27.03.1946
Efri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (5125)

209. mál, loðdýrarækt

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af landbn. deildarinnar. Það er þannig til komið, að eins og kunnugt er hér áður fyrr, var frá fyrrv. stjórn flutt frv. um breyt. á l. En félag loðdýraeigenda mótmælti, að það frv. yrði samþ. og hefur svo verið soðið upp úr því frv. það, sem hér liggur fyrir, og svo borið undir aðila, sem í hlut eiga. N. hefur borið þetta undir loðdýraráðunautinn og einnig Búnaðarfélag Íslands, og var það frv. heldur meðmælt. N. bræddi svo saman till. ráðunautarins og Félags loðdýraeigenda.

Helztu nýmæli frv. eru fyrirmæli um það, hvernig hlíta beri fyrirmælum l., og mjög hert á ákvæðum um girðingar, svo að dýrin sleppi ekki. Svo eru nánari reglur settar um störf loðdýraræktarráðunautarins. En svo er það atriði, sem mest kann að verða deilt um hér, en það er heimild fyrir ríkisstj. til þess að flytja inn loðdýr til að ala hér upp og selja í þeim tilgangi að bæta stofninn. Enn fremur er einstaklingum leyft að flytja inn líka. Ef ríkisstj. vill á annað borð flytja inn loðdýr, á hún um að velja tvær leiðir, annaðhvort gera það sjálf eða leyfa það öðrum.

Landbrh. hefur haft uppkast frv. og virðist ekkert sérstakt hafa haft við það að athuga. Ég vil svo að lokum óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr.