja til, að 22. gr. frv. breytist svo, að í stað fyrri málsgr. í II. lið komi tvær nýjar málsgr., svohljóðandi :

„Auk þeirra trygginga, sem um ræðir í bog c-lið hér að framan, er skylt að tryggja alla skipverja á skipum 300 smálestir (brúttó) og stærri, öðrum en togurum, fyrir jafnháum upphæðum og þar segir. Skulu upphæðirnar greiddar til tryggða sjálfs eða þeirra vandamanna hans, sem bæturnar eiga að hljóta, nema þeir óski heldur, að félagsstjórnin verji þeim til kaupa á árlegum lífeyri hjá viðurkenndum tryggingarfélögum. Skerðir slíkur lífeyrir eigi önnur eftirlaun, er hlutaðeigendur kunna að eiga rétt á. Fyrir tryggingarbætur, sem samkv. þessari grein falla til barna innan 16 ára aldurs, er félagsstjórninni heimilt að kaupa barnalífeyri þeim til handa hjá viðurkenndum tryggingarfélögum, enda komi til samþykki forráðamanna barnanna.

Heimilt skal félagsstjórninni að semja við vátryggingarfélög þau, sem selt hafa lífeyri samkvæmt lögum um stríðsslysabætur, að innleysa skírteinin handhöfum að skaðlausu, enda komi samþykki þeirra eða forráðamanna þeirra til.“

Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra nánar þessar brtt. nefndarinnar. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., og vænti ég, að hæstv. forseti hraði afgreiðslu málsins hér í d. svo sem verða má, svo að það verði að l. á þessu þingi.