12.03.1946
Efri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Haraldur Guðmundsson:

Ég býst við, að það þýði ekki mikið að lengja umr. um þetta. Þó vil ég með nokkrum orðum leiðrétta nokkuð af þeim fjarstæðum, sem hér hafa komið fram.

Hv. 1. þm. Eyf. skýrði frá því alveg réttilega, að ég hefði á sínum tíma verið með því að setja þau ákvæði inn í afurðasölulögin, að verðlagsn. væru skipaðar með þeim hætti sem nú er gert, oddamanni frá ríkisstj. og tveimur mönnum, sem ættu sérstaklega að bera hagsmuni framleiðenda fyrir brjósti, og öðrum fyrir neytendur. Þetta er rétt, og ég vil bæta því við, að fyrstu árin, meðan samvinna var milli Alþfl. og Framsfl., þá gekk þetta sumpart vel og sumpart skaplega. En þegar Framsfl. fór að fara fyrir alvöru í lausamennsku, taka saman við hina og þessa, semja við íhaldsflokkinn og loks að taka upp samstarf við hann um setningu gerðardómslaganna, þá spilltist meira en þetta atriði. Þeir hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Str. hafa haldið hér langar ræður um það, að verðlagning landbúnaðarafurða hafi í raun og veru verið í góðum höndum hjá þessum mönnum, og því ekki ástæða til að breyta til. Ég verð að segja það sem mína skoðun og sem meginorsök fyrir því, að ég fylgi þessu frv. nú, að ég álít einmitt, að verðlagsyfirvöldin hafi í þessu efni sýnt sig gersamlega óhæf til þess að rækja það starf, sem þeim var ætlað, undir lokin, ekki alltaf. Ég má kannske minna hv. þm. Str. á það, að ég ætla, að það hafi verið haustið 1944, að verðlagsyfirvöldin rannsökuðu, hvað bændur þyrftu að fá fyrir kjötið, ef allar greiðslur úr ríkissjóði féllu niður. Hvað var það, sem niðurstaðan sýndi þá? Ég er ekki svo minnugur, að ég fullyrði, að ég fari rétt með, en mig minnir, að það hafi verið kr. 17.87 fyrir kílóið, ef þeir áttu sjálfir að taka þann halla, sem yrði af því kjöti, sem út yrði flutt, umfram hallann af því kjöti, sem seldist hér heima. Hvað sem um þessa hluti verður sagt, þá er bara þetta eitt full sönnun þess, að hér var um ábyrgðarlausar forgangskröfur að ræða í bú, sem hv. þm. Str. kallaði gjaldþrotabú. Svo ætlast hann til, að á þessum grundvelli sé byggt og þeim kostnaði sé haldið áfram. Ég sé mýmarga galla á þessu frv. hér, það eru hreinustu bráðabirgðalög, en það er bara nauðsyn til að breyta til frá því, sem áður var. Það skal sagt búnaðarþingi til lofs, að það sá, að þetta var vitleysa og annað ekki. — Ég held í raun og veru, að með þessu sé alveg fullsvarað ummælum þessara hv. þm. um áhuga þeirra í dýrtíðarmálunum og þeirra miklu viðleitni að binda dýrtíðina í landinu. Það sýnir, að þetta er gersamlega ábyrgðarlaust skraf, sem er tekið upp, þegar þeir eru ekki lengur við völd, en vanræktu meðan þeir gerðu ekkert sjálfir. Þetta er sorgleg saga. Ég skil vel, að hv. þm. S.-Þ. segi: „Ef hræðslupeningarnir hefðu aldrei verið borgaðir, hefðu flutningsgjöldin aldrei hækkað.“ Og ég skil, hv. þm. Str., þegar hann segir: „Ef hin ágætu lög, gerðardómslögin, hefðu verið framkvæmd, þá væri allt í lagi.“ En þeim dettur ekki í hug að trúa neinu af því. Og ég vil líka minna hv. þm. Str. á, að þegar gerðardómslögin voru sett, gegn vilja allra skynsamra manna, einnig í Framsfl., þá var það gert, þegar nýbúið var að hækka allar afurðir fyrst. Þetta er sannleikurinn í þessu efni, og það þýðir ekki að hafa það eins og strúturinn, að stinga höfðinu ofan í sandinn og neita að horfast í augu við staðreyndirnar. Ég skal taka undir það, að það er að ýmsu leyti mjög erfitt að sjá, hvað framundan er, en það er gersamlega fjarri sanni að láta sér detta í hug, að við getum til lengdar búið við þetta háttalag, að greiða þurfi uppbætur á framleiðsluna, bæði það, sem neytt er innanlands, og eins hitt, sem flutt er úr landi; að ríkissjóður haldi áfram að greiða þessar uppbætur, getur enginn lifandi maður látið sér detta í hug. Hér verður að gera breyt., og því bar ég fram brtt. við þetta frv., að þessi l. skyldu endurskoðast ekki síðar en á næsta þingi. En einmitt fyrir það, að slíkar ráðstafanir eru gerðar, slíkar greiðslur, á að gera það að skyldu þeirrar stjórnar, sem ræður gangi málanna, að hafa einnig íhlutun og áhrif á, hvaða verðlag er sett á þessar vörur.

Ég játa það, sem fram kom í ræðu hv. þm. S.-Þ., og hann þakkaði fjmrh. fyrir, að eins og þetta frv. liggur fyrir, þá má teygja það á þann veg, að hér sé um neytendastyrk að ræða, en ekki framlög til bænda, og ég skil vel, að hv. þm. Framsfl. komi þetta vel, þó að þeir hafi ekki flutt hæstv. fjmrh. sömu þakkarorðin í þessum efnum og þm. S.-Þ. gerði. Ég kann heldur lakar við þetta í frv. en eins og það var, en það breytir í sannleika engu raunverulega. En sé það svo, eins og framsóknarmenn halda fram, að með þessu sé ríkissjóður að greiða einhvern hluta af launum launþega og verkamanna í landinu, þá er það líka víst, að með þessu er verið að greiða einhvern hluta af tekjum eða launum bændastéttarinnar í landinu.

Hv. þm. S.-Þ. sagði í sinni ræðu, að stíflan gegn dýrtíðinni hefði fyrst og fremst verið brotin, þegar hræðslupeningarnir, sem hann kallaði svo, voru upp teknir fyrir sjómenn. En hann gat þess jafnframt, að önnur stífla hefði brostið, að mér skildist ekki minni, þegar verðlag landbúnaðarafurða var rofið úr tengslum við kaupgjald í landinu og þar með hækkað eins og raun varð á. Og það veit hv. þm. Str. manna bezt, hvort hann gerði sér grein fyrir því á sínum tíma, hvaða afleiðingar gerðardómslögin kæmu til með að hafa, og hitt veit hann líka, að sú vanhugsaða lagasetning varð til þess, að meiri kauphækkanir urðu á árinu en sennilega hefði orðið; ef sú löggjöf hefði aldrei verið sett. Fullvíst er, að sala hefði gengið fyrir sig á venjulegan hátt snemma á árinu 1942, án þess að kæmi til slíkra aðgerða með þeim afleiðingum, sem hv. þm. er kunnugt um.

Það væri ákaflega skemmtilegt að taka þátt í viðræðum hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Str. um það, hvor kynni betur að skipuleggja samtök bænda. Ég held, að það sé nú fjarlægur draumur, sem þm. S.-Þ. virðist láta sig dreyma um að koma í framkvæmd, að bændur stofni til verkfalla, hætti að framleiða kjöt og mjólk nema það, sem þeir þurfa að hafa í belginn á sér sjálfum, og ég held, að allar hans vonir um slíkar aðgerðir muni bregðast. En ég get ekki neitað því, að mér finnst einkennilegt, ef bændur gera ráð fyrir að geta byggt upp stéttarfélag með svipuðum tilgangi og verkamannafélögin, með beinum ríkisstyrk, eins og hv. þm. S.-Þ. orðaði það.

Þegar hv. þm. Str. vill sýna fram á, hvernig þetta hefur breytzt frá því, sem var með verðlagsn., er þrautalendingin að vísa til 6 manna n. álitsins, sem að þeirra dómi jafngildir biblíu í þessum efnum. Það er sú lausn fengin með 6 manna n. álitinu, sem leysti þetta mál og var sanngjörn og eðlileg og því sjálfsagt að byggja á. Já, ég get ekki neitað því, að mig furðar á þessu. Ég geri ráð fyrir, að þm. sé öllum kunnugt, að Alþfl. var þegar í upphafi andvígur niðurstöðum 6 manna n. og sýndi fram á, að ómögulegt væri til lengdar að framkvæma þær að því er verðlagningu snerti. Mér finnst því hæpið af þm. Str. að halda sér að sex manna n. álitinu sem einhverjum sérstökum drottinsúrskurði, eftir að búnaðarþing, sem hann leggur mikið upp úr, hefur staðfest skjallega, að á því sé ekkert byggjandi, og víst er um það, að það er ekkert á því byggjandi, sem ekki er von.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um spádóma hv. þm. Str. og hv. þm. S.-Þ., sem báðir virtust stefna að því sama: algert þrot framundan. Hv. Str. orðaði það svo, að þm. hegðuðu sér eins og þeir væru að gera kröfur í bú, hvers konar bú veit ég ekki. Ég vil ekki neita því, eins og ég áður sagði, að það er tvísýnt um það, hvernig rætist fram úr á næstu árum, en ég get samt ekki neitað því, að mér finnst hv. þm. Str. vera ofhaldinn af þessari heimsku, og það er það, sem hefur auðkennt pólitík þessa hv. þm. upp á síðkastið mjög áberandi, eins og þau, sumpart eftirsóttu og sumpart reyndu, vistaskipti hv. þm. Str. hafa nokkurn svip sett á starfsemi flokksins. Eftir langt samstarf við Alþfl. var því slitið með gerðardómsl. 1942 og tekin upp mjög innileg samvinna við Sjálfstfl. og helztu forustumenn hans. Eftir kosningarnar 1942 sitjum við báðir á samningabekk, fyrst við alla flokka og síðan um að koma á vinstri stjórn með kommúnistum. Fullkomnar hugleiðingar, óskir og eftirlanganir voru af okkar beggja hálfu, þótt þessi yrði endirinn, — skal ég ekki rekja þá sögu alla, en það strandaði, það skal viðurkennt. Hv. þm. hefur verið í sambúð við Alþfl. og innilegri sambúð við Sjálfstfl. og leitað eftir sambúð við kommúnistafl. Það er sömu söguna og um hina flokkana að segja, og Alþfl. hefur einnig verið kenndur við slíkt óskírlífi, en kommúnistar héldu meydómi sínum fram undir það síðásta. Það má gera gys að þessu, en allir flokkar eru undir sömu sökina seldir í þessu efni. En það er dálítið mismunandi, hvernig gengur til með vistaskiptin. Ég skal ekki neita því, að Alþfl. hefur stundum haft vistaskipti, hann hefur stundum breytt um samstarfsmenn. En Alþfl. hefur aldrei haft vistaskipti í þeim skilningi, að hann hafði ekki fylgt áfram sömu málum, eftir því sem efni stóðu til og hægt var að koma fram. En það er meira en hægt er að segja um Framsfl., ég á orðastað við hann nú og skal því láta hina liggja í þagnargildi. Ég skal svo láta þessum mínum orðum lokið.