03.12.1945
Efri deild: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (5111)

127. mál, lögreglustjóri á Dalvík

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf í raun og veru ekki að rekja verulega fyrir hv., flm. þetta mál, því að það er öllum ljóst, að eins og til þessara embætta hefur verið stofnað af hálfu Alþ., þá hafa þau ekki náð sínum tilgangi. Ef við nefnum kauptún, sem reyndar er orðið kaupstaður nú, Neskaupstað, þá var þar í upphafi stofnað bæjarfógetaembætti og ætlazt til þess, að bæjarfógetinn hefði með höndum forstöðu bæjarmálefna. Síðan hefur verið stofnað þar sérstakt bæjarstjóraembætti, og í raun og veru getur maður tæplega talið, að dómara- og lögreglustjóraembætti í Neskaupstað sé fullt starf fyrir einn mann. — Í Ólafsfirði var stofnað með l. lögreglustjóraembætti og ætlazt til þess, að sá lögreglustjóri hefði á hendi forstöðu sveitarmálefna Ólafsfjarðar. Þetta hefur nú verið aðskilið í Ólafsfirði og þar er kominn sérstakur bæjarstjóri til þess að sjá fyrir málefnum staðarins, en lögreglustjórinn situr eftir á fullum launum frá ríkissjóði. Og ég hygg, að sama gildi um Ólafsfjörð og Neskaupstað, að það sé fjarri því, að það sé fullt starf, sem lögreglustjóra er ætlað að vinna fyrir þessi laun. Þess vegna hef ég fundið ástæðu til þess að aðvara hv. þd. gegn því að fara sömu leiðina með Dalvík. Í frv. þessu, eins og það liggur fyrir, er aðeins heimild til þess að sameina starf að meðferð sveitarmálefna á Dalvík og dómsvald, þannig að einn maður, lögreglustjóri, annist það hvort tveggja, en það er ekki eftir frv. nein skylda og jafnvel gert ráð fyrir, að þó að maður, sem skipaður væri þar lögreglustjóri eftir þessum l., hefði ekki með neitt annað að gera en framkvæmd ríkisins á staðnum, innheimtu, lögreglustjórn og dómsvald, þá hefði hann full laun og að auki laun, sem sveitarstjórnin ætlar honum, ef hann hefði málefni sveitarinnar einnig með höndum.

Með stofnun þessara smáembætta, sem ég hef nú bent á, hefur verið gengið inn á braut, sem ekki er heppileg. Og ég held, að Alþ. þurfi að stinga við fótum, áður en lengra er farið í þessu, og láta fara fram þá heildarendurskoðun, sem hv. flm. drap á. Ég tel, að e. t. v. mætti gera þær breyt. á þessu frv., að sú tilætlun næðist, að þetta yrði ekki aðskilið, sem talað er um í frv., að lögreglustjórinn gæti komið til með að hafa með höndum. En þá er Alþ. um leið komið inn á þá braut, að ríkisvaldið ákveði þessum þorpum forstöðu í sveitarmálefnum. (BSt: Þegar þau óska þess sjálf). Ég heyri, að hv. flm. er til viðræðu um vissar skynsamlegar umbætur á frv., og er það vel. En bezt hygg ég samt, að það væri að stofna ekki þessi embætti áður en sú endurskoðun, sem hv. flm. drap á og ég hef tekið undir, að þyrfti að fara fram, væri gerð.