25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (5096)

114. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég er þessu frv. í heild samþykkur, en vildi aðeins gera lítillega aths. við brtt. 2. Samkv. henni er gert ráð fyrir, að 22. gr. frv. breytist í þá átt, að ekki sé skylt að verja bótaupphæðinni til kaupa á lífeyri, heldur skuli hlutaðeiganda greitt féð, nema hann sjálfur óski. Ég er þessu samþ. sérstaklega að því er við kemur ekkjum. Þetta sama gildir einnig fyrir börn innan 16 ára aldurs, að því leyti, að félagsstjórninni er að vísu heimilt að kaupa lífeyri börnum til handa, ef samþykki forráðamanna barnanna kemur til, en skyldugt er félagið ekki að kaupa lífeyri. Ég vil mælast til, að hv. frsm. athugi það, hvort ástæða er til að breyta þessu nokkuð frá því, sem það er í frv., að því er börn snertir. Ég held, að langeðlilegast sé, að börnin kaupi sér lífeyri. L. miða nú við aldur innan 16 ára, og því er ekki jafnmikið á reiki, hvað upphæðin verður, heldur þvert á móti. Og á 1–16 ára aldri er auðvelt að tryggja sér bréf með ákveðnum vaxtafæti á það félag, sem lífeyrinn kaupir. Ég held því það sé óþarft að hafa þessa heimild að því er börnin snertir. Mér er næst að halda, að frv. sé bezt eins og það er nú og börnin kaupi jafnan lífeyri. Mér þætti vænt um að heyra um þetta frá hv. frsm.